Eftir að hafa kannað verðlista STEF rakst ég á nokkuð sem kom mér á óvart.
STEF heimtar að fá greitt fyrir þá tónleika sem eru haldnir á Íslandi.
Ég hugsaði með mér að við væri átt stórtónleika en komst síðan að því að svo væri ekki því verðlistarnir gilda einnig fyrir tónleika með undir 100 manna aðsókn.
Svo ég sendi bréf um ímyndaða tónleika:

“Ég er að skipuleggja rokktónleika sem ég ætla að halda í leigðum kjallara á Akureyri.
Ég er ekki viss hversu margir mæta en ég býst við upp undir 100 manns.
Það verða um það bil þrjár hljómsveitir að spila en ég hef nokkrar spurningar.
-Þarf ég að vera lögráða til að sækja um tónleikahald?
-Ég er ekki viss hversu langir tónleikarnir verða, á ég að taka saman hversu langt prógramm hver hljómsveit er með?
-Ein hljómsveitin gæti tekið upp á því að spila erlent lag eftir frægan höfund, þarf ég að borga auka skatt?
-Hversu mikið þyrfti ég að borga til STEF og með hvaða móti ætti ég að gera það?”


Degi seinna fékk ég svar:

“Svar við spurningum í tölvubréfi þínu í gær: Þú þarft að vera fjárráða til þess að fá leyfi til tónleikahaldsins.

Áður en tónleikar eru haldnir skal tónleikahaldari afla heimildar til flutnings þeirra tónverka, sem ætlunin er að leika á tónleikunum og skila inn til skrifstou Stefs, í þessu tilfelli umboðsskrifstofu Stefs á Akureyri, upplýsingum, þar sem fram kemur hver stendur fyrir tónleikunum og er ábyrgðarmaður þeirra. Þá þarf að fylgja með umsókninni

skrá yfir höfunda lags og texta. Umsóknareyðublöð fást á skrifstofu Stefs eða hjá umboðsmanni Stefs.

Eigi þarf að borga sérstaklega þótt lag sé flutt eftir erlendan höfund. Fjárhæð Stefgjalds er 4% af brúttóandvirði selds aðgangseyris en þó aldrei lægra en ákveðin lágmarksgjöld sem miðast við fjölda samkomugesta, sem dæmi:

Ef samkomugestir eru undir 100 er gjaldið kr. 4.221, séu þeir á bilinu 101-200 er gjaldið 12.662, séu þeir á bilinu 201-300 er gjaldið 18.993 og síðan ef samkomugestir eru fleiri skal greiða kr. 5.803 fyrir hvert byrjað hundrað umfram 300. Stefgjaldið skal greiða fyrirfram, ef vitað er hvað það verður, en annars næsta virkan dag eftir tónleika. Af stærri tónleikum, þar sem ætla má að leyfisgjald fari yfir kr. 20.000, skal tónleikahaldari skila inn tryggingu fyrir væntanlegu Stefgjaldi.”


Þetta hefði mér aldrei dottið í hug.
Ræðið.