Geisladiskar eru afkvæmi tónlistarmanna og verða ávallt mikilvægasti gripur allra þeirra sem fást við slíkt. Gróði er langt frá því að vera það sem tónlistamaðurinn sjálfur er með efst á lista sínum þegar framleiðsla hefst, en það er hins vegar hjá framleiðandanum sjálfum.
Verð á hljómplötum á Íslandi er með þeim hærri í heiminum þótt við séum þekkust um allan heim fyrir að skapa mjög öfluga og framsækna tónlist, hvernig stendur á þessu og afhverju er ríkið að leggja virðisaukaskatt á slíkar vörur þegar þær hafa örugglega gert meira fyrir sálarlíf landsmanna en öll önnur afþreying?
Fiskurinn er ekki lengur það sem við erum þekkt fyrir heldur er það tónlistin, og þurfa stjórnvöld að fara að virða það með því að afnema skatta á hljómplötur og allt sem tengist tónlist í þessu landi.
Tónlistarbransinn á Íslandi er án efa sá allra erfiðasti til að reyna að skapa sér lifibrauð á, og ættu því stjórnvöld að grípa í taumana núna og ekki gera landsmönnum þetta svona erfitt fyrir.
Mikill hæfileiki er í okkar ágæta landi á sviði listar þar liggur enginn vafi á, en hvernig er þróunin? Hún er að staðna og færast í undirheimana, þ.e.a.s netið sér fyrir tónlistaþorsta fátækra námsmanna ekki plötuverslanir. Þessar helstu og stærstu verslanir hafa aðeins eitt markmið í huga þegar þú stígur inn til þeirra og það er að mjólka kúnnann. Ríkið er ekkert að gera í þessum málum og guð veit að ekki munu eigendur verslana reyna að leggja niður gróðann sinn nema þá í skammann tíma til að draga að viðskipti.
Almennt verð á hljómplötum er nú farið í rúmar 2500 kr og er þetta verð ekki mönnum bjóðandi. Ég sem neitandi og stuðningsmaður íslenskrar tónlistar læt mig hafa það einstöku sinnum að versla við þessa fjendur mína og ekki líður mér vel í pyngjunni eftir það, þótt ljúfir tónar listamannana draga verulega úr þeirri kvöl.
Almennt verð ætti að vera í kringum 1000 kr til 1500 kr á nýrri tónlist og ég er sannfærður um að aukin sala verður í búðum og ólögleg niðurhleðsla minnkar.
Eru stjórnvöld ekki að fara að taka þetta alvarlega?

Berjumst gegn glæpum og fellum skatt af tónlist