Umsóknarfrestur í Wacken Metal Battle Iceland framlengdur Í ár verður í fyrsta sinn haldin á Íslandi undankeppni fyrir alþjóðlegu hljómsveitakeppnina Wacken Metal Battle.

Wacken er nafnið á litlum smábæ í Norður-Þýskalandi sem á hverju sumri umturnast í einn allsherjar risa þungarokksbæ þegar Wacken:Open:Air hátíðin er haldin. Fyrstu helgina í ágúst þjarka þar inn fyrir bæjarmörkin 70.000 gestir hvaðanæva úr heiminum til að heyra kanónur þungarokksins spila. Í ár er svo komið að hátíðin verður haldin í 20. skiptið og því verður mikið um dýrðir.

Á síðustu árum hafa skipuleggjendur hátíðarinnar gefið fjöldanum öllum af ungum og efnilegum hljómsveitum tækifæri til að koma og spila á þessari hátíð. Í því skyni settu þeir á laggirnar hljómsveitakeppnina Wacken Metal Battle árið 2004. Sigursveit keppninnar hlýtur m.a. að launum hljómplötusamning fyrir allan heiminn, magnara, trommusett og fullt af öðrum græjum og auðvitað heiðurinn af því að spila að ári fyrir mörg þúsund manns á mun betri stað í programminu.

Í ár munu 20 þjóðir halda undankeppnir í sínu landi og er Ísland ein af þeim. Sigursveit hvers lands fyrir sig fær svo þátttökurétt í lokakepninni sjálfri á Wacken. Það er ekki amalegt að hugsa til þess að loksins mun íslensk hljómsveit stíga á svið á þessari goðsagnakenndu þungarokkshátíð.

Fyrirkomulag keppninnar - erlend aðkoma
Sveitir senda inn umsókn um að fá að vera með, og mun sérstök nefnd fara yfir umsóknirnar og velja 6 sveitir til að taka þátt í keppninni, en einungis eitt kvöld verður haldið, ólíkt öðrum hljómsveitakeppnum sem farið hafa fram hér á landi. Því er óneitanlega mikilvægt fyrir sveitir að vanda til umsóknanna.

Í keppninni sjálfri mun dómnefnd sjá um að velja sigurvegara en í henni verður m.a. blaðamaður frá einu stærsta metal-tímariti Evrópu (Aardschok magazine). Aukinheldur er sá aðili með sitt eigið bókunar- og umboðsskrifstofufyrirtæki, en fyrirtækið sér m.a. um að bóka tónleikaferðalög með sveitum eins og Enslaved, Entombed, King Diamond, Suffocation og mun fleiri. Einnig sér fyrirtækið hans um skipulagningu eins stærsta metalfestivals Hollands, Arnhem Metal Meeting ásamt fleiri hátíðum.

Sannarlega kanóna hér á ferð og það er því ekki annað hægt að segja en að vera þessa manns hér er mikill fengur fyrir þær sveitir sem hann á eftir að berja augum. Möguleikar sveitanna til að láta á sér kræla í einum stærsta markaði þungarokksins í heiminum, Evrópu, munu ekki gera neitt annað en að aukast ef eitthvað.

Umsóknarfrestur
Sökum þess að undankeppnin mun fara fram síðar en áætlað var, hefur umsóknarfresturinn verið framlengdur til 1. febrúar en hann átti upphaflega að vera 15. janúar. Keppnin verður að öllum líkindum í apríl (í stað mars), en nánari dagsetning verður auglýst síðar. Verður keppnin haldin í TÞM og því opin öllum aldurshópum.


Sveitir skrá sig með því að senda eftirfarandi:
* Demo CD með a.m.k. 3-4 lögum
* Mynd af sveitinni
* Upplýsingar um sveitina (bio)
* Contact info
á heimilisfangið hér fyrir neðan:

WOA Metal Battle Ísland
c/o Þorsteinn Kolbeinsson
Rafstöðvarvegur 33
110 Reykjavík

Um leið samþykkja þær reglur keppninnar sem finna má á www.metal-battle.com. Einnig er hægt að sjá þar nánar hvað vinningshafar fá í sinn hlut.

Hópferð á Wacken
Síðastliðin 5 ár hefur hópur Íslendinga tekið sig saman og fjölmennt á þessa uppskeruhátíð þungarokkara og taldi hópurinn 80 manns í fyrra. Nú er þó svo komið að það er hvorki meira né minna en uppselt á hátíðina í ár hjá söluaðilum úti - og hátíðin er ekki fyrr en í ágúst! Þó er eitthvað af miðum ennþá til hjá hópferðinni en hún tryggði sér slatta af miðum áður en uppselt varð.

Frekari upplýsingar má nálgast hjá:

Þorsteini Kolbeinssyni
8234830
thorsteinnk@hive.is

Með kveðju,
The Wacken Team!
Resting Mind concerts