Mount Eerie, Woelv og Micah Blue Smaldone Dagana 26. og 27. mars munu Mount Eerie (áður The Microphones), Woelv og Micah Blue Smaldone halda tvenna tónleika hér á landi. Þeir fyrri fara fram á Kaffi Hljómalind en þeir síðari á Gamla Bókasafninu í Hafnarfirði. Auk þess koma Lay Low (26. maí) og Rökkurró (27. maí) fram en aðgangseyrir er einungis 700 krónur á hvora tónleika fyrir sig. Þess má geta að Mount Eerie og Woelv spiluðu einnig hér fyrir rúmu ári og vöktu þá mikla lukku þeirra fjölmörgu sem börðu þau augum.

Það er óhætt að fullyrða að hinn bandaríski Phil Elverum (Mount Eerie/The Microphones) sé einn hæfileikaríkasti og um leið afkastamesti tónlistarmaður sinnar kynslóðar. Það er því hálf ótrúlegt til þess að hugsa að fyrsta breiðskífan hans undir nafninu The Microphones, ‘Don’t Wake Me Up’, kom út fyrir aðeins sjö árum er Elverum var rétt skriðinn yfir tvítugt. Þá var hann tiltölulega nýfluttur til Olympia í Washington, þar sem hin goðsagnakennda K Records útgáfa hefur aðsetur en segja má að eigandi hennar, Calvin Johnson (Beat Happening, The Halo Benders, Dub Narcotic Sound System), hafi tekið Elverum upp á sína arma og komið honum á framfæri. Næsta plata, ‘It Was Hot We Stayed in the Water’, leit dagsins ljós ári síðar en síðan var komið að þekktustu plötu The Microphones til þessa, ‘The Glow pt.2’, sem var um leið þriðji kaflinn í hálfgerðum fjórleik um frumefnin. Þó fyrri plötur The Microphones hafi almennt fengið mjög góðar viðtökur sló ‘The Glow pt.2’ öllu við og gagnrýnendur, jafnt sem tónlistaráhugamenn kepptust við að lofa bæði plötuna og Elverum sjálfan.

Eftir velgengni The Glow pt. 2 má segja að Elverum hafi verið allar dyr opnar en hann ákvað hins vegar að fylgja eigin hugsjón og lagði því eins konar drög að dauða The Microphones. Platan ‘Mount Eerie’ frá árinu 2001 markaði þannig endalok þessa aukasjálfs hans og greindi frá ferðalagi manns upp á fjall þar sem hann lét á endanum lífið. Sjálfur hvarf Elverum einnig í sjálfskipaða útlegð til Noregs þar sem hann enduruppgötvaði sjálfan sig og fylltist löngun til að búa til tónlist á ný. Í stað þess að velja auðveldu leiðina og gera aðra Glow plötu, eins og margir vonuðust eflaust eftir, snéri hans vegar aftur á algjörlega eigin forsendum og kallaði sig nú Mount Eerie.

Í raun er Mount Eerie ekki svo mjög frábrugðin The Microphones enda skína hin sterku höfundareinkenni Phil Elverum skýrt í gegn. Sköpunarkrafturinn hefur heldur ekkert dvínað heldur dælir Elverum frá sér plötum í hinum ýmsu stærðum og gerðum en sú nýjasta, sem reyndar var hvorki hugsuð sem opinber plata né til sölu, hefur að geyma lestur hans á Egils sögu eins og hún leggur sig (sjö diskar!). Þetta framtak var í raun aðeins hugsað sem jólagjöf handa vinum og vandamönnum en engu að síður virðast herlegheitin vera fáanleg á E-bay fyrir vænar fúlgur enda á Elverum afar dyggan aðdáendahóp sem er greinilega tilbúinn til að leggja ýmislegt á sig. Þannig eru heilu spjallsíðurnar tileinkaðar Mount Eerie/Microphones þar sem fólk veltir fyrir sér mögulegum meiningum og táknum í tónlistinni. Hvort þau eru til staðar skal ósagt látið en hitt er þó víst að Phil Elverum er afar hæfileikaríkur tónlistarmaður með mjög sterka nálægð á sviði. Hann er jafnframt duglegur við að semja nánast ný lög á staðnum og spilar sjaldnast sömu lögin tvo tónleika í röð. Því ætti enginn að verða svikinn af tónleikum hans hér á landi nú í lok maí og fólk, sem hefur áhuga á skemmtilegri jaðartónlist án allrar tilgerðar, ætti því endilega að kynna sér kappann. Þess má svo geta að hann á afmæli sama dag og hann spilar á Kaffi Hljómalind (26.mars) og það er því aldrei að vita nema við kennum honum að syngja afmælissönginn á íslensku.

Woelv er listamannsnafn hinnar frönsk-kanadísku Genevieve Castrée, sem jafnframt er unnusta Phil Elverum. Hún vakti ekki síður mikla lukku þegar hún spilaði hér í fyrra og hefur auk þess getið sér gott orð fyrir myndlist sína. Tónlist hennar er afar lágstemmd og sungin á heldur sérkennilegri frönsku, sem að sögn Castrée, hefur oftar en ekki verið túlkuð sem íslenska af mörgum Vestanhafs. Castrée hefur enn sem komið er aðeins gefið út eina breiðskífu, ‘Pamplemoussi’ árið 2001, sem er í raun tónlist fyrir myndasögu sem prýddi plötuumslagið (kom aðeins út á vínyl). Woelv sendi þó einnig nýverið frá sér smáskífuna ‘Gris’, sem hægt er að nálgast í gegnum áðurnefnda K útgáfu í Washington.

Ólíkt Elverum og Castrée hefur bandaríski tónlistarmaðurinn Micah Blue Smaldone aldrei spilað hér á landi og því verður athyglisvert að sjá hvernig viðbrögð hann fær. Af tónlistinni að dæma ætti Smaldone að vera a.m.k. 100 ára gamall (en ekki 28 ára) þar sem hann sækir mjög stíft í rætur bandarískrar blúshefðar. Hann hefur gefið út 2 breiðskífur á vegum Northeastindie útgáfunnar í Portland, sem nefnast ‘Some Sweet Day’ (2004) og ‘Hither and Tither’ (2005). Þá hefur hann m.a. spilað á tónleikum með Cerberus Shoal og Bonnie ‘Prince’ Billy auk þess fá mjög góða dóma í hinum ýmsu tónlistartímaritum. Það fyrsta sem fólk tekur eftir er yfirleitt sérstök rödd hans og gítarleikur sem, eins og áður segir, gefur til kynna að hér sé á ferð blústónlistarmaður frá fyrri hluta tuttugustu aldar er villtist einherra hluta vegna upp í tímavél og endaði hér í nútímanum.

Rúsínan í pylsuendanum eru síðan tvær íslenskar hljómsveitir, sem eiga að öllum líkindum eftir að gera mikla lukku á komandi misserum. Lay Low er þó í raun ekki hljómsveit heldur einstaklingsverkefni Lovísu úr hinni mjög svo athyglisverð Benny’s Crespo Gang. Sem Lay Low sýnir Lovísa reyndar á sér töluvert aðra hlið en gæðin eru þau sömu og það kæmi mikið á óvart ef hún næði ekki enn lengra. Loks er Rökkurró ung og efnileg fimm manna sveit úr Reykjavík sem vakið hefur þó nokkra athygli fyrir einlæga en um leið þroskaða spilamennsku. Rökkurró mun spila með þríeykinu á tónleikum þess í Gamla bókasafninu í Hafnarfirði (Mjósundi 10) laugardaginn 27. maí en Lay Low á Kaffi Hljómalind kvöldið áður. Aðgangseyrir er einungis 700 krónur, sem er í raun hlægilegt verð auk þess aldurstakmarkið er ekkert. Fólk er því enn og aftur hvatt til að mæta enda bjóðast tónleikar í þessum gæðaflokki (og fyrir þetta verð) svo sannarlega ekki á hverjum degi.


Föstudagur 26. maí á Kaffi Hljómalind kl. 20:00:
Mount Eerie
Woelv
Micah Blue Smaldone
Lay Low

Laugardagur 27. maí á Gamla Bókasafninu í Hafnarfirði (Mjósundi 10) kl. 20:00:
Mount Eerie
Woelv
Micah Blue Smaldone
Rökkurró


Tenglar:
http://www.pwelverumandsun.com/
http://www.krecs.com
http://mounteerie.trivialbeing.net/
http://www.opaon.ca/
http://www.micahbluesmaldone.com
http://www.northeastindie.com