Metal er ekki tónlist Ég ákvað að hafa titilinn án gæsalappa, til að hafa hann aðeins meira grípandi.


Metal er ekki tónlist“ er setning sem við heyrum mjög oft frá fólki sem tilheyra ekki þessu samfélagi sem við erum búin að skapa okkur. En hvar liggur munurinn á fyrirbærunum hljóð og tónlist.

Einhver sagði mér einu sinni að tónlist væri skipulagt hljóð. Annar sagði mér að honum fyndist allt vera tónlist; umferð bíla, glas að brotna, fuglasöngur, hljóðið úr tölvunni þegar hún er í gangi…


Á síðustu öld var heimsfrægur píanóleikari sem hélt gríðarstóra tónleika. Þegar áhorfendurnir höfðu komið sér fyrir gekk hann út á sviðið við mikil fagnaðarlæti. Hann settist við píanóið og lagði hendur á hljómborðið, en gerði ekkert. Mínúturnar liðu og þarna sat hann hreyfingarlaus. Í fyrstu heyrðist aðeins hóst úr nokkrum áhorfendum en því lengur sem á leið fór að heyrast meira og meira frá áhorfendunum sem urðu þreyttari og pirraðari. Þetta stigmagnaðist í öskur og reiði, og á endanum fór fólk að strunsa út. Þegar fólkinu hafði fækkað verulega stendur píanóleikarinn upp og gengur útaf sviðinu.
Þetta var tekið upp og gefið út, því viðbrögð og hljóðið úr áhorfendunum við þessu var í raun verkið.
Þarna var búið að taka ósköp venjulegt hljóð og setja það í samhengi sem gerði það að tónlist. Þetta finnst mér vera besta skilgreiningin á hugtakinu tónlist, skipulagt hljóð.


Þungarokk, dauðarokk og allur sá pakki er engin undantekning. Það er ekkert eðlilegra en að hræðast og fordæma það sem maður skilur ekki, en mér finnst ekkert heimskulegra en að fyrirlíta það sem maður hefur ekki kynnt sér.

Þungarokk hefur marga hluti fram yfir aðrar tónlistarstefnur, og í heildina er þetta tónlist sem krefst ennþá meiri vinnu að hálfu hlustanda en margt annað. Ég sjálfur er dæmi um mann sem, sérstaklega gagnvart dauðarokki, þurfti að setjast niður og eyða mjög miklum tíma í að læra að meta hluti eins og growl söng og blast trommuleik. En þegar ég gerði það sá ég ekki eftir því, því að þetta veitti mér innsýn inn í alveg nýjan heim.

Ég stend fastur á því að tónlistin sem ræður ríkjum í dag sé plága, því þarna er verið að ýta upp á fólk, sem gæti alveg lært að meta tónlist útfrá eigin áhuga og smekk, úthugsuðum og markaðslegum samansetningum af tónum og hljóði sem að er búið að sanna á vísindalegan hátt að höfði til heilans. Það sem hryggir mig mjög er að þessi plága er í tísku um þessar mundir, og þetta mun hafa hræðileg framtíðaráhrif á fólkið sem sýgst inn í þennan vef.

Með þetta sem sjónarmið er vert að taka fram ákveðna pælingu sem vinur minn kom með fyrir stuttu, þar sem hann benti á að það ættu fleiri þungarokksbönd að komast inn í mainstreamið. Eftir að hann útskýrði hvað hann meinti með því varð ég fullkomlega sammála honum. Sú pæling er í raun bara snjóboltaáhrifin í þessari mynd; einfalda fólkið heyrir þungarokk á uppáhaldsstöðinni sinni, þeir fara að fíla það einungis því það er á þeirri stöð, þaðan af hoppar óafvitandi yfir vegginn sem skilur þungarokk að öðrum tónlistarstefnum og uppgötvar þennan heim sem ég tala um.
Til stuðnings þessari kenningu má nefna það að ég sjálfur og margir af þeim hörðustu þungarokkurum sem ég þekki urðu þeir sem þeir eru núna því þeir hlustuðu á þungarokk sem var mainstream; Korn, Slipknot, Iron Maiden…

Það er samt í eðli þungarokksaðdáenda að fyrirlíta mainstreamið og lofsyngja þá tónlistarmenn sem halda sig frá því, en hvað er að því að vera frægur? Er það ekki vilji okkar tónlistarmanna að sem flestir heyri og upplifi boðskapinn sem við erum að reyna að koma til skila í tónlistinni?

Ég stend líka fastur á því að það að fíla þungarokk sé ekki samhliða því að vera betri en aðrir, því það er engin staðreynd. Ég tek mjög oft eftir því að þó metalhausar fái oft skít fyrir tónlistina og klæðnaðinn, þá eru þeir ekki heilagir því sjálfir koma þeir með mikinn skít til baka gagnvart fólki sem fílar ekki þungarokk. Þarna er líka mjög mikilvægur punktur…
Ég get leyft mér að koma með áherslur gegn því mainstreami sem ræður ríkjum núna því ég hef kynnt mér hana. Það er eitthvað sem fjarast svolítið út í rökræðum, því það er jú mikill munur á fordómum og smekk. Til dæmis er þessi sami vinur minn fastur á því að hann fýli ekki dauðarokk, og það er eitthvað sem ég get virt án þess að kalla hann hálfvita eða einfaldling, því hann hefur kynnt sér þennan heim. Það að gleyma þessum mun ýtir báðum aðilum rifrildsins á hærri stall en þeir eiga kannski skilið, og í mörgum tilfellum finnst fólki það vera betri en aðilinn sem það er að rökræða við.

Ég get á þessum punkti komið með einhversskonar innskot á að mér finnist að allir ættu að lifa bara í sátt og samlyndi en ég veit að það er ekki að fara að gerast, því það er svo mikið af hálfvitum í báðum hópum þessa umræðuefnis, en ég get komið því frá mér að ég er mjög á móti fordómum í heildina.

Ég vil líka taka fram að ég lít ekki á sjálfan mig sem einhvern heilagan einstakling sem veit allt betur en aðrir … en ég hef mína skoðun á þessu máli, og mér finnst þetta bara leiðinleg staða.


En aftur að; „Metal er ekki tónlist“.

Ef ég held mig við grunnkenninguna mína á tónlist þá fellur þungarokk í flokk tónlistar þar sem þetta er skipulagt hljóð. Fyrir mér er þetta bara svona einfalt.
Ef einhver hefur einhver rök fyrir því að „Metal er ekki tónlist“ sé rétt gagnrýni, þá vil ég glaður heyra þau því að mér þykir fátt jafn skemmtilegt eins og að rökræða við einhvern sem hefur eitthvað til að styðjast við.


Haukur H. Reynisson