Það er ósjaldan sem ýmiskonar ruslpóstur ratar í Hotmail inboxið mitt. Nokkrar tegundir þessara ruslpósta hafa þó vakið athygli mína.

Ég hef amk. 4 sinnum fengið póst sem sagður er ættaður frá Microsoft og er búinn að fara víða áður en ég tek við honum. Í þessum pósti er varað við að ef hann er ekki áframsendur til x margra hotmail notenda verði hotmail addressunni manns lokað. Öll skiptin sem ég hef fengið þetta hef ég hent þessu, og enn helst addressan mín opin… Er fólk virkilega svona trúgjarnt? Ef Microsoft hefði í hyggju að athuga virkni notenda á hotmail þá myndu þeir ekki gera það á þennan hátt, það er nokkuð öruggt.

Svo er annar póstur sem ég hef séð í algerlega óbreyttri mynd amk. þrisvar undanfarið ár eða svo. Þá er verið að vara við “stórhættulegum” vírus sem er dreift með screensaver með Budweiser froskunum. Þessi póstur gerðist reyndar svo frægur að komast á póstfang sem ég er með í vinnunni, og hafði þá einhver starfsmaður fengið þetta og þótt við hæfi að vara alla starfsmenn við þessum “stórhættulega” vírus.

Þriðja tegund pósta er (að mínu mati) jafnframt sú fáránlegasta. Með þeim er verið að höfða til góðmennsku fólks o.s.frv. Þessi póstur inniheldur sorglega sögu um 10 ára stelpu sem er með krabbamein. Eina leiðin til að lækna hana er að koma henni í aðgerð, en foreldrar hennar eiga ekki fyrir þeirri aðgerð. Því leituðu foreldrarnir á náðir AOL (America Online). Það sem netverjar þurfa svo að gera er að senda þennan póst áfram til amk. 3 og þá fá þau 32 cent frá AOL. Sagt er að AOL rekji þessa pósta til talningar.

Er fólk virkilega svona trúgjarnt?