Þá er komið að stærstu rokk, punk og metal tónleikum sumarsins, Eistnaflug 2007 sem eru haldnir í Egilsbúð Neskaupsstað dagana 13. og 14. júlí. Þetta er í þriðja skiptið sem Eistnaflug er haldið og það í enn stærri sniðum.

Alls spila tæplega 40 hljómsveitir í hátíðinni í ár. Þar ber að nefna sveitir eins og Momentum, Sólstafi, Changer, Severed Crotch, Bootlegs og fleiri.

Til þess að komast á Neskaupsstað í sumar eru nokkrar leiðir í boði:

a) Rokkrúturnar - Niðurgreiddar rútur sem fara frá BSÍ kl 8:00 um morguninn, fimmtudaginn 12. júlí. Áætlað er að vera komin í Neskaupsstað 20:00. Rúturnar fara síðan frá Neskaupsstað, sunnudaginn 15. júlí um hádegisbilið. Áætluð heimkoma í Reykjavík er um miðnættið. Það kostar einungis 6500kr framogtilbaka - en til samanburðar kostar venjulega 12.000kr önnur leiðin austur á Egilsstaði (sem er 70km) frá Neskaupsstað. Ath. að rúturnar fara hringveginn, norðurleiðina fyrst og síðan suðurleiðina heim.

b) Flug - Hægt er að panta flug á www.flugfelag.is - en það nær ekki lengra en til Egilsstaða og þaðan eru 70km til Neskaupsstaðar. Verðin eru mismunandi. Áætlunarbíll keyrir á milli Egilsstaða og Neskaupsstaðar - upplýsingar fást á BSÍ.

c) Bíllinn - Ísland er bílaþjóð, vinahópar ættu því að geta splæst saman í bensín til þess að komast á staðinn.


Þegar á Neskaupsstað er komið verður sérstakt Eistnaflugsstjaldstæði inní bænum. Á tjaldstæðið kostar ekki krónu og öllum er frjálst að mæta.

Á sjálfa tónleikahátíðina kostar miði fyrir annan daginn 1500kr en fyrir báða dagana er hægt að kaupa armband á 2500kr.

Samkvæmt áreiðanlegum tölfræðilegum upplýsingum hefur alltaf verið gott veður þegar Eistnaflug er haldið á Neskaupsstað, ólíkt verslunarmannahelginni - þá benda allar líkur til þess að veðrið verður æðislegt yfir eistnaflugshelgina.

Eftir að tónleikarnir eru búnir á laugardeginum verður haldið risapartý - athugið að þá er 18 ára aldurstakmark vegna þess að barinn opnar. Hinsvegar verður annað sambærilegt fjör á tjaldstæðinu þar sem enginn bar er og því er öllum frjálst að vera þar.

Vonandi sjáumst við öll hress á Eistnaflugi - takið þjófstart á verslunarmannahelgina!