Góðan og blessaðan

Þetta blogg á ekki að vera vettvangur fyrir nöldur og nag, heldur fremur hugleiðingar í amstri dagsins.

Undanfarna daga hef ég verið að velta fyrirmér hversvegna fólk er með netfang og tölvupóst sem það svo ekki les. 21. öldin er byrjuð og upplýsingasamfélagið er á fullu skriði. 87% þjóðarinnar brúkar Internetið að því sagt er. Vefmiðlar flytja okkur fréttir látlaust allan sólarhringinn og Vefurinn er stærsti upplýsingabanki sem nokkurntíma hefur fyrirfundist.

Við lifum á gósentímum og mannkynið hefur ekki látið sig dreyma um nokkuð viðlíka áður. Við göngum með farsíma og getum náð sambandi við Honolúlú á augabragði ef við kærum okkur um. Samt er ennþá til fólk sem lifir í anda 19. aldar. Þetta fólk hefur netfang, en hugar ekki að pósti sínum nema sisvona sjöttu hverja viku!!! Og sumt af þessu fólki telur sig vera í viðskiptum.

Þrátt fyrir upplýsingaöld og tæknisamfélag, þá virðist sem stór hluti fólks sé hreinlega ekki að skilja hvað þessi hugtök snúast um. Hugsunarhátturinn nær ekki út fyrir moldarkofann þar sem pósturinn átti leið um mánaðarlega, ef færð leyfði, annars vor og haust.

Það fer að renna upp fyrir mér hversvegna íslenski hluti vefsins nær ekki að blómstra og íslenskar Vefverzlanir svelta. Stór hluti landans er einfaldlega ennþá of fáfróður til að nýta sér tæknina sem fyrir hendi er. Þúsundir vinnustunda og milljónir króna fara í súginn vegna þess að fólk nennir ekki að læra einfalda vefsiði og tileinka sér þá töfraveröld sem í boði er.

Hristið af ykkur slenið kæru landar og nýtið ykkur kostina sem Netið hefur upp á að bjóða. Við höfum ekki efni á að láta þessa tækni fram hjá okkur fara. Kína og Afríka munu stinga okkur af í Netnotkun ef við förum ekki að taka okkur á.

Kveðja
Björgvin Árnason
www.hugverk.com
Björgvin Árnason