BRaK - Silfurkoss Laugardaginn 11. september gefur hljómsveitin BRaK út sinn fyrsta geisladisk. Diskurinn sem nefnist Silfurkoss er 12 laga og með frumsömdum lögum eftir Harald Gunnlaugsson og Hafþór Ragnarsson. Verkið hefur verið unnið af alúð í tæp 2 ár, enda hefur löngunin til þess að skapa eitthvað nýtt átt allan hug þeirra meðlima.

Nú þegar hefur titillag plötunnar, Silfurkoss, ómað nokkuð títt á Rás tvö og svo er væntanlegt myndband við lagið Álfar á næstu dögum. Brak gefur út diskinn, en Skífan sér um dreifingu og diskinn má á næstu vikum nálgast í öllum helstu plötuverslunum.

Á plötunni koma ýmsir valinkunnir aðstoðarmenn við sögu, má þar nefna bassaleikara Jagúar, Inga S. Skúlason og sjálfan sveiflukónginn Geirmund Valtýsson sem grípur í nikkuna í einu lagi.

Lögin eru jafn misjöfn og þau eru mörg, en yfirlýst stefna Braks er að senda frá sér vönduð og grípandi íslensk popplög.
Öll lögin eru sem fyrr segir frumsamin og með íslenskum textum. Þau heita:
1. Núna
2. Álfar
3. Engill
4. Allt sem ég hef óskað mér
5. Ég er bara ég
6. Silfurkoss
7. Hrynur
8. Þessi þrá
9. Veröld veit
10. Hugmynd
11. Vinur minn
12. Konur

Nánari upplýsingar BRaK er á slóðinni: http://www.brak.tv