Þeir sem hafa ekki búið undir steini á Íslandi vita að tónlistarsumarið í ár hefur verið og á eftir að verða alveg með einsdæmum fjörugt. Þetta á sérstaklega við um þungarokkið, ég held ég leyfi mér að fullyrða að hvergi sé hlutfall tónleika með þungarokkshljómsveitum eins hátt og hérna á Íslandi. Hver stórsveitin á fætur annarri rekur á fjörur hér og þungarokkarar á Íslandi kætast mikið! Erlendis eru tónleikar með popplistamönnum oft með mun stærri hlutdeild í tónleikaflórunni, kannski eðlilegt vegna þess að þungarokk er jú almennt séð og með einstaka undantekningum neðanjarðartónlist.

En, til þess að hægt sé að fá stærstu sveitirnar til landsins, þarf að vera hægt að halda nógu stóra tónleika, svo að sveitirnar einfaldlega sjái sér fært að mæta með sín stórshow til Íslands og þurfa að rukka sitt til þess að geta haldið úti sínu crewi og allt það.

Nú er það svo að þegar um er að ræða verulega stórar sveitir, virðist sem að auðveldara sé að fá fólk til að mæta… bara það eitt að um er að ræða margþúsund manna tónleika, merkir að fleiri virðast hafa áhuga á að mæta og maður sér alveg ólíklegasta fólk á slíkum tónleikum, fólk sem hefur hrifist með í því hype'i sem hefur skapast í kringum tónleikana en er e.t.v ekkert rosalega miklir aðdáendur til að byrja með.

Þegar um er að ræða minni tónleika, sem þó eru stórtónleikar, eins og t.d. Megadeth í Kaplakrika, þá er þessi ljómi ekki til staðar og þrátt fyrir lægra miðaverð, þá verða tónleikahaldarar að reiða sig á mun smærri hóp af aðdáendum. Bannsetta vesenið við svona tónleikahald er samt að ljósakerfið og hljóðkerfið, ásamt húsinu er samt ansi stór kostnaðarbiti og lækkar lítið í samræmi við smæð tónleikana.

Þess vegna er það alveg rosalega virðingarvert að tónleikahaldarar séu til í að taka inn sveitir ekki stærri en Megadeth, því þeir þurfa að fá inn alveg helling af fólki, bara til þess að greiða kostnaðinn við tónleikahaldið. Jafnvel þó húsfyllir sé, er ekkert víst að það sé einhver almennilegur gróði af öllu saman.

Það er því á þeim nótum sem ég hvet alla sem bara hafa einhvern áhuga á að fara á Megadeth að slá til, enda þykir mér alveg ljóst að ef að Megadeth nær ekki að standa undir sér, þá gæti það þýtt endalok tónleika í þessari stærðargráðu í þungarokkinu… Það þorir enginn að taka þá áhættu og það verða þá bara litlir tónleikar á Grand Rokk eða Gauknum eða risatónleikar í Egilshöllinni sem um verður að ræða - þó slíkir tónleikar séu sinna góðra gjalda verðir auðvitað. Það merkir bara að millistærðar þungarokksbönd, bönd sem hafa ekki náð einhverju commercial breakthrough hér á Íslandi, bönd eins og t.d. Slayer, Dream Theater, Nightwish, In Flames, Fear Factory, Motorhead, Dio, Rob Zombie, Dimmu Borgir og fleiri, eiga í raun enga möguleika á að spila hérna, nema mæta með miklu minni show en þau eru vön að stilla upp, með tilheyrandi sviðsmynd og production, crewi og svoleiðis og slíkt gerist bara ekki svo oft…

4500 kall er heldur enginn peningur fyrir svona show… þetta er minna en tveir geisladiskar í Skífunni…. Þetta er ódýrara en að fara út á djammið eitt kvöld (með nokkrum bjórum og leigubíl heim).

Hvet ykkur til að mæta um leið og ég minni á að Megadeth er alls ekkert slor hljómsveit. Þeir voru með frumkvöðlum thrash/speed metalsins á áttunda áratugnum, við hlið Metallica, og gáfu út plötur sem fóru í gull, platínu og tvöfalda platínusölu (og svo gerðist Metallica útvarpsvænir and the rest is history). Plöturnar “Killing Is My Business… And Business Is Good”, “Peace Sells… But Who's Buying?”, “Rust in Peace” og “Countdown to Extinction” eru allar klassískar þungarokksútgáfur og alveg ljóst að hér er á ferðinni ein af áhrifameiri þungarokkshljómsveitum fyrr og síðar.

Þetta er engin spurning!

Vona að ég hafi mátt flytja þetta hingað Þorsteinn K

Þetta var svo hrikalega vel sagt hjá þér.