Já búið er að opna einhvern metnaðarfyllsta vef landsins á slóðinni www.tonlist.is
Hér eru um 20.000 íslensk lög sem hægt er að sækja, að vísu gegn endurgjaldi sem er þó ekki hátt 1595kr fyrir ótakmarkaðan aðgang að þessum lögum.
Um er að ræða flest öll íslensk lög sem hafa verið gefin út á stafrænu formi. Einnig mun markvisst vera bætt við lögum, bæði til að koma nýliðum á kortið sem og að hafa nýjustu lögin til staðar.
Markmið vefsvæðisins er að vera helsti dreifingar- og smásöluaðili tónlistar á Internetinu. Góð þjónusta er kappsmál og munu notendur geta lesið nýjar tónlistarfréttir og fleira.
Notendur hafa einnig aðgang að útvarpsstöðvum í gegnum heimasíðuna og verða þær flokkaðar eftir tónlistarstefnum
Lögin sem notendur sækja sér eru á einhvern hátt kóðuð (þetta er reyndar eitthvað sem ég er ekki alveg með á tæru hvernig virkar) þannig að ekki á að vera hægt að brenna þau á diska. Þó er hægt að borga sérstaklega fyrir möguleikann á að brenna lögin á diska.

Hér er upplagt tækifæri til að nálgast gömlu góðu íslensku lögin sem þú finnur hvergi annars staðar.
Hvað finnst svo notendum Huga um þetta?

Persónulega held ég að þetta eigi eftir að verða vinsælt þá sérstaklega þegar ennþá þarf að borga 2000 kall fyrir gamla íslenska diska. Hins vegar er spurning hvort að endurútgáfa á íslenskum diskum lamist ekki í kjölfarið á svona vef. Tek Megas sem dæmi um síðustu jól voru gefnir út nokkrir af hans gömlu diskum í betri hljóðgæðum o.s.frv. Nú verður væntanlega hægt að fá öll þessi lög á vefnum, og er það vel frá mínum bæjardyrum séð ;)

Þess má svo geta að greinin er unnin eftir heimildum frá tonlist.is