Rísbekt kæru netverjar hér á veraldarvefnum!

Þessi netverji sem þetta ritar tengist veraldarvefnum um það sem oft er kallað módem. 56 k þykir merkileg tala þegar maður notar svoleiðis dót og þessvegna hugsar maður stundum um framtíðina, þegar maður fær allt sem maður vill á verði sem er ásættanlegt. mikið hlakkar maður til þess dags.

Ég hef kannski ekkert vit á öllu þessu þróaða dóti, en án þess að hafa farið út í vísindalegar markaðsrannsóknir, hef ég á tilfinningunni að þetta sé algjör frumskógur af földum gjöldum og þess háttar leiðindum. Hvað geta félagar mínir á Veraldarvefnum sagt mér í sambandi við þetta mál?

Ég er bara ekki tilbúinn til þess að eyða 4-5 þúsundum á mánuði í netið með öllu. Mér finnst upphæðirnar sem maður er að sjá, til dæmis í grein um tilboð Íslandssíma, alveg út í hött.
Ég meina þegar auglýst er 2.900. á mánuði er þá allt í lagi að á bak við “tilboðið” sé einhver allt önnur tala. Ég tek það fram að ég er óháður öllum þessum kompaníum og hef frekar litla trú á þeim almennt, en svona framkoma getur varla kallast annað en S V I K.

Mér finnst það óþolandi að því sé tekið sem sjálfsögðum hlut að hrópa upp svona dæmalausa vitleysu. Er það bara allt í lagi!

Ég held ég verði bara að þjálfa þolinmæðina enn um sinn með mínu fúla módemi, því ég er ekki tilbúinn til þess að láta fara með mig eins og helvítis fífl, þó maður sé kannski oft ekkert ofboðslega gáfulegur. Ég á til dæmis alveg von á að einhverjir sem eiga hagsmuna að gæta fordæmi það sem ég er að segja, en manni bregður ekkert við slíkt. Það er venjan ef einhver er með meiningar að hagsmunaaðilar kaffæri umræðuna með gamla góða megariða-trikkinu og að reyna að þagga niðrí gagnrýnisröddum með yfirlætislegri vanþóknun á skorti á vísindalegum upplýsingum o.s.frv., en staðreyndin er að mínu mati sú að þessi bransi er ömurlegur og allt of mikið í þessum Íslandssíma-tilboðs-dúr.

Baráttukveðja til allra vefara eða hvað sem þið kallist, netverjar, eða eitthvað og veraldarvefurinn fær auðvitað sína tölu, sem ég neita að gefa upp að svo stöddu. Sendi bara reikniginn þegar þar að kemur!

Baráttu-Kveðja