Hérna fyrir neðan er talað um allt líf Jóhannes Kjarvals, frá fæðingu til dauða…Jóhannes var listamaður og mér fannst hann vera
mjög góður listamaður. Kjarval er frændi minn. (veit ekki nákvæmlega hvernig hann er skyldur mér) þennan texta fann ég á allskonar síðum meðal annars listasafn Reykjavíkur og á öðrum síðum um Kjarval. Mér fannst þetta merkilegt og vildi því senda þetta hérna inn. Ég hef áður skrifað ritgerð um hann fyrir skólann og eitthvað úr henni er í þessum texta. En eitt vil eg benda á að eitthvað í þessum texta skálda ég upp en annað tek ég af öðrum síðum.


Listmálarinn Jóhannes Sveinsson Kjarval ólst upp í Geitavík í Borgarfirði eystri frá fjögurra ára aldri. Hér málaði hann mikið og borgfirsku landslagi bregður víða fyrir í myndum hans. Þegar hundrað ár voru liðin frá fæðingu hans árið 1985 reistu Borgfirðingar Kjarval minnisvarða sem stendur við þjóðveginn skammt ofan við Geitavík.

Listasafn Íslands á alls 146 verk eftir Kjarval, en fyrsta verkið var keypt árið 1915. Kjarval málaði Skógarhöllina 1918 sem er dulúðugt táknrænt verk í anda frönsku nabis-málaranna og hafnaði þar með þeim natúralisma sem einkenndi verk Ásgríms Jónssonar og Þórarins B. Þorlákssonar. Um 1930 þróar Kjarval þann huglæga, expressjóníska stíl, sem síðan setur mark sitt á list hans þegar landslagið verður meginviðfangsefnið.

Listferill Jóhannesar S. Kjarvals (1885-1972) laut ekki hefðbundnum lögmálum, meðal annars vegna þess að hann einskorðaði sig ekki við eina stefnu eða stíl í listsköpun sinni. Verk hans sýna fram á að ýmsar liststefnur sem hann komst í snertingu við vöktu áhuga hans og kölluðu á nánari skoðun og útfærslu.

Í mörgum verka Kjarvals frá fimmta áratug tuttugustu aldarinnar og síðar, þrengir hann myndrými sitt og kastar fyrri róða hefðbundinni þrískiptingu myndflatarins og dýptarvirkni. Þó svo að hann gangi út frá myndefni, svo sem hrauni og mosa eða hluta úr fjallshlíð getur formgerð þessara verka orðið nánast abstrakt. Að viðbættri tjáningarríkri pensilskrift og blæbrigðaríkri áferð og jafnvel sundurgreinandi umskrift yfir í hyrnda formgerð hafa verk þessi yfirbragð abstrakt expressjónisma.

Það er þó ekki síst hin Kjarvalska línuteikning sem býr yfir ævintýralegum tjáningarmætti. Í ótal skissum og rissmyndum dregur hann upp með kvikum línum ímyndir lands eða fólks, ýmist með fáum voldugum dráttum eða fínlegu samspili dökkra og ljósra flata. Hann einskorðar ekki teikningar sínar við pappírinn heldur dregur upp með pensli á léreft útlínuteiknaðar verur og prófíla, blóm og dýr í m.a. í verkum sem oft hafa verið nefnd fantasíur.

Expressjónismi er einn af þeim þáttum sem víða setja mark sitt á lífsverk Kjarvals bæði hugmyndafræðilega og eins áhrif einstaka listamanna, án þess þó að hrófla við sannfæringu hans né persónulegri tjáningu hins óhefta sköpunarkrafts.


Kjarvalsstaðir voru teknir í notkun árið 1973 og er þar varðveitt listaverkaeign Reykjavíkurborgar,
þar á meðal stórt safn verka eftir Jóhannes S. Kjarval.
Á Kjarvalsstöðum eru settar upp sýningar á verkum eftir íslenska og erlenda listamenn með áherslu á samtímalist.
Sýningar á verkum eftir Kjarval eiga sér fastan sess í austursal safnins.

Sýningarrými Kjarvalsstaða skiptist í tvær meginálmur með tengibyggingu á milli.
Húsið var byggt á árunum 1966-1973 og er teiknað af Hannesi Davíðssyni arkítekt.

Á Kjarvalsstöðum er kaffitería með útsýni yfir Miklatún og Öskjuhlíð. Þar eru í boði kaffiveitingar og heitir smáréttir.
Í safnaverslun Kjarvalsstaða má finna fjölbreytt úrval innlendra og erlendra listaverkabóka.
Auk þess eru fáanleg póstkort, veggspjöld og ýmis konar listmunir.

Jóhannes Sveinsson Kjarval skipar sérstakan sess í íslenskri menningar- og listasögu sem einn ástsælasti listamaður þjóðarinnar fyrr og síðar. Hann var goðsögn í lifanda lífi og í augum margra persónugervingur hins rómantíska listamannabóhems. Rætur hans lágu í hinu íslenska bændasamfélagi, en líf hans og listsköpun tengist órjúfandi böndum menningarlegri viðreisn þjóðarinnar á fyrri hluta 20. aldar. Í gegnum verk hans hafa Íslendingar lært að skoða á nýjan hátt náttúru landsins, fólkið og þann ævintýraheim, sem hér er að finna í landslaginu og huga þjóðarinnar. Verkum Kjarvals hefur oft verið skipt í þrjá meginflokka: Landslagsmyndir, teikningar og táknræn málverk.


Hérna fyrir neðan er ferill hans..


1885 Jóhannes Sveinsson fæðist að Efri -Ey í Meðallandi í v-Skaftafellssýslu þann 15. október.

1890 Tekinn í fóstur til ættingja að Geitavík í Borgarfirði eystra.

1901 Flytur til Reykjavíkur.

1904 Fær tilsögn í teikningu hjá Stefáni Eiríkssyni. Er við nám í Flensborgarskóla til ársins 1906. Er næstu árin á skútum.

1908 Fyrsta einkasýning í Góðtemplarahúsinu í Reykjavík.

1910 Sækir listkennslu til Ásgríms Jónssonar. Tekur upp nafnið Kjarval.

1911 Heldur einkasýningu á Seyðisfirði. Fer til Lundúna að leita sér menntunar, dvelur þar til ársins 1912.

1912 Flytur til Kaupmannahafnar og skráir sig í Det Tekniske Selskabs Skole.

1913 Hefur nám við Konunglega Listaháskólann í Kaupmannahöfn.

1914 Dvelur sumarlangt á Íslandi og málar altaristöflu í Bakkagerðiskirkju í Borgarfirði eystri.

1915 Kvænist Tove Merrild, rithöfundi.

1917 Brautskráist úr Konunglega Listaháskólanum þann 17. desember.

1918 Heldur einkasýningu í Den Frie í Kaupmannahöfn.

1920 Fær styrk til Ítalíufarar og dvelur þar í tæplega hálft ár.

1922 Flytur ásamt fjölskyldu sinni til Íslands.

1924 Málar veggmyndir í Landsbanka Íslands.

1925 Gefur út Árdegisblað listamanna, Essemsism. Tvö tölublöð komu út. Skilur við konu sína Tove.

1928 Heldur utan til Parísar og dvelur þar í tæpt hálft ár.

1929 Flytur á loftið í Austurstræti 12. Þar hafði Kjarval vinnustofu til dauðadags.

1930 Málar sumarlangt á Þingvöllum og tekur upp frá því að leggja áherslu á að mála úti. Málar fram til 1940, mest í nágrenni Reykjavíkur. Gefur út bókina Grjót.

1931 Sýnir í Charlottenborg, Kaupmannahöfn.

1932 Tekur þátt í sýningu á íslenskri myndlist í Galerie Moderne í Stokkhólmi og Kunstforeningen í Osló.

1933 Sýnir ,,Lífshlaupið“ á veggjum vinnustofu sinnar að Austurstræti 12.

1935 Afmælissýning í tilefni af fimmtugsafmæli Kjarvals haldin í Menntaskólanum í Reykjavík. Þar sýnir hann 410 verk.

1940 Tekur að flétta saman landslag og verur í verkum sínum. Frá 1940 ferðast hann víðar um land til að mála, t.d. um Snæfellsnes og V-Skaftafellssýslu.

1942 Fær vinnuaðstöðu í Íþróttahúsi Jóns Þorsteinssonar yfir sumartímann og heldur henni næstu 20 ár. Heldur sýningar á verkum sínum þar.

1945 Sýnir í Listamannaskálanum. Þar átti hann eftir að halda fleiri sýningar á næstu árum. Nokkrir þingmenn leggja til að byggja skuli hús og vinnustofu handa listamanninum.

1948 Heldur austur á Hérað og í Borgarfjörð eystri. Málar þar, meðal annars, verkið ,,Heimahaga.”

1950 Reisir sér sumarhús í Ketilstaðahvammi í Hjaltastaðaþingá. Þangað fer hann flest sumur næstu 20 ár. Helgafell gefur út bókina ,,Kjarval“ með 80 myndum og texta eftir Halldór Kiljan Laxness.

1954 Reykjavíkurborg kaupir málverkið ,,Krítik” á uppboði fyrir 21.000 kr.

1955 Yfirlitssýning á verkum Kjarvals haldin í Listasafni Íslands, 25.000 manns sækja sýninguna. Hann uppgötvar Gálgahraun á Álftanesi og málar þar oft næstu árin.

1958 Sæmdur hinu sænska Prins-Eugen heiðursmerki.

1960 Sýnir ásamt Ásmundi Sveinssyni á Feneyja-tvíæringnum.

1962 Lýkur við hið stóra verk sitt ,,Skjaldbreið, séð frá Grafningi."

1963 Verk á opinberri íslenskri listsýningu í Moskvu ásamt Ásgrími Jónssyni og Jóni Stefánssyni.

1966 Tekur fyrstu skóflustungu fyrir byggingu Kjarvalsstaða á Miklatúni. Málar síðustu myndröð sína við Bleikdalsá á Kjalarnesi 1966-67.

1972 Kjarval deyr þann 13. apríl.

1973 Kjarvalsstaðir á Miklatúni opna 24. mars.

2002 Kjarvalsstofa opnuð í Borgarfirði eystri.


takk fyrir ;)