Frétt af mbl.is (copy-paste)

Skífan ætlar að læsa öllum geisladiskum


Til að bregðast við minnkandi sölu, sem fyrirtækið telur að stafi einna helst af síaukinni ólöglegri fjölföldun á tónlist, hyggst plötufyrirtækið Skífan læsa geisladiskum sem það gefur út svo að ekki sé hægt að spila þá í tölvum og þá ekki hægt að afrita þá. Einnig hyggst Skífan lækka verð á nýjum og nýlegum geisladiskum um allt að 9%.



Í sameiginlegri tilkynningu aðstandenda Norðurljósa, sem eiga Skífuna, fulltrúa Samtaka flytjenda og hljómplötuframleiðenda og Samtaka tónskálda og eigenda flutningsréttar kemur fram að þetta sé gert til að bregðast við síaukinni ólöglegri fjölföldun, en í tilkynningunni kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá alþjóðasamtökum hljómplötufyrirtækja sé einn diskur brenndur fyrir hvern disk sem seldur er.



Í tilkynningunni segir og að gengisþróun íslensku krónunnar síðustu vikur hafi veitt ákveðið svigrúm til verðlækkunar, en auk þess vilji fyrirtækið leggja sitt af mörkum til að sporna gegn verðbólgu. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hyggjast aðrar íslenskar útgáfur hafa sama háttinn á og þannig verða útgáfur Smekkleysu varðar á sama hátt og einnig stefnir Edda útgáfa & miðlun að því að læsa sínum útgáfudiskum.


—————————————————————–

Mikið hefur verið rætt um ólöglega skrifun á CD. Ég persónulega hef aldrei kóperað CD. Ég hef hins vegar grabbað flest alla mína tónlist inná tölvuna mína til að geyma þar á mp3 formi og skrifað disk fyrir mig persónulega með samansafni af mörgum mismunandi flytjendum (hver hefur ekki gert það).

Það er ekkert sem bannar að eiga öryggiseintak af geisladiskum og mér fyndist það sárt ef ég gæti ekki grabbað neina tónlist í tölvuna mína í framtíðinni.
Persónulega finnst mér þetta ekki rétt af Skífunni. Það er ekkert sem bannar fólki að spila tónlistardiska í tölvum. Svo finnst mér ekki líklegt að sala geisladiska muni koma til með að aukast neitt til muna. Held messja að það verði ekki nein mælanleg aukning.


Hvað finnst fólki um þetta? Rétt eða rangt af skífunni? Mun sala á diskum aukast?