Flugfélagið Air Canada er fyrsta flugfélagið í heiminum til þess að gefa farþegum færi á að komast á Netið í flugi. Með tengingu sem samsvarar 56 Kb/s geta farþegar sótt tölvupóst eða vafrað um Netið í flugi. Enn eru nokkrir byrjunarerfiðleikar sem félagið þarf að glíma við, svo sem að hraðinn til og frá jörðu er stundum takmarkaður, 9,6 Kb/s í innanlandsflugi og 2,4 Kb/s í millilandaflugi. Félagið ætlar ekki að taka gjald af þessari þjónustu því hún er enn á reynslustigi. Air Canada hefur gert samning við Tenzing um að það útvegi Pentium-miðlara í flugvélarnar fimm til þess að keyra tölvubúnaðinn.

Tenzing hefur gert samning við fleiri flugfélög, eins og Cathay Pacific Airways, sem stefnir að því að netvæða 62 flugvélar sínar með 1,5 Mb/s-tengingu og nota þráðlausa LAN-tengingu til gagnaþjöppunar. Búist er við að slík þjónusta verði orðin að veruleika í apríl á næsta ári, að því er greint er frá í Computerworld, <a href=“www.computerworld.com” target=“new”>www.computerworld.com </a> . Gert er ráð fyrir að flutningshraði í gegnum gervihnött Inmarsat nemi 2,4 Kb/s. Hins vegar áformar Inmarsat að bjóða tengingu sem nemur 64 Kb/s síðar á næsta ári.


Þá ætla Boeing-verksmiðjurnar að gera háhraða nettengingu mögulega fyrir flugfélög. Connexion-tækni fyrirtækisins mun nota breiðbandsgervihnetti til þess að gera farþegum kleift að komast í netsamband, skoða tölvupóst og horfa á sjónvarp. Gert er ráð fyrir að þessi búnaður verði orðinn algengur í farþegavélum seint á næsta ári eða í upphafi árs 2002, að því er fram kemur í frétt Techweb.com, <a href=“www.techweb.com” target=“new”>www.techweb.com</a>. Búnaðurinn er í þróun í tólf herþotum, tólf farþegavélum og einkavél Scott E. Carson, aðstoðarforstjóra Boeing. Búnaðurinn, sem enn þarfnast samþykkis yfirvalda í Bandaríkjunum, vakti mikla athygli á Comdex-sýningunni síðastliðið haust. Segir að gert sé ráð fyrir að búnaðurinn kosti álíka mikið og meðalfarsími.

Cazper[International]
Haukur Már Böðvarsson