Pablo Picasso Listamaðurinn Pablo Picasso var frá Malaga á Spáni og var uppi árin 1881-1973. Picasso var leikinn við að mála og teikna allt frá barnsaldri. Honum fannst ekki sérlega gaman í skólanum og vildi heldur fara á námskeið í teikningu. Faðir hans var málari en þegar í ljós kom að sonurinn var miklu flinkari hætti hann að mála og gaf Picasso öll málningaráhöld sín.

Picasso var eirðarlaus að eðlisfari og það leiddi til þess að hann reyndi fyrir sér við mismunandi listsköpun. Auk þess að vera málari var hann teiknari, myndhöggvari og keramiklistamaður.

Þegar Picasso var 19 ára flutti hann til Parísar. Þar sá hann mörg ný listaverk og stofnaði til kunningsskapar við marga listamenn. Hann varð fyrir sterkum áhrifum á sýningu sem hann sá á málverkum Cézannes árið 1907. Þar voru náttúruleg form einfölduð sem kúlur, sívalningar og keilur. Þessi notkun geómetrískra forma heillaði Picasso og sama ár málaði hann málverkið Ungfrúrnar frá Avignon.

Þetta málverk er talið vera fyrsta verk kúbismans en það er listastefna sem Picasso fellur undir og er upphafsmaður að. Á málverkinu eru fimm konur málaðar köntóttar, líkamarnir grófir og skrumskældir og andlitin stirð og minna á grímur. Ætlunin var aldrei að myndin yrði falleg því Picasso braut allar hefðbundnar reglur um málun mannslíkama og fjarvídd. Málverkið olli miklu fjaðrafoki, einnig meðal annarra listamanna og vina Picassos. Fólki fannst myndin hræðilega ljót og áleit að hann hlyti að vera bilaður að mála á þennan hátt.

Picasso hreifst einnig af svokallaðri frumstæðri list og menningu. Á þessum tíma voru haldnar margar sýningar í Evrópu á afrískri list. Picasso var svo innblásinn af þeim að sumir kölluðu verk hans ,,negralist".

Unnt er að skipta æviskeiði Picassos í nokkur tímabil. Á bláa skeiðinu (1901-1904) málaði hann allt í bláum litatónum og myndefnið var oft fátækir listamenn. Kaldur liturinn undirstrikar tilfinningar á borð við einmanaleika og óöryggi. Á bleika tímabilinu (1905-1906) málaði hann í rauðtóna litum. Eftir það málaði hann hreinar kúbískar myndir.
[:;:;:]