Ný Iron Maiden tribute hljómsveit: MaidenIced! - tónleikar 28. nóv! MAIDENICED

Til heiðurs meisturum Iron Maiden

“The Number of the Beast”, “Run to the Hills”, “Aces High”, “Hallowed be Thy Name”, “The Trooper”;…

Fáar sveitir eru jafn elskaðar af þeim sem hlusta á rokk í þyngri kantinum en einmitt breska hljómsveitin Iron Maiden. Meðlimir sveitarinnar eru sannir holdgervingar þungarokksins og hafa stýrt skútu sinni óhaggaðri í nær 35 ár og ekki látið tískustrauma hafa áhrif á stefnu hennar. Tónlistin: ómengað og óspillt þungarokk, án allra aukaefna og bætiefna. Það hefur haft það í för með sér að sveitin er enn að gefa út gæðaplötur og eru tónleikar sveitarinnar mikið sjónarspil sem draga að sér marga tugi þúsunda á hverjum þeim stað sem þeir koma við á.

Það kemur því ekki á óvart að Iron Maiden er líklega sú sveit sem á sér hvað flest tribute bönd, sem mörg hver eru orðin þekkt á heimsvísu.
Bandaríska sveitin The Iron Maidens kemur þar fremst í huga en sú sveit er eingöngu skipuð kvenmönnum. Danir eiga einnig sína sveit Maiden Aalborg, frá Hollandi koma Up The Irons og Somewhere on Stage, Moonchild koma frá Svíþjóð, Iron Maidnem frá Ungverjalandi, Invaders frá Ítalíu og svo mætti lengi…

Það var því bara tímaspursmál þangað til að slík sveit yrði stofnuð á Íslandi fyrir alvöru og var það gert síðla sumars 2009 þegar meðlimir nokkurra sveita í íslenska þungarokkinu tóku sig saman og stofnuðu sveitina MaidenIced. Á lagalistanum eru mörg þekktustu lög sveitar­innar, ásamt handfylli af vel völdum gersemum úr lagakistu Járnfrúinnar sem e.t.v. fá að heyrast sjaldnar.

Tónleikar á Sódóma 28. nóvember
Sveitin mun koma fram í fyrsta sinn laugardaginn 28. nóvember á Sódóma Reykjavík. Þetta verður sannkallað gítarkvöld, því upphitun kvöldsins verður í höndum Dark Harvest og Perlu. Þeir sem eru með gítarsólóóþol ættu að halda sig fjarri…

DARK HARVEST er sveit sem varla ætti að þurfa að kynna. Stofnuð af hinni einu sönnu gítarhetju íslands Gulla Falk árið 2002 og upprunalega sem instrumental sveit. Gulli fékk til liðs við sig einn mesta bassa­snilling þjóðarinnar, Magnús Halldór Pálsson úr Forgarði Helvítis og skriðdrekann sjálfan á trommur, Kristján B. Heiðarsson úr Changer. Þess má geta að Dark Harvest hafa fengið hinn eina sanna Eirík Hauksson til að syngja inn á væntanlega breiðskífu sem gerir hana að þeirri plötu sem rokkhundar bíða með hvað mestri eftirvæntingu eftir, enda ár og dagar síðan Eiki hefur sungið á íslenskri þungarokksplötu.

PERLA er sveit sem er alveg gríðarlega hæfileikarík. Sveitin var stofnuð uppúr 2006 og hófu ferilinn á því að sigra í undankeppni Global Battle of the Bands á Íslandi sama ár. Þeir hafa á live-ferli sínum hitað upp fyrir Týr á Íslandi, spilað á Iceland Airwaves og á NXNE í Toronto. 2008 hélt bandið utan til BNA til að taka upp sína fyrstu plötu með Grammyverðlaunaða upptökustjóranum Neil Kernon (sem unnið hefur með m.a. Cannibal Corpse, Nile, Queenryche, Hall & Oates og mun fleirum). Á sú plata eftir að líta dagsins ljós vonandi í náinni framtíð.

Upplýsingar um tónleikana
Hvar: Sódóma Reykjavík
Hvenær: 28. nóvember 2009
Húsið opnar 21:30 - byrjar 22:30
Upphitun: Dark Harvest og Perla
Miðaverð: 1500 kr í forsölu /
2000 kr við hurð
Aldurstakmark: 18 ára

Forsala aðgöngumiða
midi.is og útsölustöðum Skífunnar
Tónleikarnir á midi.is: http://midi.is/tonleikar/1/5763/

poster á leiðinni…
Resting Mind concerts