Þetta er grein sem var skrifuð innan heimspeki listar innan Listfræðideildar HÍ.

Fagurfræði sem hugtak innan heimspekinnar fæst við hvernig við skynjum heiminn yfirleitt. Þegar ég fletti upp hugtakinu fagurfræði koma ákveðnar spurningar upp. Til að nefna hvað er fegurð? Er til mælikvarði á smekk? Hvað er list? Er list merkingarbær? Í hverju er góð list fólgin? Er listinni takmörk sett? Hugmyndina um fegurð er hægt að nálgast frá tvennskonar sjónarhorni. Annars vegar hinu hlutlæga, því að hver fagur hlutur hlýtur að hafa ákveðna formgerð, hins vegar frá hinu huglæga því hið fagra hefur sérstök áhrif á okkur. Fegurðarmat er þó háð hverju tímaskeiði fyrir sig rétt eins og listin sjálf.
Fagurfræðileg umræða í dag hefur hallast að því, að fella niður allt tal um fegurð og ljótleika. Þess í stað hefur umræðan beinst að því, að tiltaka hvaða eiginleikar eru verkum nauðsynleg svo að hægt sé að telja það listaverk.

Ef að við fylgjumst með þróun listarinnar þá á hún uppruna sinn alveg aftur í hellismálverkunum með útlínuteikningum frummannanna þar sem að áherslan var lögð á tjáningu og þekkingargildi framar fagurfræðilegum tilgangi sem slíkum. Fornaldarlist Grikkja var lengi vel hinn hefðbundi staðall fyrir fegurð með mjúkum formum og sjónrænum áhrifum þar sem list samanstóð af myndrænni framsetningu í formi mynd- og höggmyndalistar. Listin þjónaði sem ákveðin starfsgrein innan samfélagsins en upp úr 18.öld fór hún snúast um upplifunina og huglegri þætti, það er viðfangsefnið snérist frá náttúrunni yfir á listamanninn sjálfan, persónulega sýn hans, upplifun og tjáningu á reynslu. Smekkur tók við af fegurðarhugtakinu og staða listaverksins stóð í beinu sambandi við upplifun áhorfanda. Aukin þátttaka almennings og frelsi listamanna til sköpunar leiddi til enn frekari viðleitni fræðimanna til þess að skilgreina listina og þá sérstaklega gildi hennar. Hvað er list? Hvað er það sem gerir ákveðið listaverk betra en önnur? Byggist hún á fegurð? Hvað er fegurð?
Samkvæmt Humes býr fegurðin ekki í hlutunum, fagurfræðilegum eiginleikum þeirra, heldur í auga áhorfandans, í sálarlífi þess sem skynjar fegurðina. Hann heldur því enn frekar fram að fegurðartilfinningin byggist á geðþótta einstaklings, tísku eða sameiginlegri mannlegri náttúru. Smekksdómar séu því huglægir og byggist á reynslu. Hume telur að mismunur á smekk stafi af því að menn séu misnæmir á blæbrigði hlutanna. Hverjir eru þá dómbærir sem gagnrýnendur lista? Góður listrýnir þarf að hafa til að bera sérstakt næmi á fegurð og list, hann þarf að hafa reynslu af list og þekkingu á henni, hann verður að vera fordómalaus og hugsa af skynsemi. Eins og flest annað á sviði lista þá er enginn óskeikull hvað varðar að meta list.
Árið 1865 sýndi Manet á Salon sýningu verk sitt Olympia sem vakti mikla hneykslun meðal fólks þar sem hann fylgdi ekki hinni hefðbundnu fegurðarformúlu heldur setti fram sína eigin sýn og túlkun á raunveruleikanum og vék þar með frá eftirlíkingarkenningunni sem hafði stjórnað listinni meira eða minna allt frá tímum Plató. Í kjölfarið komu fram fleiri frumkvöðlar í listinni, framsæknir listamenn sem að ögruðu ríkjandi listgildum á borð við van Gogh, Picasso, Mondrian o.fl. Meðal þeirra var Marcel Duchamp, með “readymade” verkum hans í upphafi 20.aldarinnar sneri hann athyglinni frá formi tungumáls listarinnar, í það sem hún hafði að segja. Eðli listarinnar breyttist úr spurningu um útlit, í spurningu um hlutverk og markaði upphaf nútímalistar, hugmyndalistar þar sem listin er aðeins til á hugmyndalegum grundvelli.
Upp úr 20.öldin fóru áherslur listarinnar að snúast frá almennari tjáningu, expressionisma, út í formið og fomalíska eiginleika verka, nánar tiltekið abstraktlist. Formhyggja beinist að ytri skynjun forma og sker sig þannig frá expressionisma sem beinist að innri tjáningu. Samhliða þessari þróun innan listarinnar myndaðist hliðargrein á sviði hönnunar þar sem listamenn fóru einnig að þreifa fyrir sér í hönnun húsgagna. Aftur myndaðist ákveðin togstreita innan listarinnar við að meta slík verk og myndaðist þörf fyrir nýja skilgreiningu á nýrri grein innan listaheimsins. Heimspekingurinn Immanuel Kant lagði áherslu á áhrif skynjunar á hugann sem uppspretta fagurfræðilegrar upplifunar og tekur þar með inn í dæmið sérstaka eiginleika hvers listaverks fyrir sig. Þannig á aðeins að meta gildi listaverka útfrá fagurfræðilegum eiginleikum og hlutverki þeirra. Þannig eru verk sem að flokkast undir nytjalist metin á annan hátt en formalísk verk, útfrá hlutverki þeirra og notagildi og er því mikilvægt að verk listamanna sem að standa jafnfætis á sviði lista og hönnunar séu metin út frá þeim ólíku forsendum.
Í nútímalist er lögð mikil áhersla á nýnæmi listarinnar og svonefnd andfagurfræði þar sem í staðinn fyrir skapandi frumleika og upphafningu listaverksins er snúist gegn einstaklingsbundinni fagurfræði og sett upp ögrandi uppákomur til að vekja viðbrögð áhorfandans og fá beina þátttöku hans í listviðburðinum. Þannig er truflað hið eðlilega samband milli áhorfandans og listamanns til þess að mynda eitthvað nýtt og upplifun listarinnar verður að virkum atburði, frekar en að listin sé í bakgrunni og geri umhverfið fallegra. Í samtímalist hefur fagurfræði minna gildi og talið að fegurð skipti ekki nokkru máli í listaverkum. Þetta hefur orðið til þess að skilgreining á því hvað sé list er orðin öllu flóknari og setningar á borð við “þriggja ára krakki hefði getað gert þetta” eða “ég gæti alveg eins raðað alls konar rusli upp í stofunni hjá mér” heyrast oftar en ekki sem viðbrögð fólks. En hvað er list?
Samkvæmt Leó Tolstoy er list “ mannleg athöfn sem felst í því að einn maður af yfirlögðu ráði og með hjálp vissra ytri tákna, kemur áleiðis tilfinningum sem hann hefur upplifað, þannig að aðrir verða fyrir þessum tilfinningum og upplifa þær líka.”
Almenn skilgreining listar er sú að til verði list þegar sköpunargáfunni er gefinn laus taumur og myndir, styttur eða aðrir hlutir eru búnir til, í þeim megintilgangi að sýna fegurð og mikilfengleika heimsins, að tjá tilfinningar eða skilning listamannsins, eða að aðrir fái notið verksins. Verk fær því aðeins heitið list ef að því er komið fyrir innan samhengis listarinnar vegna þess að þú sérð ekki listina nema að þú horfir á verkið sem list, því er nauðsynlegt að skoða verk sem listaverk og skilja þau sem slík fyrirfram til þess að geta séð þau sem list. En að sjá og skilja eitthvað sem list krefst einhvers sem augað fær ekki greint, andrúmsloft listkenninga, þekkingar á sögu listarinnar og listheimsins. Hugmyndalist, eins og nafnið gefur til kynna, krefst meira af áhorfanda heldur en almenn formalísk list sem byggist framar öllu á sjónrænni skynjun og upplifun áhorfanda.
Auðvelt er að skilja það hversu dómhart fólk getur verið almennt á list þar sem það þarf töluvert meiri þekkingu og skilning á nútímalist til þess að geta metið hana heldur en til að nefna Sixtínsku kapellu Michelangelos. Að standa frammi fyrir fallegu málverki veitir samskonar fegurðarupplifun eins og upplifa fagurt landslag, háleita tilfinningu sem allir njóta. Að upplifa listviðburð eins og samtímalistin býður fyrst og fremst upp á getur veitt ákveðna fullnægingu vitsmuna og þroska svo framarlega sem að tilgangi verksins sé náð og það veitir áhorfanda betri sýn og skilning á viðfangsefni verksins og heiminum. Í hvoru tilviki fyrir sig er um að ræða djúpa skynjun og tilfinningu sem að fólk tekur með sér þó að þær séu gjörólíkar í eðli sínu, önnur byggir að fegurðarmati og skynjun en hin á skilningi. Fegurð mun alltaf hafa hlutverki að gegna innan listarinnar en eðli fegurðar og mat á henni breytist með hverju tímaskeiði fyrir sig. Hugurinn og vitundin er dynamískt fyrirbæri sem er ekki hægt að alhæfa yfir alla menn og yfir öll menningarskeið heldur mótast það við samband mannsins við heiminn.