Bjarkarafl og Vespertine Ég þurfti að flytja af landi til að gera mér grein fyrir hve Björk var stór hluti af tónlistarforvitni og ákafa mínum til að finna eitthvað nýtt og ferskt í tónveröldinni. Ég hafði náttúrulega alltaf vitað af henni og átti Gling Gló og Debut en var enginn sérstakur aðdáandi, fannst þetta bara vera fínustu poppplötur sem gaman var að syngja með. Eftir að Post kom út hlustaði ég á á It´s Oh So Quiet þangað til ég fékk skærappelsínugular bólur í stíl við kjólinn hennar og þá lagði ég Bjarkarforvitninni um stundarsakir.

Ég flutti erlendis stuttu eftir að Homogenic kom út og að sjálfsögðu keypti ég Telegram í fríhöfninni en Telegram er plata með 9 endurhljóðblöndunum af Post plötunni og einu nýju lagi, My Spine. Þar með var ég komin á bragðið aftur og hef verið aðdáandi síðan. Í útlandinu gat ég ekki farið í labbitúr í skóginum nema að hafa Telegram með mér og Debut var alltaf í bílnum á leiðinni í skólann, [krakkarnir sem ég var að passa kunna ennþá alla plötuna utanað].

Ein magnaðasta upplifun sem ég tengi við tónlist er svo náttúrulega fléttuð saman við Björk. Þegar ég kom heim eftir ár í útlöndum ákvað ég að ganga upp á topp Vatnajökuls með litlum hóp af fólki sem ég hafði aldrei séð áður. Að venju var ég með vasadiskó með bestu tónlistinni minni og eftir margra klukkutíma göngu í rigningu og þoku, gengum við allt í einu í gegnum skýin. Við vorum komin það hátt að skýin voru skilin eftir fyrir neðan okkur á meðan skærskínandi sól, blár himinn og hvítt jökulhaf tók á móti. Mitt í þessum umskiptum kom Bjarkarkafli í vasadiskóinu; Vísur Vatnsenda-Rósu, One Day, I go Humble og All is Full of Love. Ég gjörsamlega féll í stafi yfir mikilfengleik alls þess sem er til og mun aldrei, aldrei gleyma þessari tilfinningu. Hvernig er annað hægt en að virða og dást að tónlistarmanni sem tekst að opna nýjar og mismunandi gáttir á manni sem maður vissi ekki einu sinni að væru til.

Nú hefur Björk gefið út heilan helling af efni og loksins er Vespertine hin langþráða komin út. Ég fékk mér náttúrulega báðar smáskífurnar af Hidden Place en þær innihalda líka lögin Generous Palmstroke, Verandi, Mother Heroic og Foot Soldier. Svo náði ég mér í Our Hands á netinu en einhverra hluta vegna er það talið upp með smáskífulögunum á Björk.com þrátt fyrir að vera ekki á Hidden Place smáskífunum.

Hvað get ég sagt? Með Vespertine býr Björk til ný orð, nýja tilfinningar, nýja takta, nýtt ferli og nýjan heim. Hún er greinilega ástfangin og lætur frá sér að þessu sinni sérstaklega rómantíska og kynæsandi plötu. Hún dregur mann inn í innsta hring hugarhvelsins en ýtir manni svo út á hjara veraldar og allt er þetta jafn heillandi. Maður veit aldrei við hverju maður á að búast með Björk, hún fylgir aldrei neinum reglum og býr til sitt eigið kerfi sem enginn mun nokkurn tíman kunna kóðann að. Eitt sem minnti mig á Selmasongs ævintýrið var hvernig lögin halda endalaust áfram. Selma fór alltaf út af söngleikjamyndum þegar næstsíðasta lagið var að klárast þannig að ævintýrið gæti haldið áfram endalaust og þannig tilfinningu fékk ég í lögunum Cocoon og Harm of Will. Þegar maður býst við einni setningu í viðbót í lagi kemur hún ekki…….þar af leiðandi haldast lögin opin þannig að manni finnst þau aldrei enda og allt gengur þetta upp.

Eftir allt sem á undan er gengið get ég ekki annað en sagt að Björk sé sá listamaður sem hefur haft hvað mest áhrif á mig, hún er fallegt, fluggáfað, furðuverk. Kaupið Vespertine í dag!