Michelangelo- frá upphafi til Sixtínsku kapellunnar Ritgerð sem ég skrifaði fyrir áfangann Myndlistarsaga 103
———————————————————-
Uppvaxtarárin

Michelangelo Buonaroti fæddist þann 6. mars árið 1475 í Caprese, litlu þorpi austur af Flórens á Ítalíu, sem í dag heitir Caprese Michelangelo, honum til heiðurs. Nokkrum vikum eftir að hann var fæddur fluttist fjölskyldan hans svo til Flórens.
Hann var annar í röð fimm bræðra en foreldrar hans voru þau Ludovico di Leonardi di Buanoroti Simoni og Francesca Neri. Nóttina sem hann fæddist las faðir hans í stjörnurnar að það væri mikilmenni sem myndi fæðast sem gæti náð góðum árangri á hvaða sviði sem er en þó sérstaklega í sjónrænum listum á borð við listmálun, myndhögg og arkitektúr.

Móðir hans, Francesca, dó árið 1481 þegar hann var sex ára og hafði það stór áhrif á uppvöxt hans. Það þótti reyndar ekki óvenjulegt í Flórens á tímum Endurreisnarinnar að foreldrar dæju um aldur fram og var hann sendur í fóstur til konu í Settignano rétt fyrir utan Flórens.

Virðing og staða ættarinar fór dvínandi og vonaðist faðir hans til þess að þær litlu eignir sem fjölskyldan átti enn gætu komið Michelangelo í gegnum nám sem myndi gera hann góðum buisness manni sem gæti viðhaldið virðingu Buonoroti ættarinnar í samfélaginu. Michelangelo hafði hinsvegar snemma gert upp hug sinn varðandi hvað hann vildi taka sér fyrir hendur. Hann hafði verið sendur í skóla þar sem honum var kennd latína, en námið gekk ekki betur en svo að seinna þurfti að þýða fyrir hann alla samninga sem hann gerði á latínu. 13 ára gamall hafði hann ráðið sig sem lærling hjá málaranum Domenico Ghirlandaio, föður sínum til lítillar ánægju.

Eftir að hafa verið hjá Ghirlandaio í um það bil eitt ár var honum boðið að fara í Medici Gardens, sem er villa sem var í eigu Medici ættarinnar og læra þar skúlptúragerð og höggmyndalist. Hann hafði ekki verið lengi þar þegar honum var boðið að taka þátt í heimilishaldinu hjá Lorenzo de Medico og fékk þá tækifæri á að kynnast ýmsum listamönnum. Á tíma sínum þarna kynnti hann sér líffræði og líkamsbyggingu mannsins og bjó hann meðal annars til listaverk fyrir prestinn í kirkju Santo Spirito, Niccoló Bichiellini í skiptum fyrir það að fá að skoða mannslík, en slíkt var með öllu bannað af kirkjunni. Nærvera hans við líkin ullu honum hinsvegar heilsutjóni þannig að hann varð að láta af þessum rannsóknum.

Árið 1492 dó Lorenzo og hafði dauði hans mikil áhrif á samfélagið. Hann skildi eftir sig mikin og góðan orðstír í Flórens þar sem hann hafði verið mikill áhugamaður um listir og pólitískar aðferðir. Hann hafði verið listamönnum, skáldum og fræðimönnum mikil hvatning og fyrir hans tilstilli hafði verið komið á fót skóla fyrir unga listamenn.Við dauða hans klofnaði Flórens í fylkingar og þá ákvað Michelangelo að færa sig til Rómar.

Í Róm gafst honum tækifæri á að skoða bæði styttur og rústir sem veittu honum mikinn innblástur og á þessum tíma vann hann að tímamóta verki sínu, Pietá. Pietá er stytta sem sýnir Maríu halda á látnum líkama krists, og er í rauninni allt sem myndhöggvari sækist eftir í verki sínu. hún er í senn tignarleg, tjáningarrík og fögur á sama tíma og hún er raunsæ auk þess að vera gerð af þvílíkri nákvæmni að áferðin virðist vera hreint ótrúleg. Þetta var verkið sem kom Michelangelo endanlega inn á kortið sem einn besti listamaður síns tíma.

Um 1501 sneri hann svo aftur til Flórens þar sem að hann bjó meðal annars til styttu af Davíð sem var um 4 m há og er hún talin gott tákn um föðurlandsást hans, ef svo má segja, en hann var sannur borgari Flórens sem var að fara í gegnum erfitt tímabil þarna og átti styttan að veita þeim byr í brjósti. Auk þess að vera tákn um það að andlegur styrkur getur haft mikið meira að segja en vopnastyrkur. Það var svo árið 1508 að Michelangelo Buenarotti var beðinn um að koma að því að skreyta Sixtínsku kapellunua í Vatikaninu.1

Sixtínska kapellan

Sistínska kapellan, sem er staðsett í Vatikaninu í Róm, var byggð á árunum 1475-1481 af Giovanni de’Dolci. Hún er 40,9 x 13.4 m, hefur 20,7m lofthæð og á henni eru sex gluggar á hvorri hlið.
Andrea Bregno, ítalskur högglistarmaður og arkitekt, bjór til marmarastallinn sem aðskilur altarið frá restinni af gólfinu, auk þess sem hann gerði svalirnar fyrir kórinn.Kapellan var byggð að skipun Sixtus IV páfa og fékk hann listamennina Botticelli, Ghirlandaio, Cosimo Roselli, Pierro di Cosimo, Perugino, Pinturicchio, Bartolomeo della gatta og Luca Signorelli til þess að skreyta veggina fyrir neðan gluggana. Veggjunum er skiðt niður í einfalda ferningslaga ramma og sýna þeir á vinstri hönd myndir úr lífi Móses, en þeir á hægri hönd myndir úr lífi Jesú. Á milli glugganna sjálfra eru brjóstmyndir af páfum fyrri tíma.

Fyrir utan einstaka fegurð er kapellan merkileg fyrir þær sakir að þar inni funda kardínálar Kaþólsku kirkjunnar þegar kemur að því að velja nýjan páfa. Það er gert með aldagömlum hefðum, og hefst kjör nýs páfa ekki fyrr en í fyrsta lagi 15 dögum eftir andlát forvera hans. Kardinálarnir eru þá læstir inni í Sixtínsku kapellunni og fá ekki að hafa nein samskipti við umheiminn fyrr en þeir hafa komist að niðurstöðu, sem þýðir að einn þeirra hljóti 2/3 atkvæða eða meira. Það er þó með þeirri undantekningu að hljóti enginn 2/3 atkvæða eftir 13 daga dugar hreinn meirihluti til sigurs. Fyrir þessar sakir er ýmis útbúnaður innan kapellunar sem er notaður við framkvæmd nýs páfa. Til dæmis hefur hver kardínáli hásæti og borð. Þá eru atkvæðaseðlar, og kjörkassi, kaleikur undir ösku seðlanna og ofn til þess að brenna atkvæðaseðlanna. Náist ekki niðurstaða í kosningu er blautt hey sett inn í ofninn þegar seðlarnir eru brenndir en við það verður reykurinn svartur, og er umheiminum þannig gefið merki um framvindu mála þangað til að hvítur reykur rís úr strompnum sem er þá tákn um að nýr páfi hafi verið valinn.

Freskur Michelangelos

Eins og áður hefur komið fram var Michelangelo fenginn til þess að koma að skreytingu Sixtínsku kapellunnar árið 1508. Það var Julius II páfi sem skipaðu hann í verkið. Michelangelo var tregur til þess að taka að sér verkið, enda leit hann fyrst og fremst á sig sem myndhöggvara og áleit að það hlyti að vera bragð óvina sinna að bjóða honum svo stórt málaraverkefni, til þess eins að sjá hann mistakast verkefnið og hröklast frá. Michelangelo var trúaður og fannst eins og list sín væri oftar en ekki óboðleg Guði og það hefur eflaust haft eitthvað með það að gera hversu tregur hann var til að taka að sér að veggskreyta byggingu innan Vatikansins.

Það hvernig Julius ákvað að fá myndhöggvara í þetta gríðarlega mikla verkefni á sér reyndar lengri sögu, en hann hafði í upphafi fengið hann til þess að búa til grafhýsi fyrir sig. verkið var vel á veg komið þegar hann ákvað skyndilega að flýja til Flórens og gaf seinna til kynna að það hefði verið vegna þess að hann væri hræddur um að það væri verið að reyna að drepa hann.
Miklar deilur urðu þá á milli hans og páfans en enduðu með því að Michelangelo samþykkti að vinna fyrir hann í í kapellunni. Ástæðan fyrir því var að skemmdir höfðu orðið á skreytingum hennar og Julius sá sér þar leik á borði að geta sett mark sitt á þessa merku byggingu. Hann hafði sjálfur ýmsar hugmyndir um hvernig nýju skreytingarnar áttu að vera en Michelangelo var ósammála honum svo úr varð að páfinn sagði honum að gera það sem hann vildi.

Verkinu má skipta í þrjá hluta, í fyrsta lagi sköpun heimsins, í öðru lagi brottreksturinn úr Paradís og í þriðja og síðasta lagi Sagan af Nóa. Þessi verk sýna þannig tímabil á undan þeim sem fyrir höfðu verið máluð á veggi kapellunnar. Inn á milli í þríhyrningslaga formunum má svo sjá myndir af spámönnum og atvikum úr Gamla Testamentinu. Talið er að byrjað hafi verið á verkinu í kringum september 1508 og hafði Michelangelo þá að minnsta kosti fimm menn sér til aðstoðar. Það var ekki eingöngu vegna stærðargráðu verksins sem þeir áttu fyrir höndum, heldur einnig vegna þess að þarna hafði hann ekki málað freskur síðan á lærlings tímabili sínu. Hversu lengi og hversu mikla aðstoð hann fékk hefur hinsvegar verið deiluefni. Byggingin sjálf olli einnig töluverðu veseni við framkvæmdina en til að mynda voru veggir hennar ójafnir eins og tíðkaðist á þessum tíma og myndflöturinn því misstór eftir svæðum. Einnig ollu bogadregin þríhyrningslaga formin ákveðnum vandamálum og þurfti að taka sérstakt tillit til þeirra til þess að myndirnar kæmu ekki bjagaðar út frá því sjónarhorni sem horft yrði á þær. Til þess að hægt væri að mála uppi í loftinu bjó hann sjálfur til nokkurskonar færanlega brú sem þeir gátu unnið á og fært til eftir þörfum. Þvert gegn því sem mikið hefur verið haldið fram, þá þurfti Michelangelo og aðstoðarmenn hans ekki að liggja á bakinu við að mála upp í loftið, heldur stóðu þeir að mestu leiti við verkið.

Þekktasta myndin í þessari hvelfingu listaverka er án efa Fæðing Adams. Mynd sem er máluð á mitt loftið og sýnir augnablikið þegar Guð hleypir lífi í Adam, fyrsta manninn á jörðinni. Guð er ásamt englum sínum uppi til hægri og teygir hönd sína niður til Adams sem liggur á jörðinni og fingur þeirra nánast snertast. Sagt er að ekkert eitt listaverk hafi haft jafn mikil áhrif á það hvernig fólk túlkar útlit Guðs. Um það hefur einnig verið sagt að það sé svo stórbrotið og mikilfenglegt að aðeins Mona Lisa eftir Leonardo Da Vinci geti talist standa því jafnfætis. Verkið Dómsdagur sem þekur allan vegginn fyrir ofan altarið er einnig mjög þekkt, en það sýnir helvíti eins og því er lýst í Hinum Guðdómlega Gleðileik eftir Dante.

Þessu mikla myndlistarafreki lauk árið 1512 og hafði Michelangelo og teymi hans þá málað 40,23 x 13,30 m eða 535,059 m2 á 4 árum.