Sælt veri fólkið,

Eins og ég hef áður minnst á mun Phil Elvrum, áður þekktur sem The Microphones en starfar nú undir nafninu Mount Eerie, halda nokkra tónleika hér á landi. Þeir fyrstu eru í Frumleikhúsinu Keflavík, fimmtudaginn 17. mars þar sem hann kemur fram ásamt Woelv og Þóri. Á föstudaginn mun hann svo spila í hljómsplötuverslun Smekkleysuveldisins og á laugardagskvöldið verða svo aðal tónleikarnir í Klink og Bank þar sem áðurnefnd Woelv og Þórir munu einnig spila ásamt Gavin Portland. Aðgangseyrir að tónleikunum í Keflavík og Klink og Bank er 500 krónur, báðir hefjast klukkan 20:00 og aldurstakmark er ekkert. Smekkleysu tónleikarnir eru líka öllum opnir og hefjast klukkan 17:00. Til að einfalda þetta enn frekar er dagskráin hér svart á hvítu:

- 17. mars: Frumleikhúsið í Keflavík ásamt Þóri og Woelv. Húsið verður opnað kl. 20:00
- 18. mars: Smekkleysubúðin ásamt Woelv og Brite Light kl. 17:00
- 19. mars: Klink & Bank ásamt Þóri, Woelv og Gavin Portland. Húsið verður opnað kl. 20:00

Ég vona að sem flestir láti sjá sig á þessum tónleikum því hér um að ræða stórmerkilegan viðburð sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

takk og bless,

árni viðar

e.s. þess má geta að Woelv er listamannsnafn Genevieve Castree, sem jafnframt sýnir verk á myndasögumessunni Níunni í Listasafni Reykjavíkur.


www.kpunk.com