“Ahh, þetta var gott” segi ég og þurka blóðið framanúr mér. Fyrir neðan fætur mína liggur varúlfur, nánast hogginn í tvennt. Loftið er fyllt af reyk vegna galdra sem nornin og vinkona mín hún Freya hefur skotið að úlfinum. Hann er nánast sviðinn allur, blóðugur og tættur.
“Slepptu nú hamrinum, góði vinur.” heyri ég mælt, og á þeirri stundu tek ég eftir því að hnúarnir mínir eru hvítir af blóðleysi, ég held svo fast í vopnið mitt. Ég finn fyrir þykkri og stórri hendi á öxl minni. Þetta er Tynan, minn æskuvinur til margra ára sem lagði fyrir sig að geta hjálpað öðrum. Ég anda léttar, hann er hér við hlið mér að hjúkra að sárum mínum. Ég slíðra hamarinn minn og sest niður.
Við hlið mér situr Tsinanok, annar af mínum æskuvinum og skáld að auki. Ó hvað hann hefur stutt mig í okkar baráttu og veitt mér aukinn styrk og vellíðan í gegnum árin. Fyrir framan mig sitja svo Freya og Tynan. “Þetta er góður hópur” hugsa ég með mér þegar ég horfi yfir hópin.
Við höfum gert svo margt saman, orðið þéttari undanfarna mánuði. Ég man fyrst eftir því þegar ég hitti Tynan, í hyldýpum Nisse. Þar lá hann meðvitundarlaus fyrir neðan mig. Ég vissi ekki þá hversu góður vinur í raun hann væri, þvílíkt ljúfmenni í svona stóru trölli hélt ég að væru ekki til. Það sama má segja um Tsin, hann hefur staðið við hlið mér allan þennan tíma og sungið sína söngva okkur til skemmtunar og yndisauka. Með honum við hlið okkar virðast ferðir okkar um Miðgarð svo léttar, að við nánast svífum er við ferðumst. Bardagasöngvar hans hafa einnig verið mikilvægir þegar hættur steðja að. Alveg merkilegt hvað svona lítill naggur með sitt bláleita andlit geti verið svona mikil hjálp. Ég berst við hlið hans hvenær sem er, það er ekki spurning.
Svo er það hún Freya, stúlkan sem hefur lagt fyrir sig lestur galdrarúna. Norn mætti kalla hana, en fyrir mér er hún meira en það, hún er bjargvættur okkar þegar kemur að erfiðum óvinum. Hún getur með sýnum göldrum lagt bölvun á óvini okkar, að þeir eigi mun erfiðar að ná að okkur ásamt annarra galdra sem hún hefur skrifað í bókina sína. Fyrir mitt leiti er hún nauðsynleg í okkar hóp en galdrar eru ekki mitt fag og vil ég lítið vita um starfsemi þeirra. En öflugir eru þeir. Og ég hef oftar en ekki hugsað með mér að ég muni aldrei reita hana til reiði, svo ógnvænleg getur hún verið.
Ég er hins vegar bardagadvergur í eðli mínu. Ég geng með hamar í belti mínu og ber skjöld á vinstri hendi. Mitt hlutverk er að verja hópinn fyrir árásum óvina og óvætta. Tsin hefur svipað blóð í sínum æðum, en hann fór aðra leið en ég og notar galdra sér við hlið. Ég veit að ég virðist einfaldur, en heiðurinn er þvímunmeiri þegar ég hef fellt einhvern sem herjar að hópnum.
Ég er staddur í helli, þar sem háttsettir varúlfar dvelja. Mig hryllir við þeim. Skröltið í skoltunum þeirra vekur upp viðbjóð og slepjulegur feldurinn þeirra lúsugur og grófur lítur út eins og rennblautt og myglað teppi í þaklausum skúr. Loftið er að léttast og ómurinn af Tsin raula hvíldarsöngva bergmálar í hörðum veggjunum. “Þetta hefur verið góður dagur“ hugsa ég með mér, “við höfum barist vel og lengi og það er kominn tími til að leggjast til hvílu.“ Við leggjum af stað út úr hellinum og sólin brennir andlit mitt er út er komið. “Norður” kallar Tynan með sinni þungu rödd, “það er kominn tími fyrir okkur að tala við kennara okkar í Jordheim”.
Við svífum af stað…
Dreitill Dropason esq.