Sælir allir hér.
Las þessa grein í morgunblaðinu áðan og langar að deila henni með ykkur.

Sumir spá því að á næstu árum muni Netið hrynja undan vaxandi álagi frá ruslpósti, tölvuveirum, klámi og alls kyns svindli og svínaríi en aðrir sjá fyrir sér spennandi tíma, fulla af furðulegum fyrirheitum.

SEGJA má með nokkrum sanni, að Internetið sé 35 ára um þessar mundir. Það minnir samt ekki á miðaldra mann, sem búinn er að taka út sinn þroska, heldur miklu fremur á uppreisnargjarnan ungling, sem veit ekkert hvaða stefnu hann á að taka.

Netið gæti orðið öruggara og 1.000 sinnum hraðvirkara en nú og það gæti líka orðið að vettvangi fyrir alls kyns rugl og vitleysu, ruslpóst, tölvuveirur, klám, svindl og svínarí og hrakið þannig í burtu allt heiðarlegt fólk. Sumir sérfræðingar segja, að hvað sem þessu líði, sé mikil óvissa um framtíð Netsins, einkum vegna vaxandi áhyggna af öryggismálunum. Aðrir segja fulla ástæðu til að óttast, að Netið muni hrynja á næstu árum undan álaginu frá þessum óhroða.
“Sumar grundvallarforsendurnar, sem lagt var upp með, eiga ekki lengur við,” segir Jonathan Zittrain, einn af stofnendum “Berkham Center for Internet & Society” við lagadeild Harvard-háskóla. Upphaflega var Netið sett upp til að vísinda- og fræðimenn gætu skipst á skoðunum en síðan þróaðist það í opið kerfi, sem ýtti undir samstarf og þá á þeim forsendum, að notendur væru þeir, sem þeir segðust vera.

Vandinn er að nokkru leyti vaxandi álag frá ruslpósti, svikamyllum alls konar og tölvuveirum og að nokkru leyti tilraunir rótgróinna fyrirtækja, til dæmis tónlistar- og kvikmyndafyrirtækja, til að vernda höfundarrétt sinn á stafrænu efni.

“Ein aðferð þeirra er sú að reyna að hefta frjálsan aðgang að Netinu,” segir Zittrain og bendir á, að í síðasta mánuði hafi tónlistariðnaðurinn höfðað 761 mál gegn einstaklingum fyrir að skiptast á tónlistarefni, sem tekið hafði verið af Netinu.

Enn á bernskuskeiði
Þótt sumir hafi áhyggjur af því, að Netið muni koðna niður undir álaginu, þá eru flestir netsérfræðingar á öðru máli. Einn þeirra, Leonard Kleinrock, segir, að Netið sé að sumu leyti enn á “steinaldarstiginu” og eigi því langa ferð fyrir höndum. Segist hann sjá fyrir sér, að í framtíðinni verði Netið tengt næstum því hverju sem er, til að mynda veggjum hússins. “Gangi ég inn í herbergi munu veggirnir eða Netið þekkja mig og ég mun geta talað við þá, átt við þá samskipti á mjög raunverulegan hátt,” segir Kleinrock og spáir því, að framtíðarnetið muni bera í skauti sér marga furðulega hluti.

“Enginn sá Netið fyrir, eða tölvupóstinn, skilaboðin, Napster. Um þetta er heldur ekki gott að spá og ég tel, að á þessu sviði verði vöxturinn. Hann mun koma frá unga fólkinu.”

Internet2
Internet2, sem nú er rekið á vegum Abilene Network en ekki á opnu Netinu, er þúsund sinnum hraðvirkara en venjuleg breiðbandstenging. Er það notað af ýmsum, til dæmis stjarnfræðingum, sem geta fjarstýrt sjónaukum með því, og af kennurum, sem geta þá mjög greinilega heyrt og séð til nemenda sinna í mikilli fjarlægð.
Douglas Van Houweling, forseti og aðalframkvæmdastjóri Internet2, segist einu sinni hafa fylgst með Michael Tilson Thomas, stjórnanda sinfóníuhljómsveitar San Francisco-borgar, leiðbeina ungum stjórnanda í gegnum Internet2-tengingu. Sagði Thomas unga manninum lágri röddu að taka af sér armbandsúrið þar sem það íþyngdi honum við stjórnunina. “Tónlist eins og hún gerist best er ákaflega blæbrigðarík og þess vegna þarf fyrsta flokks tengingu til að koma henni til skila,” segir dr. Houweling. “Það á við um Internet2 og samvirkni þeirrar tengingar á ekkert skylt við fjarfundi eða ráðstefnur, sem haldnar eru fyrir milligöngu myndbands- eða sjónvarpsvéla.”

Van Houweling segir, að fyrir utan þetta geti Internet2 flutt “mjög stórar, stafrænar skrár”, vísindalegar upplýsingar eða nýjustu Hollywood-myndina, á örfáum sekúndum. Hefur það vakið áhuga Samtaka kvikmyndaframleiðenda í Bandaríkjunum, sem eru að kanna kosti Internet2 og raunar einnig galla.

Aukið öryggi með IPv6
Cary Sherman, forseti Samtaka tónlistarfyrirtækja í Bandaríkjunum, sagði fyrir þingnefnd í október síðastliðnum, að “sjóræningjar” væru þegar farnir að láta að sér kveða á Internet2. Sem dæmi nefndi hún, að námsmenn notuðu kerfi, sem kallað væri i2hub.com, til að skiptast á skjölum og flytja höfundarréttarvarið efni á milli háskóla.
Internet2 og IPv6, nýtt vistfangakerfi, bjóða upp á meira öryggi hvað þetta varðar en núverandi kerfi, sem notað er á Netinu, eða IPv4. Sem dæmi um það má nefna, að símtal um Netið er dulkóðað með IPv6 og mjög erfitt að ráða þær rúnir. Farið er að nota IPv6 í ýmsum búnaði og bandaríska varnarmálaráðuneytið ætlar að taka það upp 2008.
Jonathan Zittrain segist sjá fyrir sér, að Internet2 verði notað af “samvöldum hópum”, sem vilji lokað og öruggt kerfi, og síðan verði sjálft Netið, sem sé opið upp á gátt og minni helst á “frumskóg fullan af fjársjóðum og baneitruðum snákum”. Það verði áfram vettvangur fyrir ævintýramenn og ofurhuga.

Þetta er er fróðleg grein og svo er bara spurning hvað gerist.

Takk fyrir mig og
Gleðileg Jól