Mér finnst stundum gaman að skoða spjallborðin hér á Huga og skoða ég þá mest tónlistarsvæðin, þá einna helst Rokk og Metal svæðin. Þar finnst mér stundum, eins og á svo ansi mörgum öðrum stöðum í Internetmenningu okkar Íslendinga sem og bara Internetmenningu yfirhöfuð, vera mikið um skítkast, fáfræði og algjöran skort á virðingu við vinnu og skoðanir annarra.

Hver er tilgangur þess að hafa svona spjallsvæði sem Hugi er í raun og veru. Hann er ekkert annað en risastórt spjallsvæði. Mönnum fer kannski ekki saman um eiginlegan tilgang eða einhvern einn ákveðinn tilgang, en að mínu viti hlýtur það að teljast einn tilganganna að fólk geti komið hér saman og fræðst um hvort annað, áhugamál hvors annars og smekk. Hér er oft að líta áhugaverðar greinar um ýmisleg fyrirbæri, í þessu tilfelli þá helst hljómsveitir eða tónlistamenn. Eftir hverjar greinar er síðan hægt að tjá sig um innihald greinarinnar og ágæti hennar, um það sem fjallað var um í greininni o.s.frv. Og þarna kem ég síðan að einu því sem mig langaði að varpa fram og reyna að skapa smá umræðu um. Eftir margar greinar koma nefninlega oft í ljós einstaklega heimskulegar og leiðinlegar athugasemdir um þann eða það sem greinin fjallaði og jafnvel um höfund greinarinnar þar sem gert að grín að honum fyrir skoðun hans. Þetta þykir mér sýna dæmi um fáfræði og virðingarleysi gagnvart skoðunum annarra sem einkenna reyndar margar þjóðir í dag og eru undiralda fjölmargra styrjalda og blóðsúthellinga.

Viljum við rækta slíkt viðhorf í þessu samfélagi okkar? Viljum við ala hvort annað upp í því að ein skoðun sé réttari en önnur og að þeim sem dirfist að vera ósammála eða þykja eitthvað, sem öðrum ekki þóknast, gott sé bara hent út, útskúfað og að viðkomandi þurfi að upplifa skítkast af ýmissi gerð?

Nú er ég vissulega ekki að alhæfa neitt, og er ég með þessu ekki að meina að fólk skuli ekki viðra sínar mismunandi skoðanir. En það er hægt að gera þetta með allt öðrum hætti (að ég tel) en verið hefur gert. Segjum t.d sem svo að einhver skrifi lofgrein um einhvern aðila sem þér finnst þvert á móti algjör sori. Þarna hefur þú vissulega mikinn rétt á því að finnast hann og það sem hann gerir sori, en þarftu að tjá þig eitthvað um það? Gætirðu ekki frekar skrifað grein um viðkomandi, þá ekki lofgrein, heldur grein þar sem þú varpar fram þínum skoðunum á málefnalegan hátt um af hverju þér finnst viðkomandi sori og allt sem viðkomandi gerir ekki þóknandi mönnum? Og hvernig væri svo að ef þú hreinlega finnur þig knúinn til að svara, að bæta við áður en þú kemur með eitthvað skítkastið “mér finnst…” eða “mín skoðun er reyndar…”, þetta gleymist oft. Og að rökstyðja síðan skoðanir sínar virðist líka ansi oft fara forgörðum.

En það eru til margar hliðar á þessu máli eins og öllum öðrum og er ég einungis að reyna að vekja fólk til umhugsunar og skapa smá umræðu um þetta.

Svo er annað mál sem ég vil koma inn á og ég tel mjög nátengt því sem ég hef nú ritað. Það er þessi ótrúlega þörf hjá sumum að ráðast gegn ákveðnum hópi fólks sökum útliti þess, tónlistarsmekk og öðru því er einkennir þau. Hvað er þetta annað en fordómar gagnvart einhverju sem viðkomandi hvorki þekkja til né skilja. Sá hópur sem ég er hér að tala um er einn fjölmargra hópa sem eru til í okkar þjóðfélagi og er sá sem tilheyrir þessum hópi oftast kallaður “hnakki.”

Ég VERÐ reyndar að koma með smá játningu. Eitt sinn fann ég þessum blessuðu “hnökkum” allt til foráttu og var einstaklega illa við þá. En maður þroskast jú með tímanum, og vil ég kanna hvort ég geti ekki opnað augu ykkar örlítið eins og mín virðast vera að gera.

“Hnakkar”, þeir sem hlusta á HipHop, þeir sem hlusta á og fylgja Goth tískunni, þeir sem hlusta á metal og ALLIR aðrir hafa sinn rétt á sínum eigin skoðunum, sínum eigin smekk og sínum eigin hugsunum um hvernig það vill lifa sínu lífi.

Af hverju þurfið þið (og nú mega bara hverjir þeir sem vilja taka þetta til sín) að láta það fara svona í taugarnar á ykkur að það séu til aðrar skoðanir en ykkar eigin? Og af hverju eru þessar skoðanir og þetta fólk svona mikið fyrir ykkur? Það sem ég er að reyna að spyrja að er í meginatriðum: Af hverju þetta skilningsleysi? Þetta er ekki bara hérna á Huga, þetta er allstaðar. Þetta er ekki bara þegar kemur að tónlist, þetta er allstaðar til og þetta er rót svo margs vanda. Og nú koma klisjurnar :o) Reynum að virða skoðanir annara, og reynum að koma fram við aðra eins og við viljum að komið sé fram við okkur.

Já, þetta er semsagt það sem ég hef verið að velta fyrir mér, og ég er nú reyndar alveg örugglega að gleyma einhverju atriðinu og eða einhverjum punktinum, en það gerist, þetta eru engu að síður meginatriðin sem ég vildi koma á framfæri og þætti mér gaman að fá vel rökstudd og mismunandi svör, þ.e ef ykkur finnst þessi grein svara virði. Ég veit að þetta var ekkert rosalega beinskeitt og svona hjá mér en allavegana… látiði vaða!
What is love? Baby don't hurt me, don't hurt me, no more…