Wacken Metal Battle 2011 - Skráning hafin! Restingmind Concerts kynnir með gríðarlegu stolti:

WACKEN OPEN AIR - METAL BATTLE Á ÍSLANDI!

Yep. Það er komið að því. Wacken Metal Battle 2011 er handan við hornið!

Wacken Open Air er stærsta og virtasta þungarokksfestival í heiminum og hefur verið haldið sleitulaust síðan 1990. Fyrstu helgina í ágúst þjarka þar inn fyrir bæjarmörkin 80.000 gestir hvaðanæva úr heiminum til að hlusta á kanónur þungarokksins leika listir sínar. Íslendingar hafa verið að sækja þessa hátíð um langan tíma og hafa síðan 2004 m.a. farið á hátíðina í skipulagðri hópferð í gegnum Restingmind.

Árið 2004 stofnaði festivalið til hljómsveitarkeppni, Wacken Metal Battle, sem fólst í því að óþekktar sveitir sem ekki voru með hljómplötusamning upp á ermina gátu skráð sig til leiks og keppt innbyrðis í svæðisbundum undanrásum um rétt til að spila á sjálfu festivalinu. Þar fór svo fram lokakeppni þar sem sigurvegarar undanrásanna kepptu svo til að hreppa sigurlaunin.

Í byrjun var einungis handfylli af undanrásum, en í ár er svo komið að 30 lönd munu halda undanrásir og hefur fjölgað um 4 lönd/svæði frá því í fyrra! Indland mun í fyrsta sinn senda inn þátttakanda og einnig 7 lönd í mið-Ameríku sem senda inn einn sameiginlega sigurvegara. Ísland tók fyrst þátt 2009 þegar hljómsveitin Beneath hlaut hnossið og spilaði á Wacken í kjölfarið og 2010 var það Wistaria sem var fulltrúi Íslands.

METAL BATTLE ICELAND
Þetta er einfalt mál. Opnað verður fyrir skráningu frá og með núna og stendur hún yfir til 20. janúar. Verður íslenska undankeppnin haldin 5. mars á 2011 í Reykjavík. Sigurvegarinn er valinn af dómnefnd eingöngu sem þýðir að áhorfendur taka ekki þátt í valinu. Unnið er að því að fá allnokkra erlenda aðila til að koma og vera hluti af dómnefnd. Í fyrra þáðu 6 erlendir dómarar boð Restingmind um að koma og stefnt er að því að svipað verði uppi á teningnum aftur. Hafa allnokkrir þegar tilkynnt komu sína, meðal annars hvorki meira né minna en annar tveggja yfirmanna Wacken sem fær þarna tækifæri til að skoða það sem er að gerast á Íslandi í þungarokkinu.

LOKAKEPPNI METAL BATTLE
Wacken hátíðin stendur yfir frá miðvikudeginum 3. ágúst - laugardagsins 6.ágúst 2011. Lokakeppni Metal Battle hefur verið háð á W.E.T. sviðinu á Wacken en sú frábæra breyting varð á keppninni í fyrra á Wacken að í stað þess að skipta keppninni niður á fyrri part fimmtudags, föstudags og laugardags, þá var keppnin látin byrja strax á miðvikudeginum, degi sem vanalega hefur ekki verið tónleikadagur. Fyrir vikið komu miklu fleiri áhorfendur á keppnina og flestar sveitirnar spiluðu fyrir áhorfendafjölda allt upp í nokkur þúsund manns, í stað nokkur hundruð manna árin áður.

SKILYRÐI TIL ÞÁTTTÖKU
* Bandið þitt er ekki með hljómplötusamning og er ekki á leiðinni að skrifa undir slíkan í náinni framtíð.
* Bandið þitt getur auðveldlega spilað 30 mínútna sett af frumsömdu efni.
* Bandið þitt spilar þungarokk. Wacken er þungarokksfestival sem rúmar svo gott sem allar gerðir af þungarokki, allt frá hard rokki yfir í argasta dauðarokk, og því er keppnin opin fyrir slíkt einnig.
* Sigurvegari íslensku undankeppninnar 2010 getur ekki tekið þátt aftur.
* Sveitir sem tóku þátt 2009 og 2010 en unnu ekki mega taka þátt aftur og eru hiklaust hvött til þess.

VERÐLAUN
* Sveitin sem stendur uppi sem sigurvegari Metal Battle í lokakeppninni á Wacken hlýtur m.a. hljómplötusamning sem gildir fyrir allan heiminn.
* Sveitin sem vinnur lokakeppnina hlýtur að launum “full endorsement” samning við virtan hljóðfæraframleiðanda. Sveitirnar sem vinna undankeppninar í hverju landi fyrir sig hljóta einnig hljóðfæra-stuðningssamninga með sérstökum skilyrðum.
* Sigurvegarinn á Wacken hlýtur einnig réttinn til að spila á Wacken árið eftir sem eitt af númerum hátíðarinnar.
* Íslenska sveitin fær líka að ferðast frítt með hópferð Íslendinganna frá Kaupmannahöfn og beint á Wacken.
* Að auki má minnast á þann möguleika sem leynist í þessu fyrir böndin þar sem þau fá þarna einnig tækifæri til að blanda geði við önnur bönd og fólk úr bransanum.
Frekari verðlaun verða tilkynnt síðar.

SKRÁNING - UMSÓKN UM ÞÁTTTÖKU
Þær sveitir sem hafa áhuga á að taka þátt í þessu skrá sig með því að senda kynningarpakka á Restingmind Concerts. Þær samþykkja um leið reglur keppninnar sem má finna á www.metal-battle.com.

Sveitir skrá sig með því að senda eftirfarandi:
* CD með a.m.k. 3-4 lögum
* Upplýsingarsíðu með kynningu á bandi ásamt contact info

á heimilisfangið hér fyrir neðan.

WOA Metal Battle Ísland
c/o Þorsteinn Kolbeinsson
Breiðuvík 18
112 Reykjavík

Einnig er æskilegt að senda rafrænt á netfangið thorokol“hjá”gmail.com eftirfarandi: a) kynningarsíðu bandsins (t.d. í PDF formi) b) hljómsveitarmynd í góðri upplausn og c) lögin af audio disknum á mp3 formi. Í subject línunni skal skrifa: “<Nafn Sveitar> Metal Battle 2011: Kynningarefni”.

Þá er einnig hægt að láta þetta innihald fylgja með pappírsumsókninni á auka diski ef menn vilja það frekar en að senda rafrænt.

Athugið að ekki komast allar sveitir að sem senda inn umsóknir, þannig að það borgar sig að vanda sig við gerð umsóknanna! Stefnt er að því að velja einungis 6 sveitir í keppnina. Diskur með 3-4 lögum í kickass gæðum er t.d. mun betra en heill diskur í lélegri gæðum. Óþarfi er að nefna að flottur promo pakki með t.d. vel uppsettu kynningarblaði um sveitina (oft bara 1 vel uppsett síða með öllum nauðsynlegum upplýsingum, mynd, bio og contact info, heimasíðu o.s.frv.) er betra en að fá t.d. ómerktan disk og lýsingu um bandið á handskrifuðum pappír.

Hægt er að senda inn fyrirspurnir um keppnina á netfangið thorsteinnk“hjá”hive.is.

Umsóknarfrestur er til og með 20. janúar 2011!

Með kveðju,
The Wacken Metal Battle Team!
Resting Mind concerts