Um þessar mundir virðist vera almennur skortur á hæfileikaríku fólki til að gagnrýna tónlist í íslenskum fjölmiðlum. Allavega eru í hverju blaðinu á eftir öðru, fólk að fara með tóma vitleysu, rökleysu og smekkleysu. (reyndar hefur morgunblaðið verið með góða gagnrýnendur um nokkurn tíma)

En í ÖLLUM öðrum blöðum er þetta fólk yfirleitt vanhæft til að stunda vinnu sína, af einni ástæðu eða annari.

Í einhverju feministablaði sem var dreift fyrir skömmu las ég gagnrýni á tvær plötur eftir landskunnan tónlistarmann. Það náttúrulega gengur ekki upp! Ætti ekki að vera hægt að finna óháða aðila í þessu landi? Eru allir skrifandi menn hérlendis í hljómsveit?

Með fullri virðingu fyrir hans tónlistarhæfileikum, þá er þessi maður enginn penni. Stíll hans er ómálefnalegur og það eina sem hægt er að lesa úr hans gagnrýni er að honum finnst Pearl Jam og Audioslave góðar hljómsveitir. ( þess má einnig geta að fyrsta plata Pearl Jam hét “Ten” ekki “Alive” og Riot Act var þeirra sjöunda stúdíóbreiðskífa.)

Eins með fréttablaðið, þó að sá blaðamaður skrifi fínan stíl, er hann samt starfandi tónlistarmaður. Og þess vegna á hann ekkert með það að skrifa um annara tónlist.

Sú blessaða kona sem skrifar fyrir Undirtóna ætti nú að íhuga að fá sér aðra vinnu, eða allavega að reyna að sinna þessari betur. Í einhverri gagnrýni sem ég las um daginn sagði hún að Brian May hefði verið í Queens of the Stone Age… svona lagað eiga fjölmiðlar ekki að láta frá sér.

Fókus gagnrýnendur taka yfirleitt einhverja óþekkta raflistamenn og gefa þeim fimm stjörnur.

Sánd eru þeir heimskustu af þeim öllum: þeir virkilega fá til sín gesta-gagnrýnendur, en kynna þá samt sem blaðamenn Sánd. Þeir fá Pál Óskar til að gagnrýna Leoncie og auðvitað gefur hann henni góða dóma. Ég veit ekki betur en að hann hafi bara spilað með henni á plötu. Hvernig getur fólk ætlast til að fá sanngjarna gagnrýni þegar gagnrýnandinn og tónlistarmaðurinn eru vinir? Eða yfirlýstir aðdáendur?

En flestir eiga þessir gagnrýnendur það sameiginlegt að þeir byrja á því að eyða hálfum pistlinum í að rekja sögu hljómsveitarinnar (og oft með staðreyndarvillum), svo fara þeir að tala um hvernig síðasta plata hljómsveitarinnar var, margir byrja á að lýsa skoðun sinni á listamanninum (t.d. “Ég hafði nú aldrei gaman af…”) Og svo kemur ein málsgrein eða kannski tvær um plötuna sjálfa.

Sjaldan er minnst á útsetningar, sánd á plötunni, pródúseringar, lagasmíðar, textagerð, umbrot, frágang eða neitt slíkt.

Er það virkilega eina sem við viljum að einhverjir landsþekktir tónlistarmenn gefi uppréttan þumal?