Salvador Dalí og Súrrealisminn Hérna er ritgerð sem ég gerði í Listasögu um án efa minn uppáhalds listamann; Salvador Dalí, og Súrrealismann. Ákvað að skella henni hingað og vona að einhverjir hafi gagn af :)Í gegnum árin hafa fjölmargar listastefnur komið fram á sjónarsviðið. Áður á öldum þótti það við hæfi að túlka hlutina hreinlega eins og þeir voru, eða jafnvel sem fegraðar myndir af raunveruleikanum. Þá voru málarar t.d. yfirleitt með fólk sem sat fyrir hjá þeim og málverkin urðu nær nánast eins og fyrirmyndirnar. Þegar að ljósmyndir komu til sögunnar tóku ljósmyndarar við fyrra starfi málaranna. Listamönnum opnuðust dyr og ímyndunaraflinu var gefinn laus taumurinn. Með þessu nýfengna frelsi fóru nýstárlegri og umdeildari listastefnur að láta á sér kræla. Meðal þessara stefna í listsköpun er súrrealisminn. Hér að neðan verður fjallað um hann og einn þekktasta listamann stefnunnar, Salvador Dalí.


Súrrealisminn varð til sem slíkur í París árið 1924. Upphafsmaður stefnunnar var André Breton. Súrrealisminn á rætur sínar að rekja til ýmissa skálda, listamanna sem og annara þekktra einstaklinga, t.d. Freud. Meginviðfangsefni listamanna stefnunnar hefur ætíð verið túlkun á ímyndunaraflinu, sérstaklega hvernig það birtist okkur í draumi. Súrrealísk verk áttu hvorki að vera útpæld né rökrétt. Stefnan snérist um ósjálfráða sköpun, og átti undirmeðvitundin að gegna meginhlutverki. Listamaðurinn tjáði eingöngu það sem kom upp í hugann hverju sinni, algjörlega óháð því hvað þótti rétt eða hvað þótti passa. Margir helstu listamanna súrrealismans voru áður fylgismenn dadaismans og eru þessar tvær stefnur skyldar að því leiti að þær hneyksluðu marga á sínum tíma og voru um leið merki um nýja tíma. Í ritlist var súrrealisminn nær eingöngu stundaður í Frakklandi, en öðru máli gegndi um myndlistina og varð hún brátt mjög vinsæl listastefna í Evrópu.

Salvador Dalí fæddist þann 11. maí 1904 í spænska þorpinu Figueres í Katalóníu, rétt við landamæri Frakklands. Segja má að hann hafi því verið fæddur á nákvæmlega réttum stað og réttum tíma hvað súrrealíska list varðar. Fjölskylda hans var fremur efnuð miðstéttarfjölskylda. Faðir Dalí var mjög strangur og aldi börn sín upp með miklum aga. Móðir hans hins vegar hvatti hann áfram í listinni, og það varð til þess að Dalí fór í teikniskóla þegar hann var barn. Þegar Salvador Dalí var tólf ára gamall fór hann í ferð til bæjarins Cadaqués á Spáni og kynntist þar nútímalist. Árið 1919 var fyrsta sýning á verkum Dalís haldin. Hann var þá aðeins 16 ára gamall og verk hans voru sýnd í leikhúsinu í Figueres, heimabæ hans. Sama ár dó móðir hans, og faðir hans giftist systur fyrrverandi konu sinnar. Dalí hafði alltaf vissa óbeit á þessu öðru hjónabandi föður síns.

Árið 1922 fluttist Dalí til Madrid, fékk sér húsnæði í stúdentagörðunum og fór að læra við San Fernando listaskólann. Þar kynntist hann ýmsum öðrum listamönnum, m.a. góðvini sínum til margra ára, skáldinu Federico García Lorca. Það hafa verið uppi sögusagnir um það að þeir hafi í raun átt í ástarsambandi.

Strax þá, ekki orðinn tvítugur, var Salvador Dalí farinn að vekja mikla athygli meðal samnemenda sinna fyrir furðulegt útlit og enn furðulegri verk. Á næstu árum prófaði hann sig áfram með bæði kúbanska list og dada-isma. Hann var síðan rekinn úr skólanum árið 1926, rétt fyrir lokaprófin. Ástæðan var sú að hann niðurlægði starfslið skólans og sagði að enginn fyrirfinndist innan veggja hans nógu hæfur til að prófa sig.

Listamaðurinn Miró mældi með Dalí við Pablo Picasso, og þegar að Salvador Dalí fór loks til Parísar eftir skólagöngu sína, hitti hann Picasso. Í kjölfar þess fór Dalí að prófa sig meira áfram með listina. Mörg verka hans frá þessum tíma bera sterkan keim af áhrifum Miró og Picasso á hann sem nokkurs konar lærifeðra. Dalí prófaði nær allar listastefnur og tókst að móta sinn eigin stíl smátt og smátt með því að blanda saman öllu, allt frá klassískustu teikningum upp í framúrstefnulegustu nútímalist. Stundum blandaði hann þessum stílbrigðum jafnvel saman í eitt verk. Sýningar hans frá þessu tilraunaskeiði í lífi hans vöktu mikil viðbrögð. Ýmist dáði fólk verk hans eða fordæmdi. Flestir virtust hins vegar vera frekar ringlaðir hvað stíl hans varðaði.

Það var síðan árið 1929 sem Dalí gekk opinberlega til liðs við súrrealíska listamenn Parísarborgar. Hann hafði þá í nokkur ár skapað list undir miklum áhrifum frá súrrealísmanum, en aldrei gengið skrefið til fullnustu. Súrrealistar þar á bæ tóku honum fagnandi, og hann kom með nýjar leiðir til að nálgast undirmeðvitundina á listrænan hátt á striga, en það var það sem súrrealisminn gekk að stórum hluta út á. Á næstu árum málaði Dalí mörg af sínum þekktustu verkum, t.d. “La persistència de la memòria” og fleiri þar sem hann nálgast hugtökin um tíma, rúm og drauma á nýjan hátt. Hann tók þátt í alþjóðlegri sýningu á súrrealisma árið 1936 og hélt þar meðal annars fyrirlestur íklæddur kafarabúning.
Árekstrar hans við restina af samfélagi súrrealista og annara listamanna hófust eftir spænsku borgarastyrjöldina. Salvador Dalí stóð ekki á móti Fransisco Franco og kaus að búa áfram á Spáni þrátt fyrir að Franco réði ríkjum. Þetta var gjörsamlega andstætt stjórnmálalegum skoðunum hinna meðlima súrrealismahreyfingarinnar. Langflestir þeirra snéru við honum baki og margir þeirra tóku að tala um hann opinberlega í þátíð, líkt að hann væri látinn.

Dalí var á þessum tíma giftur hinni rússnesku Gala, en hún var 11 árum eldri en hann. Þau voru búin að vera gift allt frá upphafsárum Dalí sem súrrealísks listamanns. Þau fluttust til Bandaríkjanna í nokkur ár eftir útskúfun Dalí úr súrrealisma-samfélaginu. Þar tók hann sér aðra listmiðla fyrir hendur en aðeins myndlistina. Hann fiktaði við bæði ljósmyndun og skrif, en hann gaf út sjálfsævisögu sína árið 1942. Síðustu áratugum ævi sinnar eyddi Dalí ásamt Gala í heimahéraði sínu á Frakklandi. Þar hélt hann áfram að kanna hinar ýmsu gerðir listarinnar og lét meðal annars byggja gríðarstórt safn í heimabæ sínum sem hann nefndi eftir konu sinni.

Þegar Gala lést árið 1982 missti Salvador allan lífsvilja. Hann reyndi m.a. að hætta að neyta vökva, sem að ofþurrkaði nánast líkama hans. Hann eyddi ævikvöldinu í Gala-Safninu, en lést síðan 84 ára að aldri þann 23. janúar 1989 og hvílir í grafhýsi í safnbyggingunni enn í dag.


Salvador Dalí var einn merkasti listamaður 20. aldarinnar, ef ekki sögunnar. Hann var með fjölhæfustu mönnum og tókst að veita komandi kynslóðum innblástur sem er án efa ómetanlegur listheiminum eins og hann leggur sig. Verk hans hafa verið mjög eftirsótt í gegn um tíðina og ekki dvína vinsældir hans með árunum. Sérstakir einstaklingar eins og hann, sem fara sínar eigin leiðir fyrst og fremst, skilja ávalt eftir sig djúp spor í sögunni. Hvað þá þegar að þeir skilja áþreyfanlegar minjar eftir sig, eins merkar og verk Dalís eru. Listastefnur hafa ávallt vissa hvatamenn og táknmyndir. Súrrealisminn hafði svo sannarlega Salvador Dalí.
Heimildir fengnar af Wikipedia og Answers.com.

Kudos ;)
-Kallisto
'The entire Fleet knows that this man tried to stab me through the neck. And you missed! Butterfingers!'