Heimur Sjonna og dvölin í hollandi... Kæru Myndasöguhugar og aðrir hugaðir Hugasörfarar,

Eins og sum ykkar hafa kannski tekið eftir þá hefur Heimur Sjonna opnað sínar dyr fyrir gestum og músandi að www.heimursjonna.com - ásamt því að bjóða enskumælandi lýð velkomið að upplifa Sjonna-boy að www.sjonny.cc …og ekki er annað hægt að segja nema móttökurnar hafi verið framar vonum.

Upphaflega stóð til að halda úti sögum hvern mán-mið-föstudag en þar sem ég er ekki að hala inn pening á Sjonna (eins og er) verður gerð hans að fylgja öðrum verkefnum hjá mér - því hef ég fækkað birtingu hans niður í eina sögu á föstudögum vegna heljar verkefnis sem ég sit nú yfir.

Þó Sjonni sé svo sannarlega al-íslensk framleiðsla þá vill svo til að hann er fæddur, saminn og teiknaður fyrst í Hollandi og nefndur í höfuðið á lágstéttar Hollendingum - sem oft eru kallaðir Sjonnar (Er í raun Johnny - borið fram; Sjonní).

Fyrstu þrjú ár Sjonna í Bleiku&Bláu voru teiknuð í Hollandi og sama á við um allar þær sögur/persónur sem ég hef sett á blað (þær sögur má finna hér: www.zinzun.com).
Það hlaut því að koma að því að maður færi að einbeita sér að þeim hollenska markaði sem hér umlykur mig.

Síðan ég flutti hingað á ný (sept.2004) eftir stutt stopp heima á Fróni hef ég verið innlimaður í hollenska myndasögusamfélagið sem samanstendur af rúmlega 200 einstaklingum (eins og félagatalið stendur nú) og hefur það verið alveg ótrúlega upplífgandi og gefandi innlimun ;-)

Nú er svo komið að ég stefni á að koma Sjonna á framfæri í Hollandi þar sem kauði á með réttu heima og byrjar innreiðin með birtingu hans í nýju myndasögublaði (Strook) sem hefur göngu sína í lok september hér í flatalandi. Strook verður formlega gefið út á myndasögumessunni í Houten - www.stripdagen.nl - en ég mun einnig sitja þá messu á vegum blaðsins.

Mér og Sjonna hefur svo verið boðið af skipuleggjendum árlegrar myndasögumessu sem fram fer í Rijswijk (nálægt Rotterdam) þann 1&2 mars 2008 www.stripbeurs.com að taka þátt og kynna mig og mína framleiðslu, gestum og gangandi. Þar mun ég sem sagt sitja og teikna á tölvuna og plögga Sjonna eins og ég mögulega get (sjá mynd sem tekin var á myndasögumessu í Arnhem í maí).

Svo ef þú átt leið um Holland í byrjun mars þá hvet ég þig endilega til þess að líta við í Rijswijk og heilsa uppá Sjonna …og mig :-)

Auðvitað vill Sjonni karlinn birtast heima á Fróni en enn sem komið er hefur leit mín eftir áhugasömu blaði skilað litlum árangri og því heldur kauði á önnur mið ….ég held þó áfram að reyna :)

Bestu Sjonnasúkkulaðikveðjur frá Hollandi,
Ingi Jensson
ingi@ingi.net

www.heimursjonna.com
www.sjonny.cc
www.facebook.com/teikningi