Ætla að segja frá kvöldinu í stuttu máli.

Provoke voru fyrstir á svið rétt yfir 10 ef ég man rétt, og stóðu sig bara ágætlega, mjög þétt hjá þeim miðað við hvað þetta er nýleg hljómsveit. Fínasta dauðarokk sem ég mæli með að fólk fylgist með í framtíðinni. Svo ekki löngu eftir það stigu Finngálkn á svið, og spiluðu bara nokkuð vel, þrátt fyrir smá tækniörðugleika. Frumfluttu nýtt lag sem ég náði ekki alveg hvað hét, en það lofaði góðu. Nokkru síðar mættu Shogun á svið, og stóðu sig eins og hetjur. Mjög öflug sviðsframkoma og spiluðu bara mjög vel. Án efa band kvöldsins (fyrir utan Týr, augljóslega). Þegar hér er komið við sögu er flestir komnir vel í glas og komin þessi líka fína stemning í salinn. Disturbing Boner voru næstir á svið, og stóðu sig nokkuð vel, þrátt fyrir að söngvarinn var mestallan tímann að beygja sig til að lesa textana. Spiluðu svo einn auka lagbút með sviðið fullt af slammandi fólki.

Eftir þónokkra bið var svo komið að því. Týr stigu á svið við mikinn fögnuð og fólk hrúgaðist fyrir framan sviðið. Þeir byrjuðu á Sinklars Vísa, og þeir sem gátu sungu hástöfum með, á meðan hinir þóttust kunna textann eða öskruðu bara “WHOOOOOO!”. Enda tilefni til. Held að þeir hafi verið mjög ánægðir með áhorfendurna, eða eins og söngvarinn orðaði það “Alveg ljómandi”. Þannig hélt stór hluti kvöldsins áfram, þangað til að þeir byrjuðu á Ormurin Langi. Hópurinn fyrir framan sviðið sirka tvöfaldaðist og ég er nokkuð viss um að allir hafi sungið með, enda alger snilld þetta lag. En þeir héldu nú samt áfram, og aftur varð allt vitlaust þegar þeir byrjuðu á Hail to the hammer. Eftir það ætluðu þeir að segja þetta gott, en spiluðu samt tvö lög í viðbót(Wild rover og danskt þjóðlag sem ég man ekki hvað heitir).

Til að gera langa sögu stutta, alveg magnað kvöld og held að allir sem voru viðstaddir hafi skemmt sér mjög vel.


METAL PREVAILS !
Þangað til þú hefur náð þroska