Minnisbækur ítalska lista- og vísindamannsins Leonardó da Vinci (1452-1519) eru illlæsilegar fyrir margra hluta sakir. Þar ber fyrst að nefna að listamaðurinn notaði spegilskrift og byrjaði hverja línu hægra megin á blaðinu og skrifaði til vinstri. Þeir sem eru vanir að lesa óspeglaða skrift frá vinstri til hægri þurfa þess vegna að venjast öðrum leshætti. Leonardó skrifaði minnisbækurnar með vinstri hendi og það er sennilegra þægilegra fyrir örvhenta að skrifa frá hægri til vinstri líkt og rétthentum finnst auðveldara að skrifa frá vinstri til hægri.

Torræðni skriftar Leonardó hefur lengi verið alkunn. Ítalski listamaðurinn Giorgio Vasari (1511-1574) sem skrifaði ævisögur listamanna hafði þessa skýringu á henni:
hann skrifaði með vinstri hendi afturábak og vandaði skriftina lítið, svo að ókunnugir ættu erfitt með að lesa skriftina.
Fleira veldur þó vandkvæðum við lestur minnisbókanna. Í þeim er engin greinamerkjasetning og þar af leiðandi er erfitt að átta sig í fljótheitum á upphafi og enda setninga. Leonardó átti það einnig til að skrifa mörg stutt orð sem eitt langt og löngum orðum skipti hann stundum í tvennt.

Þess ber einnig að geta að á minnisblöðum hans er efnið stundum býsna ósamstætt. Síða getur hafist á nákvæmri könnun á samsetningu þarmanna og síðan lokið á heimspekilegum vangaveltum um tengsl skáldskapar og myndlistar.