Y: The Last Man Y: The Last Man er myndasögusería eftir Brian K. Vaughan (handrit) og Piu Guerra (teiknari). Serían var gefin út í 60 blöðum frá árunum 2002 til 2008. Útgefandi er Vertigo sem sérhæfir sig nokkuð í teiknuðu efni fyrir eldri lesendur. Blöðin voru síðar gefin út í 10 sex blaða bókum sem fást í bestu nördabúðunum (hint: Nexus).

17. júlí 2002 gerist það á sama andartaki um heim allan að allar lífverur með Y-litning (karldýr) detta niður dauðar. Ekki nóg með það, heldur á það líka á við ófædd sveinbörn og sæði. Það er sem sé ekkert karldýr eftir í heiminum og ekki líkur á að þau fæðist heldur, að tveimur einstaklingum undanskildum, enskufræðingnum Yorick og nýja gæludýrinu hans, apanum Ampersand.

Það eru þessir tveir einstaklingar sem eru skiljanlega miðpunktur sögunnar. Yorick er ungur Bandaríkjamaður og nýbúinn að biðja kærustunnar sem er stödd hinumegin á hnettinum í Ástralíu. Því mður er það rétt fyrir augnablikið margfræga og sambandið slitnar áður en hann fær svar. Hans forgangsverkefni verður að hafa upp á henni með einhverjum ráðum en margt stendur í veginum og hætturnar á hverju horni. Þá kemur það sér vel fyrir Yorick að hann hefur lengi stúderað þá list að losa sig úr fjötrum, á við færa töframenn. Ampersand er einnig gagnlegur, þótt hann sé jafn oft til óþurftar, ef ekki oftar.

Yorick verður fljótt mjög eftirsóttur þótt aðeins örfáar konur viti af honum (eða hreinlega trúi því að hann sé til). Sökum þess að meirihluti ráðamanna hefur þurrkast út á augnabliki kemst embættismaðurinn móðir hans í afar háttsetta stöðu svo ekki sé meira sagt og þegar Yorick hefur upp á henni fær hún þegar í stað afar færan njósnara, Agent 355 til að fylgja honum til Boston í ferð sem gæti bjargað því sem bjargað verður. Yorick er með hugann við kærustuna en felst á að láta æðri tilgang ráða för. Tekur þá við rússíbanareið sem er stórfengleg skemmtun fyrir lesandann.

Ég fer ekki nánar út í söguþráðinn en hann er afar hraður og spennandi öll 60 blöðin. Þegar ég byrjaði að lesa gat ég hreinlega ekki hætt fyrr en ég var búinn að lesa allt heila klabbið. Í bígerð er kvikmynd eftir sögunni en sannast sagna væru sjónvarpsþættir hentugri, næstum hvert einasta blað endar á atburði sem kallar á frekari lestur þegar í stað… ég hefði orðið geðveikur ef ég hefði þurft að bíða í einn til tvo mánuði eftir næsta blaði. Þetta minnti mig óneitanlega á að horfa á góða seríu af 24 (eða Heroes á meðan þeir voru skemmtilegir (vil strax biðja Heroes-aðdáendur afsökunar á að hafa sagt þetta)).

Blöðin eru frábærlega vel saman sett og varla dauðir punktar. Sagan skiptist í ákveðna kafla og afar fáir þeirra eru annað en æsileg spenna frá upphafi til enda. Þeir sem eru það ekki taka frekar á ástandinu sem skapast og líðan eftirlifenda (kvennanna). Allt er þetta skrifað meistaralega af Brian K. Vaughan (Ex Machina er önnur athyglisverð sería eftir hann) og flestar persónurnar fá afar nákvæma persónusköpun. Orsök “plágunnar” verður að aukaatriði en spennunni um orsakirnar er þó haldið allan tímann og ég varð ekki fyrir neinum vonbrigðum með endi sögunnar. Þrátt fyrir viðfangsefnið er húmorinn allan tímann til staðar. Hann er akkúrat mátulegur og aldrei óviðeigandi. Yorick tapar ekki skopskyninu í öllu ástandinu og aðrar persónur fá einnig að láta ljós sitt skína.

Pia Guerra er meðskapari sögunnar og eini teiknari hennar (þó fleiri sem koma að því að “bleka”). Teikningar hennar eru algjörlega frábærar og frá mér komið er það mikið hrós því ég er algjör snobbhæna þegar kemur að teikningum í myndasögum þótt ég geti ekki teiknað sjálfur fyrir mitt litla líf. Ég er fljótur að loka blaðinu þegar teikningarnar höfða ekki til mín en það er ekki raunin hér, allt er mjög stílhreint og afar aðlaðandi, maður hverfur algjörlega inn í söguna.

Ég hef verið Marvel-aðdáandi í mörg ár og nánast einungis keypt blöðin þeirra en ekki annarra útgefenda (reyndar aðallega til að spara pening, ásamt því sem teiknistíllinn hjá Marvel höfðar oftast nær til mín). Eftir að þeir sturtuðu Spider-Man niður í klósettið með atburði sem hefði sómt sér betur í Dr. Who-þætti, hef ég litið aðeins meira í kringum mig. Ég er afar feginn því að hafa kynnst Y-The last Man og hvet alla aðdáendur myndasagna til að gera slíkt hið sama.