Fjórir fræknir... TÓNLEIKAR MEÐ DREKKA, VOLLMAR, ÞÓRIR OG ALMAR Í KAFFI HLJÓMALIND, LAUGARDAGINN 19.11. OG Í SMEKKLEYSU PLÖTUBÚÐ, ÞRIÐJUDAGINN 22.11.

Laugardaginn 19. nóvember n.k. munu bandarísku tónlistarmennirnir Drekka og Vollmar leika fyrir gesti Hljómalindar ásamt þeim Þóri og Almari.

Drekka, sem er aukasjálf Michael Anderson eiganda BlueSanct útgáfunnar, ætti að vera orðinn mörgum tónlistaráhugamönnum kunnugur enda í fjórða sinn á jafnmörgum árum sem hann heldur tónleika hér á landi. Þrátt fyrir það vita fæstir hverju þeir eiga von á er Drekka stígur á svið þar sem tónlist hans byggir á ákveðinni stemningu fremur en struktúr. Tónleikar Drekka eru því einstök og vægast sagt athyglisverð upplifun, eins og allir sem séð hafa kappann geta staðfest.

Justin Vollmar er á mála hjá BlueSanct útgáfunni og fæst við lágstemmda og ljúfsára þjóðlaga tónlist. Hann nýtur við það aðstoðar vina og vandamanna en að þessu sinni er Nathan bróðir hans með í för til að leika undir. Báðir eru þeir að koma hingað til lands í fyrsta sinn og því verður sérstaklega gaman að sjá hvaða undurfögru tóna þeir töfra fram.

Flestir ættu að þekkja nafn Þóris enda hefur þessi fjölhæfi tónlistarmaður gefið út 2 magnaðar breiðskífur og verið afar virkur í tónleikahaldi undanfarin misseri. Það eru því engar ýkjur að Þórir sé gjarnan nefndur bjartasta von íslenskrar tónlistar þó sjálfur vilji hann gera sem minnst úr slíkum merkimiðum.

Það gæti líka vel verið að björtustu vonina sé einfaldlega annars staðar. Víkur þá sögunni að hinum unga Almari, sem kemur úr Eyjafirðinum. Á meðan Þórir og Vollmar eru á svipaðri línu sver Almar sig meira í ætt við Drekka og hafnar allri hefðbundinni uppbyggingu í tónlist. Þegar Almar er annars vegar er því réttara að tala um upplifun fremur en tónleika og fólk ætti því að bíða spennt…

ÞESSI FRÁBÆRA FERNING SPILAR Á KAFFI HLJÓMALIND LAUGARDAGINN 19.11. KL.20:00. AÐGANGSEYRIR ER AÐEINS 500 KRÓNUR OG VONANDI AÐ SEM FLESTIR LÁTI SJÁ SIG.

Að lokum má geta þess að Drekka og Vollmar taka nokkur vel valin lög í Smekkleysu plötubúð þriðjudaginn 22.11. kl.17:00