Rossi heimsmeistari í MotoGP Valentino Rossi á Yamaha, tryggði sér heimsmeistaratitilinn í MotoGP mótorhjólamótaröðinni fjórða árið í röð með sigri í ástralska kappakstrinum. Aðeins ein keppni er eftir í mótaröðinni og hefur Rossi 35 stiga forskot á Sete Gibernau þegar aðeins 25 stig eru eftir í pottinum. Kappaksturinn var mjög spennandi og réðust úrslitin ekki fyrr en í síðustu beygjunni eftir einvígi Rossi og Gibernau nær alla 27 hringina.

Titillinn er sá fyrsti hjá Yamaha síðan Wayne Rainey varð heimsmeistari árið 1992 en atburðurinn er enn merkilegri fyrir þær sakir að Rossi er aðeins annar maðurinn í sögunni sem nær því að verða heimsmeistari tvö ár í röð með sitt hvorum framleiðandanum. Með þessu skráir Rossi nafn sitt á spjöld sögunnar en hann skipti yfir til Yamaha frá höfuðandstæðingnum Honda við lok síðasta árs. Að auki sló Rossi gamalt Yamaha met með því að vinna 8 mót á sama keppnistímabilinu.

“Þetta er stór dagur fyrir okkur, við bjuggumst ekki við þessu”, sagði Rossi, fjórfaldur MotoGP meistari en hann var einnig heimsmeistari í 125cm3 og 250cm3 mótaröðunum árin 1997 og 1999. Með sigri sínum var Rossi á verðlaunapalli í 100. skiptið af 139 mótum og er hiklaust kominn í raðir bestu akstursíþróttamanna allra tíma, aðeins 25 ára að aldri. Heimsmeistaratitillinn með Yamaha er Rossi ekki síst mikilvægur fyrir þær sakir að ekki var búist við að honum tækist að landa honum eftir að vera MotoGP meistari 3 ár í röð með Honda.

Eins og ávallt í MotoGP var mjótt á munum í ástralska kappakstrinum. Loris Capirossi á Ducati, sem var þriðji á ráspól, fór fram úr Rossi og Gibernau, sem ræstu annar og fyrstur, strax á fyrstu metrunum. Skömmu seinna komst Gibernau fram úr Capirossi með djörfum frammúrakstri og á sama tíma komst Troy Bayliss á Ducati fram úr Rossi sem þýddi að hann var kominn í fjórða sætið. Með ótrúlegum akstri tók Rossi fram úr báðum Ducati hjólunum í einu strax á fyrsta hring og eftir það hófst einstakt einvígi Rossi og Gibernau. Skiptust þeir á að hafa forystuna nokkrum sinnum en einvíginu lauk með því að Rossi tók fram úr Gibernau í síðustu beygjunni og kom í mark 0,097 sekúndum á undan. Annað sætið hefði dugað Rossi til að tryggja sér heimsmeistaratitilinn en sigur á helsta keppinautnum var of freistandi til að láta hann renna úr greipum. Loris Capirossi náði þriðja sætinu 10,486 sekúndum á eftir Rossi og er það besti árangur Ducati á tímabilinu.