Ég fór um daginn í Hljómalind, og keypti
mér nýju plötuna hennar Beth Gibbons, söngkonunar úr Portishead.
Ég hafði nákvæmlega enga hugmynd um hverskonar tónlist þetta
væri, en þar sem Portishead er svo mikið snilldar band gat ég ekki látið þetta fram hjá mér fara. Eftir að hafa hlustað á þessa plötu erég alveg á því að Beth Gibbons sé besta söngkona sem uppi hefur verið.


Platan heitir Out of season og er fyrsta sólo plata Beth. Samstarfsaðili Beth kallar sig Rustin Man, en heitir í raun Paul Webb (Talk Talk).

Fyrsta lag plötunnar, Mysteries byrjar á nokkurskonar lo-fi digital vind hljóði sem er svolítið skemmtilegt því að þetta er mjög svo “down to earth” plata líkt og Nick Drake og jafnvel Donovan. Þetta er virkilega nice lag, dramatískt án þess að vera klisjukennt, þar sem yndisfríð rödd Beth fær að njóta sín mjög vel.

Tom the model, annað lagið á plötunni er mjög drungalegt til að byrja með en umbreytist svo hreinlega í soul, í anda soul tónlistarinnar sem einkenndi áttunda áratuginn svo eftirminnilega, brassar og læti. Allt mjög smekklegt.
Frábært lag.

Show er hinsvegar aðeins öðruvísi þar sem Beth er í virkilega svölum óldís fíling og beytir röddinni á all svakalegan hátt. Ég var lengi að ná mér eftir rosalega gæsahúð í fyrsta skiptið sem ég heyrði þetta. Minnti mig svolítið á Thom Yorke í laginu “you and whose army” af Amnesiac.

Romance er einnig í þessum óldís fíling en hallar aðeins meira í áttina að Burt Bacharach. Ef Burt Bacharach hefði verið þunglyndissjúklingur á sjöunda áratuginum þá hefði hann verið að gera svona tónlist.

Fimmta lagið á plötunni Sand River er að mínu mati besta lagið á plötuni, virkilega kúl lag þar sem Bacharach áhrifin eru einnig til til staðar. Sönglínan er rosaleg. Maður fær hana á heilann um leið og það er ekki nokkur leið að losna við hana. Persónulega vil ég ekki losna við hana.

Í sjötta laginu, Spider Monkey, erum við komin í aðeins myrkari og
angaþrungnari slóðir þar sem lagið keyrist áfram af gítar og rhodesslætti. Beth syngur líkt og hún hvísli nótunum frá sér.

Resolve er stutt og laggott. Það samanstendur af gítarplokki og rödd Beth. Sorglegt lag þar sem sönglínan og textinn gæti gert mauk jafnvel úr hörðustu rokkurum. “ Time rolls as days go by/and now i´ve figured That I ain´t gonna last/Summer skies are leaving me behind”.

Drake er mjög flæðandi lag þar sem trommurnar eru stroknar af burstakjuðum og framleiða einskonar sjávarhljóð. Þetta er frekar djassað lag, kontrabassi og tiheyrandi. Einnig er munnhörpulína sem er í fyrstu sýn svolítið out of place en er samt sem áður alveg geðveik. Minnir mig á köflum á Calexico.

Funny Time of Year byrjar virkilega smooth og þunglyndislega en þróast svo meira í blús sem er mjög lúmskt en virkilega kúl. Þegar líður á lagið byrjar að færast meira fjör í leikinn, söngurinn hjá Beth stigmagnast og nær loks hámarki og allt verður hádramatískt, gæsahúð dauðans. Snilld.

Síðasta lagið á plötunni ber nafnið Rustin Man, sem er mjög væntalega skýrskotun í Paul Webb. Þetta lag er meira pródúserað heldur en hin lögin og er erfiðara að melta. Það sem er mjög flott við þetta lag er hvernig allt er endurtekið eins og rispuð plata, en meikar samt alveg fullkomið sense fyrir mér.

Það er mjög skemmtilegt hvernig platan endar og byrjar á digital nótunum þegar platan er í raun mjög jarðbundin. Þetta er snilldar plata hjá þeim Beth Gibbons og Rustin Man, ég mæli eindregið með að allir kaupi sér eintak,
eða biðji um hana í jólagjöf.

Dómur: *****/*****