Þegar ég horfi yfir geisladiska og plötusafnið mitt þá sé ég hvað ég á lítið af tónlist „í föstu formi”.
Um 30 vandlega valdir diskar. Radiohead, Depeche Mode, nokkrir pottþétt-diskar allt bítlasafnið á plötum ásamt ýmsu öðru.

Ég viðurkenni það að ég er með um 4,5 sólarhringa af tónlist á tölvunni minni. Mörgum sinnum meira en ég hef borgað útgáfufyrirtækjunum og tónlistarmönnunum fyrir.

Mér þykir það miður en ég hef margt annað við mína fáu peninga að gera þó ég vildi getað borgað fyrir alla þessa frábæru tónlist sem ég hef „stolið” eins og STEF vill orða það.

Mjög góður geisladiskur sem mig langar til að versla mér kostar hjá Skífunni 2.399 kr. og ef ég kaupi diskinn á Netinu kostar hann 1.919 en ofan á það leggst sendingarkostnaður og tundum er 2 fyrir 2000 tilboð í gangi sem ég nýti mér stundum.
Þennan disk get ég svo afritað yfir á tölvuna mína ef heppnin er með mér og afritað eitt eintak til að hafa með mér í skólann og í bínum svo upprunalega eintakið skemmist ekki.
-Löglegt, gott en dýrt.

En ef ég hlusta ekki á tónlist nema þegar ég er í tölvunni get ég e.t.v. verslað hana á Netinu.

Tonlist.is sem er í samstarfi við Skífuna og ýmsa aðra er fyrsti kosturinn í þeim efnum.
Fullt af dásamlegri íslenskri tónlist þar. Hafið þennan dag með Heru Hjartardóttur kostar þar 895 kr. Hvert lag kostar svo 99 kr ef maður ætlar að kaupa það stakt. Gott verð það en það er skelfilega mikið af hindrunum fyrir því að ég geti notið tónlistarinnar í gangi.
Tónlist sem er hlaðið niður af tonlist.is er á 128 kb/s Windows Media formi, ég hef ekkert sem ég get haldið á, ekkert hulstur, engan bækling. Bara lögin sem ég get ekki spilað eða afritað nema ég noti Windows.
-Kostar lítið en mig líkar ekki við þetta. Ég kaupi ekki eitthvað sem er óáþreifanlegt.

Forsvarsmenn skífunnar voru að tala um það fyrir nokkrum misserum, þegar þeir byrjuðu að setja svokallaðar key2audio-varnir á geisladsikana sem þeir gefa út að ef fólk héldi ámfram að skiptast á tónlist á Netinu þyrfti Skífan að hækka verðið á geisladiskum.

Ég sem hélt að samkvæmt markaðslögmálunum orsaki minni eftirspurn lægra verð en ekki hærra. Er það bara vitleysa í mér?
Hvað er að því að geisladiskar kosti um 1.500 kr. stykkið úti í búð?

Undirritaður er mikill tónlistarunnandi, hlustar mikið á Rás 2, mætir á tónleika eins oft og hann getur og er að safna sér pening fyrir gítar og gítarkennslu.