Á hverjum degi sé ég fleiri og fleiri dæmi sem sýna augljósa hnignun alls sem gott er í heiminum og vaxandi undirmeðalmennsku og hinna myrku afla. Ég ætla ekki að halda því fram að það sé stutt í það að fólk fari að ganga um göturnar með börn hangandi á prikum vöfðum í leifar af feldum sætra hunda en ég neita því samt ekki.

Á tímabili sem virðist vera ár og öld hefur ungur verkfræðinemi eða eitthvað álíka leiðinlegt aflað sér ofurvinsælda í heiminum, aðallega í Bandaríkjunum. William Hung ber hann sem nafn, hann ber einnig gulan bakpoka og óvenjustórt enni. Fólk dáir hann af einhverri ástæðu.

William virtist fyrst vera algjörlega dofinn af allri visku um umheiminn þegar við sáum hann fyrst á American Idol. Hann sagði brandara ef ég man rétt um það að hann væri að læra verkfræði (eða eitthvað álíka óáhugavert) og það væri fyndið því að verkfræði (eða eitthvað álíka óáhugavert) kemur söng ekkert við. Með þessu sýndi William að húmor hans væri ekki alveg uppá yfirborði meðalmennskunnar heldur meira niðri í vindlareyk fimmtaáratugarins.

Það leið ekki á löngu fyrr en William sýndi fram á að húmorinn og hinn dofni veruleiki hans væri ekki það eina sem var undir meðalmennsku. Er hann höf söng sinn og dans með tónum Ricky Martins sannaði hann í eitt skipti fyrir öll að Tiny Tim var stjarna miðað við margt annað.

Algjört hæfileikaleysi hans kom eins og snögg vindhviða í maímánuði á sjónvarpsáhorfendur um allan heim. Ekki það að einhver hafi getað ímyndað sér að þessi “rain man”-legi maður hefði vott af hæfileikum en hvernig hann náði að fela sig bakvið innantóma sjálfsblekkingu kom öllum gífurlega á óvart.

Eftir hræðilega útgáfu af laginu “She Bangs”, sem í sjálfu sér hefur náð að skelfa margan góðan drenginn án hjálpar nokkurs annars en Martins, kom á hann sakleysi sem virtist eiga meira heima hjá fjögra ára barni sem biður um sleikjó heldur en tvítugum dreng í háskóla. Dómararnir virtust ekki vita hvað þeir ættu að segja, Paula sagði eitthvað jákvætt eins til þess að auka á sjálfsblekkinguna eins og hún er svo vön.

William komst ekki áfram í American Idol. Ástæðan var algjör vöntun á hæfileikum. Margar spurningar vöknuðu samt um Hung. Hver er hann? Hvaðan er hann? Af hverju lítur hann svona út? Er hann með downsheilkennin? Er hann virkilega verkfræðinemi (eða eitthvað álíka óáhugavert)? Hvað geymir hann í þessum gula bakpoka sínum?

Þjóðin trylltist í leit sinni af svörum og á einni nóttu eða nokkrum vikum (veit ekkert hvað það tók langan tíma) varð William að ofurstjörnu. Fólk streymdi að honum, hann þurfti verði, hann fékk plötusamning, tónlistarmyndbönd, hann var pantaður til að skemmta fólki, lifandi fólki sem andar og hefur eyru, líkt og þú og ég, kæri lesandi!

Ég var nokkuð viss um að þessu mundi ljúka skjótt. 15 mínútur af frægð að hætti Andy Warhols en nei. William er enn til. Fólk hættir auðvitað ekki að vera til, ég held því ekki fram. Vanilla Ice er til að mynda ennþá til en hann lætur okkur vera. William var núna að gefa út lag og myndband. Hans útgáfu af hinu klassíska Queen lagi “We are the Champions”. Freddie var án efa góður gaur en hann er að snúa sér í hringi í gröfinni sinni akurat núna, eða væri það ef hann hefði ekki verið brenndur. Askan hans er að snúa sér við, segjum það, þó ég viti ekki alveg hvernig aska getur snúið sér við… en það skiptir ekki máli!

William er enn frægur, það er vandamálið. Ástæðan er óljós. Ég tel að hún gæti verið sú sama og t.d. þegar fólk sér sakleysislegan hund með stór augu en augljóslega morandi í bakteríum og aðeins þrjá fætur. Það vorkennir hundinum, það vill horfa á hundinn og segja “ohh, en sætur hundur (þó hann sé morandi í bakteríum og hafi aðeins þrjá fætur)”. Einnig gæti ástæðan verið sú að fólk vill sjá hluti springa, William hlýtur að vera að fela eitthvað og kannski er þetta eitthvað morðæði af hæstu gráðu. Enginn vill missa af því þegar einhver eins og William Hung fer á morðæði.

Ég tel að William hafi eitthvað að fela. Það kemur ekki til greina að gaur sem er verkfræðinemi (eða eitthvað álíka óáhugvert), ok, ég veit ekki hvað það er en það er eitthvað flókið, sé svona ótrúlega tómur um allt annað. Ef svo væri þá væri einhver búin að skrifa bók um hann eða Densil Washington væri búin að leika hann í kvikmynd. Svo er ekki raunin.

Þess vegna er ég tilbúin að leggja mikið undir að William Hung sé í rauninni að skipuleggja heimsyfiráð í töluðum orðum. Hann ætlar að sigra heiminn með sætumljótleika sínum, ótónhæfa lagaflutningi og flogalíkum dansi. Eitt land í einu mun falla fyrir þessum brögðum hans og áður en við vitum að verðum við öll á hans valdi.
Arsenal Forever!