Já mér hálf leiðist eitthvað og ákvað að senda inn ritgerð sem ég gerði í listasögu á seinustu önn. Þið eruð snillingar ef þið nennið að lesa þetta.
Það er nauðsynlegt btw að skoða linkanna til að skilja ritgerðina.

Í meira en þúsund ár hefur móðurímyndin verið tilbeðin og dáð. Með fyrstu listaverkum sem maðurinn hefur gert voru líkneski af vel holdugum konum, mæðrum fyrir um það bil 25.000 árum . Í flestum trúarbrögðum kemur þessi móðurímynd fram, eins og Isis hjá Egyptunum til forna, Gaia frá Grikkjum og svo mætti lengi telja. Eftir fæðingu Krists kemur fram ný móðurímynd en það er engin önnur en María mey. Þrátt fyrir að kristin trú boði aðeins einn guð er ekki hægt að neita því að María var og er tilbeðin eins og aðrar móðurímyndir fyrri alda. En á miðöldum var þetta mjög greinilegt og sérstaklega í listum. Spurningin er, hvernig endurspeglaðist Maríudýrkunin í listum á síðmiðöldum?

Staða listamanna á miðöldum var ekki sérlega góð. Þeir stunduðu það ekki að merkja myndirnar sínar og þeir virtust ekki læra af umhverfinu. Í stað þess að horfa og sjá lærðu þeir af eldri meistara staðlaða myndagerð, rétt eins og Egyptarnir í forðum.

Enn upp úr 13. og 14. öld verður breyting á list á Ítalíu. Miklar verslunarborgir fóru að myndast og í kjölfarið fara listamenn að verða nafnfrægir og eftirsóttir. Listin byggði ennþá mest á miðaldarlegum og býsönskum hefðum en nýjungar byrjuðu að skjóta upp kollinum. Kristin list fer að þróast og ýmis viðfangsefni eins og María mey stinga upp kollinum.

María mey er hin þekkta móðir Jesús í kristinni trú. María er einnig þekkt undir nafninu Madonna sem þýðir í rauninni „lafði mín“. Nýja testamentið lýsir Maríu sem ungri mær sem fær yfir sig heilagan anda og verður með barni. Þá var hún þegar trúlofuð Jósep. Alltaf er talað um hana sem hreina mey og að hún haldi þeim hreinleika sínum til dauðadags.
http://www.destination360.com/europe/france/images/s/france-notre-dame-cathedral.jpg
Hin svokallaða Maríudýrkun hófst að verulegu marki upp úr 12. öld og mátti sjá mikið af Maríu mey í listaverkum, málverkum, þá kristinni myndlist, og bókmenntum. Einnig voru heilu kirkjurnar helgaðar henni eins og Notre Dame sem þýðir einfaldlega Vorrar frúarkirkja. Hámark þessa tímabils náði á 13-15 öld.
María mey er oftast þekkt á málverkum eftir klæðnaði hennar. Hún er vanalega sýnd sem ung móðir með ungabarn í fangi sér. Hún er oft klædd í bláan möttul sem er yfir rauð klæði, blái möttulinn nær yfir höfuð hennar og oft má sjá þunna og gegnsæja silki blæju liggja yfir höfði hennar. Hún og Jesúbarnið eru ávallt sýnd með geislabaug.
Myndirnar af Maríu mey sýna hana oft á tíðum sitjandi með Jesúbarnið.

http://www.abcgallery.com/G/giotto/giotto27.JPG

Boðunin er ein algengasta senan hjá kristnum mönnum í vestur og austur Evrópu. Boðunin er þegar erkiengilinn Gabriel kemur til Maríu og ber henni tíðindin um að hún sé barnshafandi. Önnur sena sem er algeng er þegar María mey er boðuð inn í himnaríki og krýnir þar Jesú hana sem drottningu himnanna. Eining eru sýndir atburðir síðustu daga hennar og dauða.

Máverkið María með barnið í hásæti eftir Giotto er mjög gott dæmi um málverk gert á tímum Maríudýrkunar. Verkið er málað um 1310 og sýnir Maríu mey sitjandi með Jesúbarnið. Fyrir neðan má sjá tvo engla ásamt samansöfnuði af fólki fyrir aftan sem geta bæði verið englar og dýrlingar. Þau eru öll með geislabaug sem gefa til kynna að öll eru þau heilög. Raunsæið er að byrja að sýna sig, í fellingum klæða og andlitum en Jesúbarnið er ennþá mjög líkt smækkaðri mynd af manni og fjarvíddin var ekki komin langt.

Krýning Maríu er eins og nefnt var áðan, eitt af algengustu viðfangsefnunum þegar það kemur að Maríu. Þessi mynd hér var máluð á seinni hluta Maríudýrkunarinnar eða á árunum 1502-3 og var máluð af Raphael.

http://upload.wikimedia.org/wikipedia/commons/thumb/c/c4/PalaOddiRaffaello.jpg/365px-

Myndir sýnir Maríu Mey sitjandi á móti syni sínum í himnaríki. Hann heldur kórónu yfir höfði hennar til þess að krýna hana og hún beygir sig í lotningu. Dansandi og spilandi englar umkringja þau í skýjalíku himnaríki. Það má taka eftir því að Jesú er klæddur rauðu, en sá litur stendur fyrir konunglegt, og María er næstum í sínum hefðbundnu litum. En í þetta sinn er möttull hennar grænn en ekki blár, það má sjá það sama á öðrum verkum Raphaels. Hvort það er hans hugmynd eða hvort hann hafði ekki aðgang að hinum dýra lapis lazuli er spurning. Fyrir neðan Maríu og Jesú er opin gröf Maríu umkringd fólki, hugsanlega lærisveinum Jesú, og upp úr kistunni vaxa hvítu liljur meyjarinnar.
http://vrcoll.fa.pitt.edu/uag/Art-Anytime-Page/Lochoff-pages/images/17-Martini-Annunciation.jpg

Þetta verk er hluti af altaristöflu máluð með tempera og gerð fyrir dómkirkjuna í Siena um 1333. Altaristaflan var máluð af tveim ungum nemendum í skóla Duccios, Simone Martini og Lippo Memmi. Myndin lýsir boðun Maríu nákvæmlega á því augnabliki þegar erkiengilinn Gabríel kemur af himnum ofan, hann krýpur fyrir framan hana til að ávarpa hana. Hægt er að lesa orðin á málverkinu “Ave gratia plena“. Gabríel heldur á olíuviðargrein sem er tákn friðar og heldur hann uppi tveim fingrum sem sýnir að það er hann sem er að tala. Hann kom Maríu greinilega að óvörum þar sem hún heldur á bók eins og hún hafi verið að lesa, hún víkur sér undan í auðmýkt en horfir heldur tortryggnum og nánast reiðilegum augum á engilinn. Önnur tákn má einnig sjá í verkinu, eins og hvítu liljurnar sem eru á milli þeirra og það tákn Maríu og meydómsins. Fyrir ofan þau má sjá hvíta dúfu sem er að steypa sér niður sem er tákn heilags anda. María er einnig klædd í dökkblátt og rautt sem verður einskonar einkennis litur hennar í mörgum verkum. Það er ennþá svolítill miðaldarbragur yfir þessu verki en raunsæið er byrjað að hafa áhrif. Klæðin eru farin að verða raunveruleg þótt þau eigi langt í hinar miklu fellingar endurreisnarinnar, en t.d. liljurnar, vasinn og hásætið er í raunverulegum og mjög raunsæjum stíl.
http://artyzm.com/obrazy/angelico_annunciation.jpg

Fra Angelico var dóminnikanamunkur og var mjög guðhræddur og ljúfur. Hann hélt anda trúhefða í list sinni og málaði mörg stórglæsileg málverk.

Hann málaði fleiri en eitt verk af Boðuninni en hérna er eitt af þeim. Þetta verk er málað á Fersku í San Marco klaustrinu í Flórens og er gert um 1440. Stíll Angelico er mjög stílhreinn enda ofskreytir hann ekki myndirnar sínar. Það er oft á tíðum mikið um breiða og tóma fleti og einfaldan klæðnað. Raunsæis gætir hér greinilega á vel gerðum fellingum á klæðum, sérstaklega á kyrtli Gabríels. Það má einnig sjá vott af endurreisninni í þessu verki þar sem súlurnar sem styðja húsakynnin eru grískar, kórinþýskar súlur. Fjarvídd og rými er greinilega ekkert mál fyrir Angelico enda eru fallegar línur fjarvíddar í súlunum.

Það er greinilegt að Maríudýrkunin kom mjög mikið fram í listum miðalda þar sem hún ásamt dýrlingum og öðrum kristilegum viðfagsefnum voru í hávegum höfð. Hin heilaga María var hvarf ekki úr hugum manna og er það kannski vegna þess að í öllum trúarbrögðum þarf að vera einhver kona, einhverskonar móðir sem gætir okkar allra.


Heimildaskrá.
Gombrich, E.H. (1997) Saga listarinnar (Halldór Björn Runólfsson þýddi). Reykjavík: Mál og menning.

Rúna Guðmundsdóttir. (munnleg heimild, 22. janúar 2008)

Rúna Guðmundsdóttir. (munnleg heimild, 7. febrúar 2008)

Rúna Guðmundsdóttir. (2008) Kristni í list. Óútgefin gögn.

Wikipedia the free encyclopedia, „Mary (mother of Jesus)“
http://en.wikipedia.org/wiki/Virgin_Mary, sótt 20. febrúar 2008.
kveðja Ameza