Lead/Rhythm Lead/Rhythm skipting gítarleikara í nútímasamhengi

Ungur drengur hér á þessu áhugamáli auglýsti sjálfan sig nýlega sem Lead gítarleikara í leit að verkefni. Þetta hugtak sem hann notar þarna minnti mig á gamla rökræðu sem ég átti í við vin minn fyrir einhverjum árum síðan.

Vissulega hefur svona hljóðfæraskipting innan hljómsveita alltaf verið ríkjandi innan tónlistarstefna á borð við Rokk, Þungarokk, Blús, Jazz og Fusion, og jafnvel í sumum Pop samhengjum, en mér hefur alltaf fundist að með þróun Þungarokksins sérstaklega að þessi skipting hafi fjarað út, og tel ég að hljómsveitir á borð við Iron Maiden, þar sem þeir eru þrír að djöflast á hljóðfærunum sínum, hafi stuðlað mjög að þessari “útfjörun”.

Samkvæmt ritgerð sem ég las fyrir einhverju síðan eru ýmsar sálfræði- og félagsfræðirannsóknir sem sýna fram á að margir hverjir sem kjósa að fara út í “Performing Arts” (leiklist, tónlist, etc) þjást af svokölluðu “external locus of identity”, þ.e. þeir meta sjálfan sig aðeins eftir því hvernig aðrir meta sig.

Ef við tökum þetta inn í dæmið sé ég hlutina þannig að ef einstaklingur kýs að spila tónlist sem hefur enga greinilega þörf á hljóðfæraskipan eins og Lead/Rhythm, en skilgreinir sig samt sem Lead er góður séns á að hann þjáist af þessari persónuauðkennis“röskun”, þar sem hann vill að skýrt sé tekið fram hvert hlutverk hans er í verkefninu og það hlutverk vill svo til að vera það sem gefur honum einhverja mestu athygli sem hann getur fengið með það sem hann hefur í höndunum. (Einnig má sjá það sem egótistíska þörf til að vera “betri” eða í “merkari” stöðu en meðspilarinn)

Svona meðvitaður eða ómeðvitaður hugsunarháttur getur þar af leiðandi varpað skugga yfir gildi tónlistarinnar sjálfar, og endað í montkjánaskap sem heyrist best hjá hljómsveitum á borð við Dragonforce.

Vissulega ætla ég ekki að neita því að margir Lead-gítarleikarar átt stóran þátt í þróun tónlistar yfir höfuð, og Þungarokk er engin undantekning þar. Nefna má þar dæmi eins og:

* Ace Frehley úr Kiss
* David Gilmour úr Pink Floyd
* Kirk Hammett úr Metallica
* Tony Iommi úr Black Sabbath
* Brian May úr Queen
* Tom Morello úr Rage Against The Machine
* Dimebag Darrell úr Pantera og Damageplan
* Jimmy Page úr Led Zeppelin
* Joe Perry úr Aerosmith
* John Petrucci úr Dream Theater
* Slash úr Guns 'N Roses
* Pete Townshend úr The Who
* Eddie Van Halen úr Van Halen
* Angus Young úr AC/DC

Fyrir minn smekk hins vegar heilla hetjusóló mig lítið í nútímasamhengi, og þá sérstaklega í Þungarokki, og það gleður mig mjög að svona stíf hljóðfæraskipan hefur ekki náð sér einhverri hrottalegri bólfestu í Þungarokkhljómsveitum Íslands. Mér þykir andskoti vel heppnað að ég viti bara af einni hljómsveit sem mér hefur alltaf fundist ríghalda í þessa greinilegu hljóðfæraskipan innan Þungarokkssenu Íslands, en sú hljómsveit ber nafnið Wistaria.

Með þessum hlutum er ég samt alls ekki að segja að ég sé á móti gítarsólóum yfir höfuð, en vissulega finnst mér að lagið þurfi að biðja um sóló; ekki leikarinn að þvinga sólói í lagið. Gott dæmi um ómeðvitað Lead(ership) í Þungarokki Íslendinga er t.d. hljómsveitin Severed Crotch, en þeir halda ekki uppi einhverri opinberri skiptingu hljóðfæranna í “gæðaflokka”, ef svo má að orði komast, og þeir halda ávallt uppi heildarsamhengi þar sem sólóin verða partur af laginu frekar en monttól.

Mín skoðun er almennt að hljóðfæraleikararnir eigi ekki að skína meira en tónlistin sjálf, og meðvitaðar hégóma-hlutverkaskiptingar af þessu tagi finnst mér geta dregið úr alvöruleika tónlistarinnar sjálfrar.

Svo má einnig líta á þetta frá öðru sjónarhorni.

Ég var sjálfur í hljómsveit fyrir rúmu ári síðan þar sem ég sá um að flytja flest þau örfáu sóló sem sett voru í lögin, en á sama tíma kom ég mjög lítið nálægt tónsmíðunum sjálfur, en hinn gítarleikarinn sá alfarið um þá hlið á þeim tímapunkti. Svo stöndum við saman á sviði og spiluðum tónlistina, segjum að ég taki sóló yfir lag sem hann samdi… gerir það mig eitthvað frekar að Lead en hann?

Þarna erum við reyndar farin að grafa í skilgreiningu hugtaksins, og kannski komin aðeins út fyrir rammann, en mín lokaniðurstaða út frá því sem ég hef hugsað er að mér þykir þessi huglæga hlutverkaskipting í nútímatónlist heimskuleg í alla staði, og endurtek ég sjálfan mig í að segja að mér finnst að hljóðfæraleikararnir eigi ekki að skína meira en tónlistin sjálf.

Hvað finnst ykkur?