Í tilefni Jeff Buckley tónleikana í Austurbæ 29. maí er hér smá yfirlitsgrein um Jeff Buckley. Áhugasamir geta freistað gæfunnar með að fá miða á tónleikana og aðgang í eftirpartí með því að skrá sig sem vin á www.myspace.com/manzproduction
Dregið verður föstudaginn 25. maí

Jeff Buckley 1966 - 1997

Jeffrey Scott Buckley fæddist 17. Nóvember 1966. Faðir hans var tónlistarmaðurinn Tim Buckley og móðir hans Mary Guibert. Þrátt fyrir að hafa aðeins hitt föður sinn einu sinni var Jeff Buckley alinn upp á tónlist og því ekkert skrítið að hann sótti á þá braut í lífinu.

Í byrjun ferilsins var ekki mikið um tækifæri fyrir ungan Buckley en 1990 fóru hjólin að snúast. Hann kynntist Qawwali söng frá Indlandi og Pakistan og byrjaði að stúdera hana ásamt rokki, blús og djasstónlist. Fyrrverandi umboðsmaður Tim Buckley hjálpaði honum að hljóðrita prufuupptökur af frumsömdu efni. Í kjölfarið kom Jeff Buckley opinberlega fram á tónleikum til heiðurs föður sínum. Það var ákveðið uppgjör við fortíðina en einnig nýtt upphaf. Á þeim tónleikum fékk hann gítarleikarann Gary Lucas til liðs við sig og sannaði fyrir viðstadda að þarna væri mikið efni á ferð. Jeff og Gary byrjuðu svo að vinna saman efni og sömdu lögin Mojo Pin og Grace.

Buckley bauðst að ganga til liðs við hljómsveit Gary Lucas, Gods & Monsters ásamt framleiðslusamning við útgáfufyrirtæki hljómsveitarinnar. Hann flutti til New York en stoppaði stutt í hljómsveitinni.
Buckley byrjaði að spila einn á litlum klúbbum til að þjálfa hæfileika sína og var fastbókaður öll mánudagskvöld á litlu kaffihúsi. Á Sin-é fór hróður Buckley´s að berast manna á milli og fyrr en varði var ávalt fullt út að dyrum þegar Jeff spilaði. Erindrekar plötufyrirtækja tóku eftir þessu og margir hverjir mættu á tónleikana í von um að semja við Jeff. Buckley skrifaði að lokum undir þriggja plötu samning við Columbia Records. Fyrsta útgáfan var lítill tónleikadiskur hljóðritaður á Sin-é árið 1993 og kom út um jólin það árið.

Sama ár fór Buckley að vinna með upptökustjóranum Andy Wallace að fyrstu stóru plötunni. Buckley setti saman hljómsveit og hóf upptökur eftir nokkra vikna æfingalotu. Grunnurinn var unninn í Bearsville Studios í Woodstock á sex vikum. Buckley fór með upptökurnar heim til New York og kláraði verkið í hljóðverum á Mannhattan og New Jersey. Grace leit dagsins ljós 23. ágúst 1994.

Grace uppskar gríðarlega góðar viðtökur gagnrýnenda en byrjaði rólega í sölu og fékk nánast enga spilun í útvarpi. Hljómsveitin fór í kjölfarið í tónleikaferð um heiminn og lék vítt og breitt. Hægt og bítandi jókst hróður Jeff Buckley og ekki sakaði að helstu nöfn tónlistariðnaðarins byrjuðu að hampa honum. Hetjur á borð við Jimmy Page og Robert Plant, David Bowie, Bob Dylan, Paul McCartney, Lou Reed, Thom Yorke, U2 og Elton John notuðu stóru orðin óspart. Í dag hefur Grace selst í yfir tveim milljónum eintaka og náð gullsölu í Bandaríkjunum, Frakklandi og sexfaldri platínusölu í Ástralíu.

Eftir langa og stranga tónleikaferð til að kynna Grace snéri Jeff aftur til New York og árið 1996 fór hann einn síns liðs á tónleikaferð og spilaði undir ýmsum dulnefnum. Jeff vildi tengjast áheyrendum eins og hann gerði í upphafi ferilsins. Eftir þessa leynitónleikaferð fór hann að semja nýtt efni fyrir næstu stóru plötu. Buckley fluttist til Memphis í Tennessee fylki Bandaríkjanna og hóf að hljóðrita prufuupptökur í svokölluðu „shotgun“ húsi sem eru pínulítil ferköntuð hýbíli sem finna má í suðurríkjunum Bandaríkjanna.

Á sömu stundu og Hljómsveit Buckley´s var á leiðinni í flugi til að hljóðrita næstu plötu drukknaði Jeff í Missisippi ánni. Frásögn rótara Jeff´s segir að eftir góða kvöldmáltíð hafi Buckley viljað fara niður á höfn að drepa tímann. Þeir voru með gettóblaster með sér og hlustuðu á Led Zeppelin. Jeff ákveður að kæla sig í hitanum og dýfir sér í ánna. Á meðan hann buslar í ánni syngjandi Whole Lotta Love hástöfum siglir bátur framhjá í fjarska. Undiraldan sem myndast frá bátnum er nóg til að draga Jeff Buckley með sér og rótarinn fær við engu ráðið. Jeff Buckley fannstlátinn viku síðar.

Jeff Buckley náði aðeins að gefa út eina hljóðversskífu á sínum stutta ferli en jafnframt náð þeim sorglega stalli fallna stjarna sem deyja aldur fram án þess að ná fullum listrænum þroska. Andi Jeff Buckley´s lifir áfram í dag og nýjar kynslóðir kynnast tónlistinni og þurfa að dreyma um hvað hefði gerst ef hann hefði fengið að lifa.

www.myspace.com/manzproduction
www.jeffbuckley.com