Jæja fólk.

Áður en við byrjum að tjá okkur þá viljum við taka það fram að þegar við tölum um ólöglegt efni í þessari grein, þá erum við að tala um efni sem verið er að brjóta höfundarétt á.

STEF og Og Vodafone voru að tala um að setjast að samningaborði í Ísland í dag. Rosalega var fyndið að horfa á þáttinn þar sem þeir höfðu ekki hugmynd hvað þeir voru að tala um. Magnús Kjartansson kom fyrir hönd STEF og upplýsingafulltrúi Og Vodafone kom fyrir hönd Og Vodafone. Okkur fannst upplýsingafulltrúinn standa sig ágætlega fyrir utan að hann hafði ekki næga tæknilega þekkingu til að geta leiðrétt alla vitleysuna sem Maggi Kjartans sagði. Ég [Kristinn] þekkti Magga Kjartans þegar ég var yngri og hann var að kenna systur minni á orgel, virkilega fínn maður. Við skiljum það svosem að fólk hafi hagsmuna að gæta en okkur finnst STEF samt ekki vera neitt annað en stærsta glæpamafía Íslands og það versta er að lögin styðja þessa ræningja. Auðvitað eru þeir sem ræna höfundavernduðu efni líka ræningjar en okkur finnst samt óþarfi að láta það bitna á öllum landsmönnum, t.d. með alla þessa skatta og gjöld sem STEF fær í sinn vasa og skilar sér eflaust aldrei beint til listamannanna. Þetta er ástæðan fyrir því að við köllum STEF ræningja. Þeir fá nóg en vilja endalaust meira og nú er það nýjasta að þeir vilja skerða frelsi einstaklingsins og láta fylgjast með því hvað allir Íslendingar gera á internetinu. Hvenær ætli þeir fari fram á að hafa fullt af myndavélum á öllum heimilum?

Maggi Kjartans sagðist vita til þess að internetveitur viti nákvæmlega hvaða gögn notendur eru að sækja og sagði að það væru ekki nema kannski 4 til 5 tegundir af skrám sem verið er að flytja á milli á netinu. Hann talaði um tölur, texta, hljóð, myndir og horn ef við munum rétt. Allar skrár eru tölur en þessar tölur birtast hinum almenna notanda ýmist sem tónlist, bíómynd og þaðan af. Hefði verið réttast hjá Og Vodafone að hafa tæknimann eða einhvern þarna með í viðtalið sem hefði haft eitthvað smá vit á því hvað væri í gangi.

Maggi Kjartans vildi að internetveiturnar myndu fylgjast með því hvaða skrám fólk væri að senda frá sér og taka við á netinu (Big Brother). Internetveitur geta séð hvað fólk er að gera á netinu með því að skoða alla pakka sem það sendir. Það yrði virkilega mikið vesen að halda utan um allar logskrár og vinna úr þeim og varla hægt að vinna skikkanlega úr þeim. Í fyrstu þyrftu internetveiturnar að fá sér nægilega öflugan búnað til að geta unnið úr öllum TCP pökkum sem notendur þeirra senda frá sér eða taka við. Fyrsta vandamálið liggur í því að þeir þyrftu að gera greinarmun á hvort um sé að ræða FTP tengingar, SSH, HTTP, póstur og þaðan af. Vandamál númer tvö er það að miklu fleiri samskiptastaðlar heldur en TCP eru til, t.d. AppleTalk, IPX/SPX og svo framvegis. Öll P2P netkerfi hafa sína eigin staðla fyrir skráarflutninga sem þyrfti að gera ráð fyrir. Fólk gæti jafnvel skáldað sína eigin samskiptastaðla. Vandamál númer þrjú er að ef þú sendir gögnin þín í gegnum SSL göng, þá geta internetveiturnar einfaldlega ekki fylgst með um hvaða gögn er að ræða. Meira að segja væri nóg fyrir fólk að “zippa” skrárnar sínar og yrðu skrárnar þá óþekkjanlegar. Notendur gætu líka sent sín á milli Ogg Vorbis eða óþjappað PCM (Wave) eða einhvern annan staðal sem er ekki til eða lítið þekktur. Fjórða vandamálið yrði að það þyrfti að sigta skrárnar í sundur í leit að stikkorðum (t.d. ID númerið 0xFFFE (talan 65534 í tugakerfinu) kemur fyrir í fyrstu tveimur bætum allra MP3 skráa). Þá kæmi það vandamál upp að 0xFFFE gæti t.d. komið fyrir í miðjunni á Word skjali eða í endanum á Zip skjali svo það yrði engin leið að greina rétt frá röngu. Internetveitur geta jú séð ef þær skikka alla notendur til að nota proxy, á auðveldan hátt hvað er verið að sækja en öll samskipti milli notenda færu auðvitað aldrei eingöngu í gegnum proxy svo það yrði allt of auðvelt að fara framhjá þeirri lausn, ef lausn má kalla.

Það er alveg afskaplega heimskuleg fullyrðing að halda því fram að fólk sendi einungis nokkrar skráartegundir sín á milli, þar sem að það eina sem fer í gegnum internetið eru tölur. Alveg sama hvað fólk vill segja, þá eru þetta bara tölur. Tölurnar tákna jú vissulega texta stundum, og jújú, hljóðin eru líka hljóð - en hljóðin eru í rauninni bara tölvugerð töluleg túlkun á þeim hljóðbylgjum sem að mynda hljóðin og það er aðalatriðið í þessu: Þetta eru bara tölur. Þannig að til þess að “grípa” alla netumferð sem að passar við ákveðið mynstur þyrfti að gera sér grein fyrir því að hljóð eru tölur og tölurnar mynda hljóð þegar að þær eru túlkaðar rétt: Hverjar þessar tölur eru og hvort að hægt sé að einkenna þær á einhvern hátt, er alveg háð hentisemi þess sem bjó til hljóðskránna.

Þó svo internetveitum mundi einhvern vegin takast að gera greinarmun á þessum skrám, þá þyrftu þeir samt sem áður að skoða allar skrár handvirkt til að geta skorið úr, hvort um sé að ræða ólöglegt efni.

Ennfremur verðum við til gamans að geta að með stefgjöldunum sem voru lögð á alla tóma geisladiska og áskrifanlegt tölvutækt efni árið 2001, voru notendur diskanna í rauninni að fyrirframgreiða notkun sína á þeim til þess að geyma tónlist, með hverjum þeim hætti sem að hún væri fengin. Þar sem að gert var ráð fyrir því með lagasetningunni að ekki væri hægt að nota þessa diska á löglegan máta, þá væri hægt að segja að nú séu allir einstaklingar sem að eiga tóma geisladiska búnir að borga fyrir þá tónlist sem að þeir fá frá öðrum einstaklingum, hvort sem að um löglega (public domain) tónlist, eða illa fengið efni, sé að ræða. Hér erum við að sjálfsögðu einungis að tala um íslenska tónlist.

Við erum hálf reiðir að Stöð 2 geti verið jafn óábyrgt og raun ber vitni að senda þessa vitleysu í loftið. Þetta var hálfgerð viðvörun við internetnotendur eða léleg tilraun til að hræða þá, þar sem þeir voru að tala um að setjast að samningaborði, þó svo Og Vodafone aðilinn hefði nú helst viljað sleppa því, það sást vel á honum.

Kristinn Örn Sigurðsson [Striki/kiddisig], Smári P. McCarthy [spm].