[fréttatilkynning frá tónleikahöldurum]

Björk Guðmundsdóttir hyggst ljúka tónleikaferð sinni um
heiminn með tónleikum í Reykjavík 19. desember
næstkomandi. Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur með Björk á
tónleikunum.

Björk er nú á ferð um heiminn að kynna nýútkomna breiðskífu
sína, Vespertine. Í tónleikaferðinni hefur hún komið fram í
leikhúsum og óperum, en hér á landi mun hún syngja í
Laugardalshöll. Með henni hefur leikið belgísk
sinfóníuhljómsveit undir stjórn Simons Lee, en þegar kom að
tónleikum hér á landi leitaði Björk til Sinfóníuhljómsveitar
Íslands. Einnig verða með í för grænlenskur stúlknakór,
inúítasöngkonan Tagaq, hörpuleikarinn Zeena Parkis og
bandarískir tónlistarmenn sem kalla sig Matmos.

Eins og getið er leikur Sinfóníuhljómsveit Íslands með Björk
en Simon Lee mun stjórna hljómsveitinni eins og á öllum
tónleikum Bjarkar í ferðinni.

Miðasala hefst á tónleikana mánudaginn 19. nóvember
næstkomandi kl. 10:00 í miðasölu Háskólabíós. Einungis
verður selt í númeruð sæti og verður svipað fyrirkomulag á
sætauppröðun og Vínartónleikum Sinfóníunnar og tónleikum
kúbversku hljómsveitarinnar Buena Vista Social Club fyrr á
árinu.