Velkomin í fullkomnun: Guild Wars 2
Sælir MMO aðdáendur sem og áhugamenn

Eftir að hafa spilað Guild Wars 2 núna um helgina get ég vart orðum bundist. Fátt er hægt að segja annað en að Guild Wars 2 sé jafnt tæknilegt kraftaverk sem og brautryðjandi í heimi MMO leikja. Já, ég sagði brautryðjandi, enda er tilfinningin sú að maður sé að prufa eitthvað algjörlega nýtt og framandi.

Til að útskýra nánar er best að segja stuttlega frá kynnum mínum af MMO leikjum. Ég byrjaði að spila MMO þegar að Ultima Online, fyrsti MMO leikurinn var nýkominn út, c.a. '92 -´94. Eftir það hef ég spilað fjölda MMO leikja og hef í raun aldrei tekið mér hlé frá þeim síðustu 18 árin eða svo, þótt virknin hafi að sjálfsögðu verið mismikil.

En aftur að leiknum. Af hverju dásama ég hann svona mikið?

Erfitt er að svara þessari spurningu, því til þess að gera það þarf maður að brjóta leikinn niður í einingar til þess að útskýra, en það er í raun summan af einingunum sem gerir leikinn svo magnaðan, hvernig einingarnar vinna saman og bæta ofan á hverja aðra. En tölum aðeins um einingarnar:

Grafík. Byrjum á því einfalda. Leikurinn er ótrúlega flottur. Þegar stillt í botn er grafíkin sláandi flott. Sjálfur er ég með "Eyefinity" setup (3 skjáir, 5760x1080 upplausn) og er vart hægt að segja annað en að maður sé mættur á staðinn, hvort sem er í köldu, norrænu og heimakæru landslagi Norn kynþáttarins, hróstrugu og járnlögðu umhverfi Charr dýranna, eða ekru- og skóglendi mannanna.



Persónusköpun. Þessi leikur líkt og flestir MMO leikir í dag býður upp á möguleikann á að sérhanna útlit sitt. Margt er í boði sem tryggir það að allir geti litið mismunandi út ef þeir svo óska. Einnig er hægt að sleppa þessu ferli og fá leikinn til þess að velja útlit á þig af handahófi. Persónurnar þjást þó allar af fegurðarheilkenni líkt og í flestum af þessum leikjum. Þó má sjá einn og einn NPC með úfið hár eða væna skeggmottu ("Non-Player Character") sem virðist ekki beint af Guði gotinn.

Sagan. Leikurinn hefur einstaklingsmiðaðan söguþráð, þ.e. þú ákveður hvaðan þú kemur, hvernig persónuleikinn þinn er í megindráttum og hvaða guði þú aðhyllist. Allt þetta mun hafa áhrif á einstaklingssögu þína, bæði eftir bakgrunni og eftir þeim ákvörðunum sem þú tekur. Allt þetta gerir það að verkum að þú tengist sögunni betur og persónunni þinni.

Leiðangrar (Questing) og samspil spilara. Ef þú hefur spilað aðra MMO leiki veistu hvað leiðangrar geta verið þreytandi. Maður þarf að fara og tala við NPC, oft lesa langan texta ef maður vill vera með í sögunni, hlaupa á staðinn, gera það sem ætlast er til af manni og koma svo til baka til þess að fá verðlaun. Oft er einhverjir aðrir að vinna verkefnið og maður þarf að bíða eftir að þeir eru  búnir. Þá þarf maður oft að bíða eftir því að óvinurinn sem maður átti að útrýma "kveikni til lífs" á ný o.s.frv.. Allt svona vesen er liðin tíð í Guild Wars 2. Þjáningar og vandi heimsins sem bíður þín bak við stokka og steina er einmitt þar að finna! Þú kannski rambar inn á nýtt svæði og þar eru þrír jötnar að ráðast á ferðamann og vagninn hans. Þú færð skilaboð sjálfkrafa um hvað þú þarft að gera til þess að bjarga manninum og vörunum hans. Kannski áttu að drepa jötnana eða hlaupa í bæinn sem er nokkra metra frá og kalla á hjálp. Ef aðrir koma að þessu á meðan þú ert í miðjum bardaga, þá vonaru að þeir aðstoði, því þeir stela ekki neinu frá þér fyrir vikið. Þvert á móti, þá held ég að þeir fái bónus stig fyrir að aðstoða þig! Þegar að búið er að fella jötnana færðu vanalega bréf í pósthólfið þitt þar sem þér er þakkað fyrir af manninum sem hélt lífi vegna þess að þú og aðrir spilarar heimsins komu honum til aðstoðar. Einnig fylgir bréfinu oft verðlaun, t.d. peningar eða einhver hlutur.

Sem sagt, fólk þvælist ekki lengur fyrir hvert öðru í heiminum. Allir hjálpast að og græða á því. Hversu mikið þú lætur til þín taka í bardaganum er metið og svo færðu orðu þegar að verkefnið klárast, annað hvort brons, silfur eða gull. Allar orðurnar innihalda karma stig, sem er ákveðið form af gjaldeyri, reynslustig (e. experience points (XP)) og peninga, mismikið eftir orðu (brons > silfur > gull).

Hvað þýðir þetta? Jú, þetta þýðir margt. Þetta þýðir að þú ert alltaf með fólki í hóp sem spilar saman þótt þú ferðist einn. Þetta þýðir að leiðindi eru nánast því engin á milli spilara því þú getur aldrei skemmt fyrir öðrum, bara hjálpað til. Þetta þýðir að í stað þess að eyða endalausum tíma að hlaupa fram og til baka til að ná í og skila af þér verkefnum þá finnuru og lýkur verkefnum með því að ferðast um þennan magnaða heim, þarft aldrei að stoppa til þess að gera eitthvað leiðinlegt eða til þess að skila einhverju af þér nema hjá manni í nágrenninu. Þetta þýðir margt annað skemmtilegt sem er einfaldlega ekki mögulegt að telja upp hér.




Bardagakerfið og fráhvarf frá hinni "heilögu þrenningu". Bardagakerfið er fátt annað en byltingarkennt. Í fyrsta lagi er ekki lengur hin "heilaga þrenning" MMO leikja, þ.e. sérhæfður læknir (healer), vörður (tank) og árásarmaður (damage dealer (DPS)) Allir hafa takmarkaða getu til þess að lækna sjálfan sig. Einnig hafa geta allir endurlífgað, þannig að bardaginn tekur á sig óþekkt form frá því sem áður þekkist í MMO leikjum. Sjálfur hafði ég áhyggjur af þessu, að bardaginn yrði of einfaldur, en svo var ekki. Þvert á móti gat þetta gert hluti erfiðari en áður því að ef þú varst búinn að nota sjálfslækninguna, þá ertu mjög viðkvæmur oft á tíð og takmarkaðar leiðir til þess að lækna sig. Einnig tekur langan tíma fyrir spilara að vekja þig til lífs á ný, eitthvað sem gefur óvininum nægan tíma til þess að útrýma þeim sem það reynir.

En hvað þýðir þetta? Jú, allir eru nokkuð sjálfstæðir. Allir hafa leiðir til þess að gera skaða í nálægð, sem og í fjarska. Flestar týpur (classes) geta skipt um vopn í miðjum bardaga og opnast þá nýir hæfileikar (skills) til þess að vinna á andstæðingum sínum. Þeir sem ekki geta skipt um vopn í bardaga hafa aðrar leiðir til þess að opna á nýja hæfileika, t.d. getur verkfræðingurinn (engineer) skipt á milli verkfærasetta, t.d. milli bomba eða fallbyssa af ýmsum gerðum.

Einn mikilvægasti þátturinn í nýja bardagakerfinu er að það er ekki bundið við það að þú festir mið þitt á einhvern (lock on) til þess að geta gert árás á hann. Því getur þú hoppað frá (dodge) þegar að einhver gerir árás á þig og eykur það möguleikann á einstaklingsbundnum hæfileikum spilara. Að sikk-sakka (strafe) hefur einnig raunverulegt gildi í þessum leik út af sömu ástæðu. Einnig inniheldur leikurinn byltingarkennt kerfi til þess að miða á einhvern (automatic lock on) sem tekur tíma að venjast en er snilld þegar maður kann orðið á það.

Öfugt við flesta nútíma MMO leiki sem forðast það að gefa spilurum möguleikann á svæðisstjórnun (crowd control), þá hafa allar týpur í Guild Wars 2 einhvers konar form af svæðisstjórnun. Einnig hafa flestir leiðir til þess að festa spilara (root), gera þá veikari (debuff), sem og gera vini sína öflugri (buff). Þetta gerir bardagann lifandi og fjölbreyttan.

Smíði (crafting). Leikurinn inniheldur háþróað smíðakerfi sem fólk hefur hrósað fyrir skemmtilega hönnun og mikinn viðhaldskraft. Því miður náði ég ekki að smíða neitt á meðan þessari beta helgi stóð, en mun bæta úr því þegar að næsta beta helgi tekur við. Kerfið á þó að vera fullkomið og skemmtilegt og hef ég ekkert heyrt um það nema jákvæða hluti.

Spilarar andspænis spilurum (PVP).  Öfugt við flesta nútíma MMO leiki, þar sem að aðal áherslan er annað hvort á stríð milli spilara eða hið hefðbundna form af leiðangrum í heimi tölvupersóna, þá hefur Guild Wars 2 ekki einungis eitt form af stríði milli spilara, heldur tvö. Annað formið er líkt tölvuleikjum eins og "Counter Strike" eða "Call of Duty" þar sem að átta til sextán spilarar fara inn á netþjóna og herja stríð á móti öðru liði af spilurum. Hitt formið er raunverulegt stríð milli þriggja heimanetþjóna (þ.e. netþjónar þar sem að klasi af spilurum (home server) á heima á keppir á móti öðrum klasa af spilurum). Bæði formin eru óhemju skemmtileg og hefur milliheimastríðið áhrif á aðstæður innan hvers klasa eftir því hvernig klasanum gengur í stríðinu.

Fara á mínútu 2:28


Endaleikur (endgame). Flestir MMO leikir þjást af endaleikjavanda, þ.e. þegar að spilarar flýta sér til þess að komast í endaleikinn þar sem að þar gerist allt það sem er mest spennandi og það er þar sem allir spila saman. Vegna þess hvernig Guild Wars 2 skiptir upp heiminum í sögu og stríð milli spilara er enginn slíkur vandi. Þú getur alltaf hoppað inn í stríð milli spilara og ert þá sjálfkrafa færður upp á stig (level) 80, sem er síðasta stig leiksins - og ert þá jafn öllum öðrum spilurum. Þú getur notið sögunnar í friði, og ef þig langar að berja á öðrum spilurum geturu hoppað inn í stríð milli spilara hvar og hvenær sem er með því að ýta á einn takka. Ef þig langar svo aftur að spila söguna er það jafn einfalt.

Það eru litlu hlutirnir sem skipta máli. Leikurinn hefur endalaust af frábærum fítusum sem ómögulegt er að telja upp hér, fítusum sem hafa vanalega pirrað þig og staðið í vegi fyrir því að þú sért að skemmta þér í öðrum leikjum.
T.d. getur þú
  • samstundis ferðast á milli svæða sem þú hefur áður skoðað (ekkert endalaust hlaup heimshornanna á milli!)
  • opnað upp uppboðssvæðið (auction house), svæði þar sem þú getur keypt og selt hluti til annarra spilara, hvar og hvenær sem er
  • kortið telur upp svæðin sem þú getur skoðað og hversu mörg svæði þú átt eftir að skoða
  • fengið hellings reynslustig fyrir það eitt að skoða þig um
  • o.s.frv. o.s.frv. o.s.frv.
Samantekt

Þessi leikur er hreint út sagt magnaður. Aldrei hef ég séð prufað eins fínpússaðan MMO leik, stútfullan af byltingakenndum fítusum, hvað þá áður en hann er kominn út. Þessi leikur hefur núna í beta stigi sömu tilfinningu og MMO sem ég hef spilað sem hafa fengið uppfærslur og áframhaldandi þróun í þrjú ár. Útfærslan í heild sinni er byltingarkennd og hef ég ekki fundið sömu tilfinningu um það að prufa eitthvað algjörlega nýtt á nálinni og síðan að fyrsti Diablo leikurinn var og hét.

Ef einhver MMO spilari lætur þennan leik framhjá sér fara er það að mínu mati líkt því og að missa viljandi af hinum heilaga gral :)

Guild Wars 2 er fullkomnunin uppmáluð og get ég ekki beðið eftir því að hann komi út svo ég geti upplifað gömlu góðu dagana þar sem að maður hvarf inn í nýjan og ókannaðan heim fullan af ævintýrum og nýrri upplifun.

Njótið vel!

E.s. Enn er hægt að "pre-purchase" til þess að fá aðgang að beta helgum. Næsta beta helgi ætti að vera eftir c.a. 2-4 vikur.
"People hardly ever make use of the freedoms that they do have, like freedom of thought. Instead they demand freedom of speech as compensation" - Kirkegaard