Krupa and Rich ('55) KRUPA and RICH (1955)

Ok. Hver er besti trommari allra tíma? Gene Krupa? Buddy Rich? Þetta eru í það minnsta þau tvö nöfn sem flestir líta til. Hvað um það. Best að troða þessum mönnum bara saman í stúdío, sjá hver útkoman verður. Já. Hún er góð.

Hversu mikið er hægt að gera með fjóra útlimi? Það er spurning sem kemur upp við hlustun á þessum disk. Takmörkin virðast ekki vera ýkja mikil.

En þessir menn, Krupa og Rich, voru miklir frumkvöðlar. Segja má að þeir hafi breytt ‘hlutverki’ trommarans. Hófu að stofna sín eigin bönd og þar fram eftir götunum. Bera fór meira á trommusólóum svo eitthvað sé nefnt.

Svo við víkjum ná að upphafinu. Þá var tilgangurinn með því að fara í stúdíó, að endurgera þær mögnuðu stundir sem upplifðar höfðu verið á JATP (Jazz at the Philharmonic) túrunum. Og á þessum frægu tónleikum, á sjötta og sjöunda áratugnum, var ákveðið athæfi sem í það minnsta gladdi áhorfendur mikið. Það voru svokölluð ‘drum-battles’. En, því miður segji ég fyrir mína parta, var vikið frá þeirri stefnu þegar í stúdíóið var komið. Ég gæfi mikið fyrir að næla mér í videoupptöku af þessum baráttum þeirra, sem Rich hafði yfirhöndina í, skilst mér.

Mér finnst rétt að nefna meðlimi hljómsveitarinnar líka, því þeir spila stórt hlutverk, en það voru þeir; Dizzy Gillespie (trompet), Oscar Peterson (píano), Illinois Jaquet (tenorsaxafón), Flip Phillips (tenorsaxafón), Roy Eldrige (trompet), Ray Brown (bassi), Herb Ellis (gítar) og svo auðvitað Krupa & Rich á trommur. Engir aukvísar þar á ferð.

Ég á til með að mæla í það minnsta með einu lagi; Bernie’s Tune. Svo Buddy’s Blues, og Gene’s Blues. Bernie’s Tune þykir mér þó persónulega mesta trommuafrek disksins.

Gene Krupa; “..anyone playing with Bud is going to get blown away.”