Nú hefur borist til eyrna að hulduhljómsveitin hjálmar, sé í þann mund að hrista sig eilítið. Hún ku halda veglega upp á útgáfu hinnar rómuðu skífu, hljóðlega af stað, með veglegum hljómleikum næstkomandi laugardag.

Sveitin hefur verið að borða hollan mat og drekka mikið vatn að undanförnu, stundað heilnæma, góða hreyfingu og er nú sem aldrei fyr komin í fluggírinn. Jafnvel er ekki víðsfjarri að hún taki upp á að leika eitt eða tvö ný lög, en er það þó birt með fyrirvara. En hin hugljúfu og angurværu lög sem hún er hvað þekktust fyrir, munu að sjálfsögðu óma og mun vart nokkur ósnortinn verða.

Viljum við aðstandendur hvetja sem flesta til að líta við á grandrokki, um ellefuleitið á laugardagskvöld. Ætti þá nokkur slæðingur sveitarmeðlima að vera kominn á staðinn til að deila út skífunni góðu gegn vægu gjaldi. Ásamt því að kæta fólk og bæta með góðlátlegu gríni og almennri kurteisi.

Aðgangseyri verður og mjög stillt í hóf, og mun enginn þurfa að snúa stúrinn á braut.

Með von um að sjá sem flesta.

Kær kveðja.