Núna á síðustu tímum hafa plötuútgefendur náð að sýna slíka markaðskænsku að þeir eru farnir að selja okkur, plötukaupendum, afganga og sorp. Ekki nóg með það, þá eru þeir líka búnir að fá okkur til að halda að við séum að gera kjarakaup!

Sjálfur hef ég allt of oft fallið í þessa gryfju þessara útsmognu mógúla, en nú er nóg komið! Ég er búinn að fá nóg af einhverjum límiðum sem eru næstum jafnstórir og plötuumslagið sjálf og stendur eitthvað líkt þessu á:

“The New CD by (insert band name here) featuring extra bonus hidden tracks (never before released in Europe, Asia or Australia), two new remixes by former members of Underworld AND a bonus DVD disc featuring over 5 minutes of brand new material.”

Nú spyrja eflaust einhverjir, hvað er svo sem að því að fá nokkur aukalög með?

Til að byrja með verða þessir aukadiskar til þess að hækka sjálfa plötuna um allt að 1000 kr. fyrir einhver tvö myndbönd! Og það er klárlega of mikill peningur fyrir eitthvað afgangs efni sem er ekki nógu gott til að komast á alvöru DVD disk.

Svo er það með þessi aukalög, orðið sjálft ætti að segja nóg. Eitthvað sem að er ekki aðal. En samt eru þau gefin út á plötunum.

Og af hverju skyldi það vera?
Jú, vegna þess að við erum líklegri til að kaupa plötuna ef við trúum því að við séum að nálgast einhvern ómetanlegan safndisk.

En staðreyndin er að þessar “Limited Edition” eru orðin að aðalupplaginu, þeir eru til í búðum mánuðum saman eftir fyrstu útgáfu. Og innan tíðar verður örugglega erfiðara að nálgast eintök ÁN bónuslaga!

Svo skemmir þetta náttúrulega algjörlega heildarmynd plötunnar, síðasta lagið er ef til vill einhver tíu mínútna ópus og svo kemur einhver dubbuð live útgáfa á eftir því!

Nú svara örugglega einhverjir því að aukalagið á Nevermind sé snilld, falda lagið á Around the Fur sé alveg rosalegt o.s.fr og það getur meira en vel verið.
En núverandi ástand er náttúrulega komið langt út fyrir það. Þetta er spurning um prinsipp, hvað er verið að selja okkur og hvaða aðferðir eru notaðaðar til stýra okkar neyslu?

En verst af öllu eru þó þessar best of.. plötur með NÝJUM lögum!

Ein slík plata heitir hreinlega best of 1990-2000 og svo þegar að er gáð eru þar fjölmörg lög með copyright 2002, hvaða rugl er það?
Ef maður ætlar að fara að kynna sér feril hljómsveitar þá fær maður einhver ný lög með, á kostnað gamalla stórsmella. T.d. er Greatest Licks með FJÓRUM nýjum lögum en ekki t.d “Time Is on My Side” eða “2000 Light Years From Home” Ef að ég vil heyra ný lög með einhverri hljómsveit, þá kaupi ég mér NÝJA plötu með þeirri hljómsveit.

Og hvað getum við gert? Ekki nokkurn skapaðan hlut. Við erum búin að gleypa við þessu, þetta er komið inn í vitund okkar sem ákjósanlegur hlutur og við munum halda áfram að borga moldríkum plötuútgefendum fyrir afganga. Eða hvað?