1602
Neil Gaiman, Andy Kubert, Richard Isanove

Neil Gaiman er mjög þekktur og virtur höfundur teiknimyndasagna á borð við Sandman seríuna sem líklega þarf ekki að kynna fyrir flestum aðdáendum góðra teiknimyndasagna. Hann er snillingur í að gefa nýja sýn á þekktar persónur eins og hann gerði t.d. með ýmsar DC persónur í Sandman bókunum sínum.

Að þessu sinni tekur hann á Marvel heiminum og ekki óþekktari persónur en Spider-Man, Daredevil, X-Men, Fantastic Four, Captain America, Thor, Hulk, Nick Fury og fullt fleiri og færir þær til Englands á Elísabetar tímanum, nánar tiltekið árið 1602. Skrýtin öfl eru að verki í heiminum og persónurnar sem eru okkur vel kunnar koma saman og reyna að komast til botns í málinu ásamt því að berjast við illmenni á borð við Count Otto Von Doom (heitir það þarna) og Magneto. Þótt við þekkjum persónurnar vel þá höfum við aldrei séð þær eins og hérna. Peter Parker hefur ekki enn verið bitinn af geislavirkri könguló og er forvitinn ungur maður, Nick Fury er njósnari Elísabetar Englandsdrottningar, Stephen Strange er galdramaður í þjónustu hennar hátignar, Daredevil er flökkumaður og söngvari, Professor Xavier (eða Carlos Javier) og lærlingar hans eru eltir uppi fyrir villutrú og galdra af spænska rannsóknarréttinum sem er stjórnað af engum öðrum en Magneto, Fantastic Four (eða the four from the Fantastick) eru víðsfrægir landkönnuðir sem hurfu á dularfullan hátt ásamt mun fleiri persónum sem einnig eru komnar í alveg nýjan og skemmtilegan búning.

Þessi bók er mjög góð, ótrúlega vel teiknuð og er einstaklega gaman að sjá hvað færslan frá nútímanum yfir til ársins 1602 virkar mjög vel og gerir bókina mjög góða. Sagan sjálf er einnig mjög spennandi og vel skrifuð. Mæli með þessari bók fyrir alla sem hafa gaman af góðum teiknimyndasögum og ef þið eruð miklir aðdáendur Marvels þá er þetta skyldueign.