Ekkert Bullshit! (the No BS bike) Formáli:
Ég tók þessa grein niður af netinu, fannst hún áhugaverð, og þýddi hana. Að vísu held ég að þessi maður hafi rétt fyrir sér, en það er málinu óviðkomandi. Vinsamlegast ekki drulla alveg rosalega yfir mig fyrir að hafa birt þessa grein.
Bleiknefur
———————————————————-

“Ekkert BS hjólið” (bs=bumbu-stýring eða líkamsstjórnun, líka “Bull-Shit” á ensku, og “body steering”)


“Réttu”-bræður:
Það ætti ekki lengur að koma mér á óvart að sumir hjólarar eru enn í vafa um hvernig þeir eiga að stýra tækjum sínum, en það er einmitt staðreyndin. Jafnvel núna, 90 árum eftir að Wright bræður uppgötvuðu það, eru margir sem ekki skilja hvernig það virkar. “það” heitir öfugstýring.

Já, fyrstu tilraunir þeirra til að hanna hluti tengdust reiðhjólum; hinir stórsnjöllu bræður fundu það út að Tandem-farartæki (eitt hjól fyrir framan annað hjól) öfugstýra. Þetta var rétt þá og er enn rétt.

Uppruni ruglings:
Það er auðvelt að skilja hvernig ruglingurinn verður til fyrir alla þá sem byrja að hjóla á venjulegu reiðhjóli. Að stýra er svo létt að það er erfitt að greina muninn á því að halla sér inní beygjuna (flutning massa), og þá litlu hreyfingu sem þarf til að öfugstýra.

Sveiflustýring:
Það er næstum fyndið að sjá hjólara sem skilur ekki hvernig hann stjórnar hjólinu sínu. Þú sérð þá keyra niður Ártúnsbrekkuna, reyna að skipta um akrein með því að “bumbustýra” (líkams-stýra) hjólinu, mistakast og samt vera kúl á meðan. Þetta gerist svona: ökumaðurinn sveiflar efri helmingi búksins í þá átt sem hann vill beygja en í augnablik gerist ekki neitt. Það er alveg greinilegt hik milli sveiflu efri hluta búksins og þar til hjólið fer að beygja. Það hlýtur að vera hræðileg tilfinning að finna að hjólið bregst ekki samstundis við.

Stífur til að stýra:
Það sem fylgir búksveifluni er það að búkurinn stífnar. Þá loksins fer hjólið að beygja og skipta um akrein. Skilurðu hvernig þetta virkar? Líkami ökumannsins er ekki lengur í miðjuni, heldur hallar i átt að þeirri akrein sem hann ætlar að skipta yfir á. Þegar hann stífnar upp þá byrjar hann að öfugstýra, því hann hefur annaðhvort ýtt á innra haldfangið eða togað í það ytra, eða bland beggja. Það að hann stífnar upp er vægt hræðsluviðbragð. Margir hjólarar hafa lært að lifa með þessu hiki, og halda að þetta sé bara eðlileg hegðun hjólsins. Þetta er rangt, mótorhjól bregst samstundis við öfugstýringu.

Óljós tækni:
Hjólarar luma á ýmsum skýringum, sem eru óljósar og erfitt fyrir þá að útskýra, sem eiga að útskýra hvernig heyfing efri búksins framkallar þessa svokölluðu “bumbu”-stjórnun. Að kasta sér til á hjólinu (Sveiflan) er ein skýringin. Sumir segja að þeir ýti bara fastar á pedalann þeim meginn sem snýr í þá átt sem þeir ætla að beygja í. Sumir þykjast beygja hjólinu með því að þrýsta hnénu á bensíntankinn og “ýta” hjólinu í þá átt sem þeir vilja fara. Sumir halda því fram að þeir noti bland af þessum aðferðum eða einhverja sem ekki er nefnd hér.

Fáum þetta á hreint:
Mín von er sú að gera hjólatúra einfaldari og öruggari og losa ökumenn við rugling í sambandi við stjórnun. Allur misskilningur veldur því að ökumaður hefur minna vald á tækinu (eins og hikið frá “sveifluni” og þar til hjólið fer að skipta um akrein) og minna traust,i því hjólið gerir ekki strax það sem þú villt að það geri þegar þú villt að það geri það. Hjólarar þola ekki efa en elska traust.

Ég hef ákveðið að gera einfalda vísindalega tilraun milli líkamsstjórnunar og öfugstýringar mótorhjóls. Ég vonast til að allir sem sjá, eða fá að prófa hvernig á í alvöru að stjórna mótorhjóli muni auka lífslíkur sínar verulega í hættum 21. aldar umferðar. Stjórnun verður að fara fram og það af öryggi ef ökumenn eiga að geta sneitt framhjá þessum hættum.

Álit sérfræðinga:
Ég var sjálfur úti á þekju hvað varðar líkamsstjórnun. Atvinnuökumenn héldu því fram að þeir beittu henni í einhverjum mæli til að auðvelda stjórnun og jafnvel keppnisökuskólar hafa “kennt” líkamsstjórnun í einhverjum mæli. Vegna þessa orðspors var ég efins um að ég hefði rétt fyrir mér, kanski var eitthvað til í þessu. Ég hata að missa af einhverju.

Tilraunirnar:
Eftir að hafa prófað að stíga fastar á pedalana, þrýsta á tankinn og hreyfa mig til á hjólinu framkallaði það ekkert sem ég myndi kalla “að stýra”. Með öðrum orðum; ekkert sem gæti nýst í neyð til að fleygja hjólinu með valdi í gegnum beygju eða gegnum röð af hindrunum.

Að lokum datt mér í hug aðferð til að útiloka allan misskilning á þessu.

Lausnin:
Búa til hjól sem hefði tvö sett af haldföngum. Eitt sett er normal og stýrir hjólinu, en hitt væri soðið fast á hjólið og hefði engin áhrif á framgafflana. Samkvæmt minni kenningu myndi þetta taka af allan vafa, og ég hafði rétt fyrir mér.

Hjólið:
Ég breytti Kawasaki ZX 6R þannig að ég sauð fasta á grindina haldföng 15 sentimetrum fyrir ofan venjulegu haldföngin. Með því myndi vera hægt að sjá greinilegan mun milli líkamsstýringar og öfugstýringar. Ef líkamsstýring hefði einhver áhrif þá myndi það sjást greinilega. Til að geta haldið uppi hraða á götuni varð ég að hafa virka bensíngjöf á báðum stýrunum, og það tókst mér að leysa.

Ekki líkamsstjórnun:
Þegar þetta er skrifað hafa næstum 100 mótorhjólamenn af öllum styrkleikaflokkum prófað hjólið mitt. Það hefur sannfært þá alla um réttmæti kenningarinnar um öfugstjórnun.

Á 20-35 mílna hraða skipti engu máli hversu fast þú ýtir á pedalann, tankinn eða hoppar og sveiflar þér um á hjólinu, það eina sem við sáum að hjólið varð kanski örlítið óstöðugt. Beygði það? Í raun ekki. Beygði það á meiri ferð? Alls ekki.

Bestu niðurstöðuna fékk ég frá einum kennara sem prófaði. Hann hékk öðrumegin á hjólinu og hoppaði og fékk hjólið til að gera eitthvað sem líktist risabeygju, svipað og hjá olíuskipunum; byrjað að beygja um hádegi og vera enn að klukkan eitt. Ekki falleg og ekki áhrifarík beygja.

Í dag er þetta hjól kallað “Ekkert BS” hjólið. Það er ekki vafi í huga nokkurs manns sem fær að prufukeyra það að þeir hafa verið að öfugstýra allan tímann. Ekki minnsti vafi.

Það var hægt að heyra hjólamenn, sem trúðu á líkamsstjórnunaraðferðina, hlæja inní hjálmum sínum í 100 metra fjarlægð þegar þeir fengu loks þessi föstu haldföng í hendurnar og reyndu að “bumbu”-stýra hjólinu. Ekkert BS!

Hættuleg blekking:
Ef þú kafar ofan í kjölinn á þessu þá sérðu að ökumenn sem trúa enn á og “nota” líkamsstjórnun eru að tileinka sér aðferðir sem geta leitt til tjóns, jafnvel dauða.

Það er mjög óráðlegt að bæta við aðgerðum ofaná venjulegar stjórnunaraðferðir. Þegar þörf er á snöggum, öruggum hreyfingum til að forðast eitthvað þá gæti hikið sem líkamsstjórnun hefur í för með sér rænt frá þér möguleikanum á að forðast hættuna.

Með því að bæta 0.2 – 0.5 sekúntum við viðbragðstímann á 100 kílómetra hraða ertu búinn að bæta 5 – 14 metrum við vegalengdina sem þú ferð áfram áður en þú ferð að beygja frá púströrinu sem er á veginum fyrir framan þig.

Ef fram sem horfir verður örugglega að finna límmiða á flestum mótorhjólum í ekki svo fjarlægri framtíð…….

AÐVÖRUN: ÞETTA FARARTÆKI ÖFUGSTÝRIR. EF ÞÚ KANNT EKKI AÐ ÖFUGSTÝRA ÞÁ SKALTU EKKI KEYRA. LEITAÐU AÐSTOÐAR HJÁ VIÐURKENNDUM ATVINNUKENNARA.

Nautastjórnun
Enn ein aðferðin við að stjórna hjóli er þannig að þú reynir að “snúa” hjólið í beygjurnar. Þetta er furðuleg blanda sem samanstendur af því að toga annað haldfangið niður og ýta hinu upp líkt og þú værir að reyna að snúa niður naut í nautaati. Þetta framkallar nákvæmlega engin viðbrögð hjá hjólinu.

Niðurstöður
Stjórnun mótorhjóls byggist á því að ýta á haldfangið sem snýr inní beygjuna, toga í það haldfang sem snýr útúr beygjuni, eða bland þessara aðferða. Þetta er eina aðferðin sem nothæf er til að stýra mótorhjóli hratt, af öryggi, skilvirkni og mýkt.

Aðeins þetta og ekkert annað. Ekkert Bullshit, ekkert BS!
Keith Code
www.superbikeschool.com