Takk... - Sigur Rós Diskurinn byrjar rosalega rólega. Titillagið, “Takk…”, er aðeins 2 mínútur af rólegu brassi og fiðluleik sem að virkar mjög vel á mig.

Í framhaldi af “Takk…” kemur lagið “Glósóli” sem að hefur verið í spilun á Xfm og X-inu undanfarna viku. Lagið byrjar mjög rólega, yfirvegað og fallegt, og byrjar síðan hægt og rólega að lyfta sér upp á hærra plan. Flottur texti sem að endurtekur sig, “Hér ert þú…”, byggist hægt upp og springur síðan með miklum látum, stórum og miklum effectum og hljóma-bombu. Þessi kafli í laginu er alveg rosalega flottur og minnir óneitanlega á lög af Ágætis Byrjun.

Eftir að “Glósóli” hefur dottið niður aftur og slakað aðeins á kemur lagið “Hoppípolla” sem að er án efa flottasta lagið á disknum. Pianoið í byrjun er óendanlega fallegt, maður fær einfaldlega ekki leið á því. Í þessu lagi nota Sigur Rós dálítið sömu orðin og orðamynsturin sem að þeir notuðu í “()” og “Ágætis Byrjun” og má þar nefna setninguna “Allur rennblautur.” Ég get ekki sagt annað en að ég fái nettan svima þegar að ég hlusta á þetta lag, rosalega falleg hljómasamsetning, flott slagverk, laglínan og textinn alveg einstaklega vel sett saman.

Lagið “Hoppípolla” inniheldur setninguna “Og ég fæ blóðnasir” og finnst mér mjög gaman af því að næsta lag heitir einmitt “Með Blóðnasir” og er hálfgert frammhald af “Hoppípolla” án þess að vera langdreginn endir. Með þessu móti eru Sigur Rós að ná að gera “Hoppípolla” ekki langdregið og bæta einnig við öðru lagi á diskinn sem að margir gætu talið flottara heldur en lagið sem að kemur á undan. “Með Blóðnasir” er því bara instrumental en mjög fallegt þrátt fyrir það.

Eftir það kemur lagið “Sé lest” sem að er mjög opið og fallegt lag. Við fyrstu hlustun er það rosalega “döll” og gefur ekki beint mikið frá sér. En eftir nokkrar hlustanir er það orðið rosalega auðvelt í áhlustun og þægilegt. Það minnir mig líka nett á Eels vegna allra bjallanna og gladdi það mig mjög að heyra bjöllusönginn í byrjun og í miðjuhluta lagsins. Þegar að maður hlustar líka á lagið í heyrnatólum þá er það órúlega fallega pan-að og virkar allt öðruvísi á mann heldur en í hátölurum. Endirinn í “Sé lest” er einnig skemmtilegur. Það fer frá bjöllu-“kórnum” yfir í nettan mars þar sem að Helgi Hrafn Jónsson er einmitt með stórt hlutverk sem básúnuleikari “Sé lest” lúðrasveitarinnar. Endirinn er einnig rosalega fallega panaður, en það er eins og lúðraveitin sé að ganga framm hjá manni, mjög skemmtilegt það.

Lagið “Sæglópur” minnti mig fyrst á bara eitthvað lag með Robbie Williams eða eitthvað álíka popplag. Þetta piano-riff gæti vel passað inn í lag með Robbie eða Blue eða eitthvað álíka. Síðan koma bjöllurnar með mjög fallegan rythma, opna lagið og umturna því á einfaldan máta. Pianoið opnast síðan og fallegri hljómar byrja að myndast. Úff, síðan kemur alveg rosalega flottur kafli þar sem að trommurnar, bassinn, gítarinn og fleirra koma inn og hljómagangurinn fær að njóta sín til fulls. Skemmtilegar pælingar í slagverkinu í þeim kafla og mjög skemmtilegar pælingar í ópunum sem að óma í bakgrunn í gegnum allan kaflan. Lagið rís upp óþvingað og nær flottu droppi eftir langa uppbyggingu. Þá kemur mjög fallegt piano og smá effecta-gjörningur með. Lagið er alveg rosalega fallegt og líklega með betri lögum á disknum.

“Mílanó” er lengsta lagið á disknum eða 10 mínútur og 25 sekúndur. Það er alveg í 30 sekúndur að láta heyra í sér sem að er auðvitað mjög Sigur Rósar-legt og ekkert að því, en lagið er í langdregnari kanntinum að mínu mati. Það er fallegt, því er ekki hægt að neita, en það er lengi að fara í gang og er alveg eins allan tíman. Byggir sig upp endalaust en verður síðan ekki að neinu. Það er líka rosalega lengi að enda, og gæti alveg eins verið 6 mínútur að lengd í staðin fyrir þessar 10.

Lagið “Gong” hefur yfir sér nettan þjóðlagasvip í byrjun. Fallegar raddanir og skemmtilegt hvernig pianoið kemur inn í fiðluspilið. Pianoið breytist síðan hálfpartinn yfir í dist-gítar og síðan uppúr þurru kemur rosalega fallegur trommuleikur sem að er án efa sá besti á disknum, fær mann auðveldlega til að dilla sér með laginu. Ég á auðvelt með að gleyma mér í þessu lagi, það svífur svo fallega áfram og söngurinn kemur rosalega skemmtilega út eins og óður til Færeyja. Sé alveg fyrir mér ókynþroska Víking í múdum, standandi á Vatnajökli, öskrandi í átt að Færeyjum þessar línur sem að sungnar eru í “Gong.”

“Andvari” kemur án hiks beint eftir “Gong” og eru Sigur Rós með því lagi, tel ég, að bæta við lagi á diskinn og gera lagið “Andvara” ekki langdregið. Mér finnst þetta mjög sniðugt hjá þeim og fallega sett saman. “Andvari” er mjög rólegt, skemmtilegar taktpælingar og flott uppteknar trommur. Það er fallegur áframhaldandi fýlingur frá “Gong” út allt lagið og finnst mér það vera eiginlega bara Outro frá laginu “Gong.” Kannski vegna þess að það stendur svona uppúr og situr dálítið eftir í manni, ekki viss, en “Andvari” er mjög fallegt lag, rólegt og yfirvegað.

“Svo hljótt” byrjar jafn rólega og “Mílanó” og minnir einna helst á óæfða sinfóníuhljómsveit án stjórnanda…! Þ.e.a.s. í byrjun á laginu, og var þetta líklega meira sagt í gríni heldur en alvöru. En í alvöru, þá er þetta bara enn eitt vel samda lagið á þessum disk og í rauninni ekkert hægt að segja um það. Ótrúlega flott piano sánd og flottir hljómar sem að þeir setja saman. Fallegur söngur eins og venjulega og mjög abstract texti.

“Heysátan” kemur beint á eftir “Svo hljótt” og er í rauninni samblanda af outro-i fyrir “Svo hljótt” og outro-i fyrir allan diskinn. Það stendur alveg 100% fyrir sínu og er ótrúlega falleg leið til að enda fallegan disk. Rólegt, mjög svo. Yfirvegað, án efa. Vel sett saman, pottþétt! Fallegt bassasánd. Fallegt piano alveg í bakgrunn og ótrúlega flott reverb. Flottur söngur, váh, ótrúlega einstakur og fallegur söngur. Endirinn á laginu er líka einstakur, því að þeir spila alltaf 2 hljóma og bíða síðan mjög lengi, virkilega skemmtilegur endir sem að fær mann í rauninni bara til að heyra diskinn aftur frá byrjun, sem að ég og gerði.

Diskurinn er á heildina litið rosalega íslenskur og miklu íslenskri heldur en “()” að mínu mati. Það er eins og Sigur Rós séu komnir yfir það að ná til útlanda, komnir yfir það að reyna að verða frægari en þeir eru og eru í rauninni núna að búa til þá tónlist sem að þeir ættu að vera að gera. Lögin eru öll ótrúlega vel sett saman, vel upptekin og flest gallalaus. Ég get ekki verið annað en sáttur með þessi kaup og ætla að gefa disknum 5 af 5 stjörnum mögulegum!

Innilega til hamingju Sigur Rós!