Fólk sem ætlar að kaupa mótorhjól er mikið að spá í hvað er best að fá sér, sérstaklega ef það er að kaupa fyrsta hjólið.

Prófanir hjá hinum ýmsu tímaritum eru ágætis byrjunarreitur, stundum eru þeir aðilar ekki alveg sammála en yfirleitt er niðurstaðan svipuð. Staðreyndin er hinsvegar sú að mótorhjól eru í dag flest orðin það góð að þessar niðurstöður eru oft byggðar á einhverjum smáatriðum, sem mjög oft skipta hinn venjulega hjólamann engu máli.

Sem dæmi má nefna nýlega prófun tímaritsins Dirt Bike á 450cc krosshjólum.
KTM 450SX var eitthvað aðeins að missa gripið á fullri gjöf á ákveðnu undirlagi vegna uppsetningar á afturfjöðrun, annars hefði það unnið, það hvernig Yamaha YZ450F skilar aflinu þreytir ökumanninn hraðar en KTM eða Honda annars hefði það unnið, einhver verður samt að vinna og Honda CRF450R gerði það. Þýðir þetta að Hondan sé miklu betra hjól en hin ? alls ekki, þetta eru allt gríðarlega góð hjól, en við þessar aðstæður, á þessum degi, og með þessa ökumenn var þetta niðustaðan. Ef bara einum þætti í prófuninni er breytt gæti röðin snúist við.

Annað dæmi eru GSXR1000, Yamaha R1 og Honda CBR954RR. Þetta eru allt virkilega skemmtileg og vel smíðuð hjól. GSXR1000 hefur verið besta brautarhjólið í þessum hóp, og það hraðskreiðasta sem að mínu mati skiptir akkúrat engu máli hér á Íslandi, eina brautin sem við höfum er bein og ekki mjög löng, og hvort hjól nær 260 eða 270 km hraða er ekki höfuðatriði á íslenskum þjóðvegum. Þetta hjól hefur hins vegar krafist meiri hæfni af ökumanninum heldur en hin tvö og það gæti skipt töluverðu máli þegar reynslulitlir ökumenn kaupa hjól í þessum flokki, það að reynslulitlir ökumenn séu á svona hjólum er náttúrulega út í hött en gerist því miður öðru hvoru, og öll þessi hjól krefjast töluverðrar reynslu og þroska ökumanns.

Það sem fólk ætti að gera er að fara á milli umboða og prófa að setjast á öll þau hjól sem koma til greina, þau passa nefnilega misvel fyrir fólk. Fjarlægðir á milli sætis og stýris/sætis og fótstiga skiptir miklu máli varðandi það hvernig viðkomandi líður á hjólinu, og geta einnig skipt miklu máli varðandi stjórn hjólsins, sérstaklega fyrir byrjendur. Svo er þetta með vélarstærðina, ekki veit ég hvað umboðin eru að ráðleggja fólki í þessum efnum en samkvæmt könnunum verða of mörg slys vegna þess að viðkomandi ræður ekki við hjólið sem hann/hún er á.

Svo er það þetta með umboðin, það ætti fólk að skoða mjög vel.
Það eru umboð hér á landi sem eru með verðlagningu og/eða biðtíma eftir varahlutum sem eru langt fyrir utan allt velsæmi. Það er ekkert vitlaust að taka saman smá lista yfir helstu slithluti og hluti sem geta skemmst ef að hjólið fer á hliðina og fá verð á þessum hlutum hjá umboðunum, og ef þeir eru ekki til, fá að vita hvað það tekur langan tíma að fá þá. Þetta skiptir miklu máli hérlendis ef fólk getur ekki séð um að fá þetta að utan sjálft, hér er bara einn umboðsaðili fyrir hverja tegund þannig að ekki hjálpar samkeppnin til.

Honda, Yamaha, Suzuki, Kawasaki, KTM og Aprilia eru allt mjög góð hjól, og að mínu mati er fólk að kaupa rétt hjól hjá þeim öllum. Málið er bara að finna það sem passar best fyrir mann sjálfan, vera ánægður/ánægð með það og fara varlega.