Mig langar að benda á slóðina http://www.ateaseweb.com/multimedia/audio.php fyrir alla þá sem kunna að meta hljómsveitina Radiohead. Á þessari síðu er að finna fullt af mp3 með lögum af næstu breiðskífu hljómsveitarinnar. Þessar hljóðritanir eru af tónleikum þeirra í Portúgal, en þeir eru þar núna að spila og kynna nýtt efni.

Flest lögin þarna eru glæný, en á milli eru lög sem eru eldri. T.d. tónleikaútgáfa af Karma Police og frábæru lagi sem heitir Lift. Lift er lag sem var tekið upp á svipuðum tíma og OK Computer og mér skilst að eina ástæðan fyrir því að það fór ekki á plötuna hafi verið sú að það var of stutt. Útgáfan hér er þó rúmar 4 mínútur. Sjálfur sagði Thom Yorke að þetta lag og Down séu best sömdu lögin þeirra. Ég er algerlega sammála honum, og sérstaklega þá varðandi Let Down.

Af nýrri lögum vil ég helst benda á There there, og þá frekar útgáfuna sem tekin var upp á tónleikunum 23-7 frekar en 22-7, en sú síðarnefnda er svolítið grófari. Önnur lög sem eru sérstaklega góð eru Keep the Wolf From the Door, Scatterbrain og Where I End and You Begin.

Þess skal getið að þetta eru sjóræningjaútgáfur, og mjög misgóðar hvað varðar hljómgæði. Sjálfir eru hljómsveitarmeðlimir ekki á móti því að hlustað er á þetta, en þeir eru meðvitaðir um að EMI, útgáfufyrirtækið sem þeir eru hjá kunna ekki að meta þetta. Útgáfur laganna eru ekki það sem hægt er að kalla ‘final’, en þeir eiga sjálfsagt eftir að fara í stúdíóið og vinna þetta meira og betur áður en þetta kemur út.

Sjálfur veit ég ekki alveg hvað skal segja um þessi lög annað en að þau eru þrusugóð. Þau eru ekki eins og lögin á OK Computer, og ekki eins og lögin á Amnesiac og ekki eins og á Kid A. Þau eru svoldið ballöðuleg, en alls alls alls ekki klisjuleg. Svo er aldrei að vita hvernig þau hljóma þegar þau koma út á plötu, sbr. True Love Waits sem var talsvert drungalegra á tónleikaplötunni en það var í sjóræningjaútgáfunni sem flakkaði á Napsternum og Audiogalaxy.

Á þessari síðu sem ég benti á í upphafi greinarinnar er mikið af upplýsingum, og það koma inn fréttastúfar á nærri hverjum degi þar sem sagt er frá hvaða lög voru spiluð á síðustu tónleikum, og í hvaða röð þeir tóku þau.

Endilega kannið málið. Sjálfur skoða ég þessa síðu á hverjum degi og bíð alveg rosalega spenntur eftir plötunni (og eftir tækifæri til að sjá þá á tónleikum).

Ég hvet ykkur einnig til þess að leiðrétta mig ef það er eitthvað í þessum skrifum sem er ekki rétt.
Homonculus